Stefnan í heilbrigðismálum

Fimmtudaginn 16. október 1997, kl. 11:37:15 (546)

1997-10-16 11:37:15# 122. lþ. 11.93 fundur 55#B stefnan í heilbrigðismálum# (umræður utan dagskrár), JónK
[prenta uppsett í dálka] 11. fundur

[11:37]

Jón Kristjánsson:

Herra forseti. Miðað við þær umræður sem verið hafa um heilbrigðiskerfið mætti halda að það væri í kalda koli. Það er langt frá að svo sé. Við Íslendingar höfum góða heilbrigðisþjónustu með góðu starfsfólki sem hefur náð miklum árangri. Við verjum til hennar miklum fjármunum. Hinu er ekki að neita að útgjaldaþörfin er mikil til þess að vera samkeppnisfærir í launum til heilbrigðisstétta sem við þurfum að vera og taka inn nýjungar í heilbrigðisstarfseminni.

Hæstv. heilbrrh. rakti áðan að fjölmargar nýjungar hafa verið teknar upp á síðustu árum og er óþarft fyrir mig að endurtaka það. Hins vegar eru vandamál uppi, því er ekki að leyna. Auðvitað er alvarlegasta vandamálið núna þessa stundina kjaramál lækna og þroskaþjálfa, bæði í heilsugæslunni og kjaramál sérfræðinga. Allt þarf að gera til að útkljá þau mál og á vettvangi heilbrrn. og fjmrh. er unnið að því. Því er heldur ekki að neita að aukin fjárþörf sjúkrahúsa er vandamál í heilbrigðisþjónustu. Biðlistar eru einnig vandamál þó þeir hafi styst í ýmsum greinum.

Því hefur verið haldið fram að stefnumótun vanti í heilbrigðismálum og það sé orsökin fyrir óþoli í umræðu um þessi mál og ugg og óróa sjúklinga og starfsfólks í heilbrigðiskerfinu. Það er alrangt að slíka stefnumörkun skorti. Ég rifja upp nokkur atriði í þeirri stefnumörkun sem núv. heilbrrh. hefur verið í forustu fyrir. Nefndar hafa verið auknar forvarnir. Það hefur verið mörkuð stefna um uppbyggingu heilsugæslu sem grunneiningar í heilbrigðismálum og verið er að framkvæma þá stefnu með uppbyggingu í heilsugæslunni í Reykjavík. Sú stefna hefur verið mörkuð að stjórnskipulag heilbrigðisstofnana skuli einfaldað og samstarf aukið þar sem hagkvæmt þykir til að mæta aukinni útgjaldaþörf. Sú stefna hefur verið mörkuð að skilgreina hlutverk þessara stofnana vel. Það hefur verið mörkuð sú stefna að ný þjónustugjöld skuli ekki vera tekin upp í heilbrigðiskerfinu og það hefur verið minnst á byggingu barnaspítala.

Eitt er að marka stefnuna og annað að framkvæma og framkvæmd kallar á breytingar. Breytingar vekja oft andstöðu og umræðu. Því er ekki að neita að umræða um breytingar, samstarf og samruna, til að mynda sjúkrahúsa í Reykjavík hafa staðið allar götur síðan árið 1992. Hinar minnstu hræringar í því efni hafa verið ræddar í fjölmiðlum og utan dagskrár á þingi og með umræðunni er reynt að koma þeirri tilfinningu inn að það séu áform stjórnvalda að minnka þjónustu og brjóta niður kerfið með niðurskurði. Því fer víðs fjarri. Skipulagsbreytingar eiga að miða að betri nýtingu fjármuna og betra vinnuumhverfi sem felst í því að hlutverk hverrar stofnunar sé skilgreint sem allra best og verkaskipting milli þeirra sé skýr. Þetta á bæði við í Reykjavík og þetta á við um allt land. Það er afar mikilvægt fyrir sjúklingana sem eiga að vera í forgangi og það á að miða út frá þeim og síðan starfsfólki stofnananna. Grunnurinn er fyrir hendi til að byggja á.

Óútkljáðar kjaradeilur við lækna eru mjög alvarlegar. Gallinn er sá að hluta af þeim erfiðleikum má rekja til deilna innan læknastéttarinnar. Það er nauðsynlegt að yfirvöld heilbrigðismála fái stuðning við að leysa þessar deilur og kjaranefnd skili sínu verki. Deilur við sérfræðinga mega ekki með neinu móti verða til þess að sjúklingar missi tryggingavernd sína hjá Tryggingastofnun. Það ber að koma í veg fyrir.

Ýmsir tala á þann veg að átök um heilbrigðiskerfið sé ný bóla. Svo er auðvitað alls ekki. Erfiðleikar og skiptar skoðanir um leiðir verða ætíð í hinum stóra og viðkvæma málaflokki. Stefnan liggur fyrir og það er samstaða í stjórnarliðinu um að framkvæma hana.