Stefnan í heilbrigðismálum

Fimmtudaginn 16. október 1997, kl. 11:45:11 (549)

1997-10-16 11:45:11# 122. lþ. 11.93 fundur 55#B stefnan í heilbrigðismálum# (umræður utan dagskrár), ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 11. fundur

[11:45]

Ásta R. Jóhannesdóttir:

Herra forseti. Við erum að ræða hér stefnuna í heilbrigðismálum. Þeim sem þurfa á heilbrigðisþjónustunni að halda, almenningi, virðist ríkja stefnuleysi í þessum málaflokki en hæstv. heilbrrh. talar um að hér sé skýr stefna á ferðinni. En ég spyr: Er það góð stefna ef hún er skýr? Er t.d. þumalskrúfureglan sem notuð er á sjúkrahúsin á höfuðborgarsvæðinu góð stefna?

Því miður hafa stjórnendur sjúkrahúsanna á höfuðborgarsvæðinu varla getað sinnt því að sinna sjúkum vegna þess að þeim hefur verið falið að snúa sér að því hvernig hægt sé að skera niður og spara endalaust. Nú síðast var sett á laggirnar enn ein nefndin, það var þriggja manna nefnd fjmrh., heilbrrh. og borgarstjóra, í mikla vinnu við það að skera niður eða athugun á því hvernig væri hægt að spara í rekstri sjúkrahúsanna á höfuðborgarsvæðinu. Eftir margra mánaða vinnu, átta eða níu mánaða vinnu, komust menn að því að hægt væri að spara 205 millj. Þegar fjmrh. kemur síðan og kynnir fjárlagafrv. þá virðist í fljótu bragði vanta 800 millj. kr. til að standa að óbreyttum rekstri. Það hefði nú kannski verið eðlilegt að þarna vantaði 205 millj. kr. En það voru 800 millj. kr. Þetta er eftir alla vinnuna á vegum nefndarinnar sem ráðuneytin settu í að skera niður. Settir voru stórir fyrirvarar af stjórnum beggja spítalanna um að þessi sparnaðaráform væru raunhæf sem áttu að leiða til 200 millj. kr. Það virðast vera orðin hefðbundin vinnubrögð stjórnvalda að lögð séu fram og samþykkt fjárlög sem vitað er að í vantar háar fjárhæðir til þess hægt sé að reka sjúkrahúsin. Síðan þarf að fara í samninga við ríkið um það hvernig á að ná fram þessum peningum og menn verða að fara í enn meiri sparnað á móti. Þetta er orðinn algjör skrípaleikur og má eiginlega kalla nokkurs konar þumalskrúfuvinnubrögð. Því miður eru fjármögnunargjöld eða dráttarvextir orðinn stór liður á rekstri sjúkrahúsanna sem ekki var áður.

Eitt af því sem lofað var við síðustu samningagerð af þessu tagi var að sjúkrahúsin fengju forgang að hjúkrunarheimilum til að losa um dýr sjúkrarúm. Ekki var staðið við það og samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef fengið, þá virðast legudagar á fjórum mánuðum vera um 2.000 vegna þess að ekki er hægt að losa dýr sjúkrarúm. Þetta er stefna hæstv. ríkisstjórnar í rekstri sjúkrahúsanna. Það hefur verið skorið niður allt of hratt og legurúmum fækkað allt of skart og engin úrræði eru til þess að bæta úr.

Ekkert fé hefur fengist í viðhald á sjúkrahúsunum og eins og komið hefur fram í sambandi við Sjúkrahús Reykjavíkur, þá er húsið allt að molna niður. Það heldur hvorki vatni né vindi og tæki hafa ekki fengist endurnýjuð og eru orðin úr sér gengin. Við stöndum frammi fyrir miklum atgervisflótta í heilbrigðisstéttum og samningar lækna eru lausir.

Þetta ástand á sjúkrahúsunum hefur gert það að verkum að bráðadeildir geta ekki annað álaginu og veikt fólk er sent allt of snemma heim og endurinnlagnir hafa aldrei verið fleiri en núna. Þeim hefur fjölgað sífellt.

Ef við höldum okkur aðeins við velferðarkerfið áfram, þá stöndum við frammi fyrir því að stór hópur sérfræðinga er ekki á samningi við Tryggingastofnun. Það gerir það að verkum að margir hafa ekki efni á að sækja sér læknisþjónustu. Þeir þurfa að greiða fullt verð fyrir læknisþjónustuna og hæstv. heilbrrh. lagði það til hér í þingsal að ef þeir gætu ekki greitt fyrir þetta á einkastofum, þá þyrfti bara að leggja þá inn eins og það sé nú auðvelt mál eins og ástandið er á sjúkrahúsunum.

Ég hef ekki tíma til þess að fara inn á vanda geðsjúkra, enda geri ég ekki ráð fyrir að ég fái nokkur svör hér því það kom fram í fjárlagaumræðunni þegar við vorum að ræða heilbrigðismálin að lítið var um svör þegar spurt var, því miður. Þó gafst mun betri tími þá til að svara heldur en hér í mjög knöppum ræðutíma í utandagskrárumræðu.

En ég vil minnast á það sem því miður var að skella á núna í byrjun september og það eru aukin þjónustugjöld á þá sem eru sjúkir og þurfa á endurhæfingu að halda, þ.e. þjónustugjöld fyrir sjúkraþjálfun, iðjuþjálfun og talþjálfun þar sem fólk sem vissulega þarf á aðstoð að halda til þess að geta komist út á vinnumarkaðinn aftur þarf að fara að greiða fyrir sína þjónustu. En því miður, herra forseti, það er ekkert um svör. Það er lítið um stefnu. Ef stefnan er einhver, þá er hún ekki góð og því miður lítur út fyrir aðgerðaleysi í þessum málaflokki. Það er alveg öruggt mál að sjúklingar eru ekki í fyrirrúmi hjá þessari ríkisstjórn.