Stefnan í heilbrigðismálum

Fimmtudaginn 16. október 1997, kl. 11:51:05 (550)

1997-10-16 11:51:05# 122. lþ. 11.93 fundur 55#B stefnan í heilbrigðismálum# (umræður utan dagskrár), heilbrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 11. fundur

[11:51]

Heilbrigðisráðherra (Ingibjörg Pálmadóttir) (andsvar):

Virðulegi forseti. Auðvitað mætti ýmislegt betur fara í stórum málaflokki eins og heilbrigðis- og tryggingamálin eru. En það er dálítið einkennilegt að það megi aldrei nokkurn tíma benda á þá jákvæðu hluti sem eru að gerast, þær byltingarkenndu breytingar sem víðast hvar eru að verða einmitt í sjúkrahúsmálum með bættri þjónustu. Það er eins og það fari mest í taugarnar á stjórnarandstöðunni af öllu. Hv. þm. sagði: ,,Er þetta góð stefna?`` Er það ekki góð stefna að byggja upp skurðstofurnar, byggja upp gjörgæsluna? Er það ekki góð stefna? Er ekki góð stefna að byggja barnaspítala? Er hv. þm. á móti því? Er ekki góð stefna að auka fjármagn til heilbrigðismála um 4,6 milljarða á þremur árum að raunvirði? Er það ekki góð stefna?

Ég tek eftir því sem hv. þingmenn tala ekki um núna. Þeir tala ekki um biðlistana vegna þess að við höfum náð verulegum árangri með biðlistana. Ég held að það væri hollt fyrir þjóðina alla að minnast á það sem jákvætt er líka um leið og gagnrýnt er.