Stefnan í heilbrigðismálum

Fimmtudaginn 16. október 1997, kl. 12:01:02 (553)

1997-10-16 12:01:02# 122. lþ. 11.93 fundur 55#B stefnan í heilbrigðismálum# (umræður utan dagskrár), SJóh (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 11. fundur

[12:01]

Sigríður Jóhannesdóttir (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Láru Margréti Ragnarsdóttur varð mjög tíðrætt um gildi markaðsvæðingar og frelsis í stjórn heilbrigðisþjónustunnar á Íslandi. Kemur það ekki á óvart því að þessi atriði eru satt að segja trúaratriði hjá Sjálfstfl. En markaðsvæðingin hefur margar hliðar. Nú blasir við að uppsagnir ungra lækna eru yfirvofandi stórt vandamál. Víða um land eru læknislaus héruð, það eru sjúklingar á biðlistum og þeim hefur því miður ekki fækkað eins mikið og hér var gefið í skyn af hæstv. heilbrrh. Mikil bið er eftir að komast á endurhæfingarsjúkrahús og stundum margra mánaða bið. Ég verð þó að segja að mér hefur fundist örla á heildstæðum lausnum frá hæstv. heilbrrh. en það er samt staðreynd að Sjálfstfl. situr á peningakistunni og jafnóðum virðist vera brugðið fæti fyrir það sem þó er ætlað að gera.