Stefnan í heilbrigðismálum

Fimmtudaginn 16. október 1997, kl. 12:04:02 (555)

1997-10-16 12:04:02# 122. lþ. 11.93 fundur 55#B stefnan í heilbrigðismálum# (umræður utan dagskrár), GGuðbj
[prenta uppsett í dálka] 11. fundur

[12:04]

Guðný Guðbjörnsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég ætla að leyfa mér að tala sem þingmaður sem horfir á þessi mál meira utan frá þar sem ég hef ekki setið í heilbrn. og ekki haft þennan málaflokk í mínum höndum í þingflokki Kvennalistans.

Þó að ég hafi ekki mjög langa þingreynslu er ljóst að mikil upphlaup hafa verið í kringum þennan málaflokk, heilbrigðis- og tryggingamál. Það er árlegur viðburður, bæði við gerð fjárlaga og einnig í utandagskrárumræðum eins og þeirri sem nú á sér stað. Ætlunin virðist ávallt vera að ná fram miklum sparnaði og síðan kemur í ljós á miðju næsta ári að sparnaðurinn sem fyrirhugaður var við gerð fjárlaga hefur ekki náðst og aukafjárveitingar eru samþykktar.

Málaflokkurinn er mjög fjárfrekur. Í fjárlagafrv. er gert ráð fyrir 62 milljörðum, þar af 59 milljarða gjöldum, hitt eru þjónustugjöld. Mikið hefur verið lagt á sig í stjórnsýslunni og hjá yfirvöldum við að reyna að draga úr kostnaði, m.a. með því að forgangsraða þjónustu en óánægjan hleðst upp og er það ekki í fyrsta skipti sem allt virðist á suðumarki, ekki síst vegna þess að kjarasamningar allra lækna eru lausir.

Vissulega læðist að manni sá grunur, herra forseti, að verið sé að skapa aðstæður eins og gert hefur verið í öðrum geirum, t.d. gagnvart Ríkisútvarpinu þegar einkavæðing var síðar leyfð og núna í menntakerfinu. Maður veltir því fyrir sér hvort verið sé að skapa aðstæður til þess að umbylta ástandinu í okkar annars ágæta heilbrigðiskerfi. En heilbrigðis- og tryggingamál eru málaflokkur sem mikill pólitískur vilji er fyrir að sé innan ríkisvaldsins. Hann sé á ábyrgð almannavaldsins. Ég held að ekki sé um það deilt. Það er heldur ekki deilt um það að íslenska heilbrigðiskerfið sé í heild gott þó vissulega megi gera betur á mörgum sviðum. Langalvarlegasti vandinn nú er að mínu mati eru kjaradeildur lækna og þroskaþjálfa annars vegar og fjárhagserfiðleikar sjúkrahúsanna hins vegar. Þetta tvennt hefur leitt til þess að sjúklingar virðast vera orðnir aukaatriði.

Ég velti því fyrir mér hvort ekki þurfi að hugsa þetta kerfi allt upp á nýtt. Það gengur ekki endalaust að plástra kerfi sem er löngu sprungið. Grunnurinn að kjaradeilum lækna virðist ekki síst vera innbyrðis mismunun milli lækna, þ.e. þeirra sem hafa möguleika á tekjum á einkastofnunum eða á öðrum stöðum, t.d. í háskólanum, og hinna sem hafa það ekki. Gífurlegur aðstöðumunur er milli sérfræðinga eftir sérfræðigreinum. Það vinnuálag sem er á ungum læknum er mannskemmandi að mínu mati, a.m.k. fyrir þá sjálfa. Ég ætla ekki að fullyrða neitt um hvaða áhrif þetta vinnuálag hefur á störf þeirra.

Kjaramál lækna verður að leysa. Í því sambandi held ég að það væri gott að snúa spurningunni vegna launamunar við eins og konur eru nú að gera á Norðurlöndum til að takast á við launamun kynjanna. Þar spyrja þær: Höfum við efni á því að hafa þessa launahæstu karla í vinnu hjá okkur? Er ekki betra að ráða konur í toppstöður? Þær hafa miklu lægri laun. Eins mætti kannski spyrja hvort við höfum efni á að greiða nokkrum læknum það há laun að það skapi svo mikla óánægju hjá öðrum læknum að þeir geta ekki unnið störf sín. Hvernig væri að jafna betur kjör lækna? Hækka þau hjá ungu læknunum þannig að launakjör fyrir eðlilegan vinnutíma verði viðunandi svo að þeir geti sinnt fjölskyldum sínum sem aðrir.

Virðulegi forseti. Tími minn er því miður mjög knappur. Ég tel að hér sé um mjög alvarleg mál að ræða og það þurfi að taka þau alveg nýjum tökum.