Stefnan í heilbrigðismálum

Fimmtudaginn 16. október 1997, kl. 12:12:07 (558)

1997-10-16 12:12:07# 122. lþ. 11.93 fundur 55#B stefnan í heilbrigðismálum# (umræður utan dagskrár), Flm. MF
[prenta uppsett í dálka] 11. fundur

[12:12]

Margrét Frímannsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir umræðuna sem hefur einkennst af því að bæði hæstv. ráðherra sem og þeir stjórnarliðar sem hafa talað hafa ekki svarað í neinu þeim spurningum sem við höfum sett hér fram, ekki í neinu. Stjórnarliðum og hæstv. ráðherrum verður tíðrætt um að stjórnarandstaðan fullyrði að engin stefna ríki í heilbrigðismálum, það er bara stjórnarandstaðan. Stjórnarliðar og stjórnvöld væru í fjári góðum málum. Ef þetta væri bara stjórnarandstaðan. Skipta þær samþykktir sem hér hafa verið lesnar frá fagfólki ekki nokkru máli? Það var farið yfir samþykktir frá heilsugæslulæknum, Læknafélagi Íslands, því fólki sem vinnur dagsdaglega við þessi störf og inni í þessu kerfi. Ég trúi niðurstöðum þessa fólks betur en þeim fullyrðingum sem hafa verið settar hér fram um að allt sé í himnalagi. Vissulega megi bæta einhverju smávegis við en að flestu leyti sé þetta bara á réttri leið og í góðu lagi. Það að allir læknar eru með lausa kjarasamninga, það að sjúklingar liggja í hrönnum á göngum, það að læknar hafa gert athugasemdir við það hvernig með sjúklingana er farið og talað um það fyrst og fremst út frá öryggisástæðum er ekki nefnt.

Hæstv. ráðherra sagði að stjórnarandstaðan þyrfti að fara yfir það jákvæða sem gert væri, t.d. hvað hún væri að byggja mikið upp. Það væri verið að byggja nýjar heilsugæslustöðvar vítt og breitt um landið, það væri verið að byggja upp barnaspítala, það væri verið að byggja upp skurðstofu og það væri verið að byggja upp öldrunarþjónustu. Þetta er alveg rétt. Það er mjög gott að þessar byggingar rísi. En það segir okkur líka að það verður að sjá til þess að í þessum byggingum verði eðlileg starfsemi. Hæstv. ráðherra sagði: Við höfum víst mótað stefnu í málefnum heilsugæslunnar. Þar hefur átt sér stað mikil uppbygging og mig minnir að hæstv. heilbrrh. hafi sagt að stefnan væri sett fram í 21 lið.

[12:15]

Hvernig stendur þá því ef svo er að það er eins mikil óánægja enn þá í þessu kerfi heilu ári eftir að þessi átök áttu sér stað milli heilsugæslulækna og ráðuneytis? Hvernig stendur á þeirri samþykkt sem gerð var í september frá heilsugæslulæknum? Hefur ráðherra brugðist því hlutverki að kynna stefnuna fyrir heilsugæslulæknum? Ætli það sé þess vegna sem t.d. heilsugæslulæknar á Selfossi búa enn við óhóflegt vinnuálag? Ætli það sé þess vegna sem búið er að loka heilsugæslustöð tvo daga af þremur sem var opið á Eyrarbakka og Stokkseyri vegna þess að það sé komið svo gott skipulag á málin? Ætli það sé þess vegna sem stöðugt dregur úr þeirri þjónustu sem veitt er á vegum heilsugæslunnar á landsbyggðinni? Er þetta sú markvissa stefna sem hæstv. ráðherra setti fram?

Hæstv. ráðherra nefndi líka að fjárlög hefðu verið aukin til heilsugæslunnar í Mosfellsbæ sem áður var á Reykjalundi. Það er rétt en sú aukning þýðir ekki að hægt sé að gera upp uppsafnaðan halla. Hæstv. ráðherra sagði: Við löguðum daggjöldin hjá endurhæfingarstofnuninni á Reykjalundi fyrir tveimur árum. Það er alveg hárrétt enda sagði ég: 35 millj. kr. halli varð til fyrir þann tíma. Þetta er gamalt vandamál og þrátt fyrir hækkun daggjalda hefur hæstv. ráðherra ekki tekið á þessu vandamáli frekar en öllum öðrum sem upp hafa safnast á þessum tíma. Það er gjörsamlega útilokað að bjóða okkur upp á það í umræðum hér og nú eftir að hafa verið tvö og hálft ár í þessu starfi að málin eiga enn að vera í athugun. Þau eru vissulega vandasöm og verður að vanda þetta mjög vel af hálfu ráðherra en það er kominn tími til að við sjáum einhvern árangur.

Hæstv. ráðherra sagði: Allir kjarasamningar lækna eru í uppnámi, við verðum að vinna fljótt og af öryggi í þeim málum. Hver trúir þessari fullyrðingu eftir að kjaramál allra heilbrigðisstétta hafa verið meira og minna í uppnámi í tvö og hálft ár? Lái hver sem vill stjórnarandstöðunni og heilbrigðisstéttunum og sjúklingum að sameinast um að gagnrýna þá stefnu sem hér er eða stefnuleysi.