Stefnan í heilbrigðismálum

Fimmtudaginn 16. október 1997, kl. 12:17:55 (559)

1997-10-16 12:17:55# 122. lþ. 11.93 fundur 55#B stefnan í heilbrigðismálum# (umræður utan dagskrár), heilbrrh.
[prenta uppsett í dálka] 11. fundur

[12:17]

Heilbrigðisráðherra (Ingibjörg Pálmadóttir):

Virðulegur forseti. Umræðan hefur að mestu leyti verið mjög uppbyggileg. Hún er kannski síst uppbyggileg frá fyrrv. heilbrrh. sem talaði aðeins um dýragarða. En það er annað mál. Að öðru leyti tel ég að hún hafi verið til góðs. Ég held að ýmislegt hafi komið fram sem er mikilvægt að upplýsist.

Hér hefur verið mikið rætt um einkavæðingu og hræðsluna við einkavæðingu. Ég ætla að minna á að það er einkavæðing í heilbrigðisþjónustunni sem við erum ekkert hrædd við. Hvað varðandi Grund eða Hrafnistu? Læknastofur, rannsóknastofur? Þetta er þjónusta sem hefur verið við lýði í mörg ár og við viljum hafa áfram. En ég skal taka undir það bæði með stjórnarliðum og stjórnarandstöðu sem töluðu um að kjaradeilan mætti ekki ýta okkur út í einhvert það fen sem við ætlum ekki út í. Almannatryggingakerfið verður að halda utan um sína og það má ekki bresta.

Hv. frummælandi kom fram með aðra þætti um heilsugæsluna í blárestina. Hún taldi merkilegt að óánægjan væri jafnmikil og raun ber vitni innan heilsugæslunnar miðað við þá stefnu sem er alveg skýr. Auðvitað er óánægjan vegna kjaramálanna. Það vitum við öll. Við vitum öll að kjaranefnd hefur ekki úrskurðað í málefnum heilsugæslunnar. (MF: Og fjársvelti.) Þá kemur hv. þm. að fjársvelti. Við höfum bætt þar verulega úr. Ef litið er til aukafjárlaga sér hv. þm. að þar er verulega bætt úr vegna samninga. Sérstaklega var talað um heilsugæslustöðina á Selfossi og mikið álag þar. Ég veit af því vinnuálagi og hv. þm. veit líka hvers vegna það er. Það er vegna þess að heilsugæslulæknir er veikur og hefur ekki verið við störf lengi. En þar fyrir utan er verið að bæta úr því. Það er verið að auglýsa eftir nýjum lækni eftir því sem ég best veit.

Einnig hefur verið mikið rætt um ýmsar ályktanir frá fagfólki. Þær eru oft á tíðum mjög sterkar. Ég er nú meira og minna á fundum hjá fagstéttunum og ég veit auðvitað nákæmlega hvar skórinn kreppir. En hvort ég eða aðrir sem hér sitja í þingsal geta leyst úr öllum þeim vanda sem menn standa frammi fyrir.

Ég ætla að minna á eitt. Hér hefur verið rætt um að hæstv. fjmrh. sé yfir heilbrrh. og að hann sé búinn að vera það til margra ára, 6--8 ára. Ég held nú bara að hæstv. fjmrh. sé eitthvað að linast. Ef við lítum til fyrrv. heilbrrh. og síðasta kjörtímabils þá lækkuðu framlög til heilbrigðismála að raungildi um 610 millj. en hafa hækkað að raungildi um 4,6 milljarða. Með þjónustugjöldin vil ég líka aðeins koma inn á að þar hefur eitthvað linast líka því þau hækkuðu um 44% í tíð fyrrv. ríkisstjórnar en innan við 5% síðan þessi ríkisstjórn tók við.

Það sem við stöndum frammi fyrir nú eins og fram hefur komið eru kjaradeilur lækna og þau mál verða strembin og erfið en þau verða leyst. Við erum í bullandi samkeppni við útlönd um okkar bestu heilbrigðisstarfsmenn og við verðum að horfast í augu við það. Bæði ég sem hér stend og sá sem þar situr.