Ríkisábyrgðir

Fimmtudaginn 16. október 1997, kl. 12:22:36 (560)

1997-10-16 12:22:36# 122. lþ. 11.2 fundur 99. mál: #A ríkisábyrgðir# (heildarlög) frv., fjmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 11. fundur

[12:22]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frv. sem er að finna á þskj. 99 og er 99. mál Alþingis.

Þessu frv. til laga er ætlað að koma í stað laga sem eru nú nr. 37/1961, um ríkisábyrgðir með síðari breytingum.

Í yfirlýsingu hv. ríkisstjórnar um vaxtamál frá 29. okt. 1993, þ.e. fyrri ríkisstjórnar, fyrstu ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar, kemur fram að ríkisábyrgðir verði teknar til endurskoðunar. Í því skyni skipaði fjmrh. nefnd sem m.a. var ætlað að skoða meðferð ríkisábyrgða, þ.e. hvernig til þeirra er stofnað og hvaða skilyrði aðilar þurfa að uppfylla og gjaldtökur fyrir ríkisábyrgðir. Frv. er í aðalatriðum í samræmi við tillögur nefndarinnar. Skýrsla nefndarinnar ásamt samantektum verður á næstunni gefin út af fjmrn. og þá gefst hv. nefnd, sem fær málið fær meðferðar, að sjálfsögðu tækifæri til að skoða rækilega öll skjöl sem nefndin kallaði saman og rökstuðning í einstökum atriðum. Skuldbindingum og ábyrgðum ríkisins og raunar annarra opinberra aðila þarf að gefa meiri gaum en hingað til hefur verið gert. Opinberir aðilar hafa orðið fyrir umtalsverðum skakkaföllum á liðnum árum vegna ábyrgða sem þeir hafa tekið á sig. Ábyrgðir á lánum einkaaðila hafa fallið á ríki og sveitarfélög, bein lán til atvinnufyrirtækja hefur reynst nauðsynlegt að afskrifa og eignir ríkisins í atvinnufyrirtækjum og fjármálastofnunum hafa rýrnað vegna tapa þessara aðila. Draga þarf úr ríkisábyrgðum, einkum þar sem aðild ríkisins skekkir samkeppnisstöðu einkaaðila.

Reglur um veitingu ríkisábyrgða þurfa að vera skýrar. Ég vil skjóta því inn í ræðu mína að væntanlegt er frv. frá félmrh. þar sem gerðar eru nokkrar breytingar á lögum um sveitarstjórnir og það frv. byggir á vinnu þar sem sveitarstjórnarmenn hafa m.a. komið að. Þar er einnig um sömu stefnu að ræða, þ.e. að draga úr því að sveitarstjórnir séu að veita einstökum aðilum í sveitarfélaginu ábyrgðir. Það er oft erfitt sérstaklega fyrir pólitískt kjörna aðila að fara gegn slíkum óskum þegar þær koma en oft og kannski oftast grípa lánastofnanir til þeirra úrræða að krefjast opinberra ábyrgða þegar áhættan er úr hófi mikil.

Á undanförnum árum hafa ýmsir þættir ríkisábyrgða breyst verulega. Stjórnvöld hafa tekið ákvarðanir sem hafa áhrif á stöðu og framtíð ríkisábyrgða. Tekin hefur verið ákvörðun um breytingu ríkisviðskiptabankanna í hlutafélög og sameiningu stærstu fjárfestingarsjóða í Fjárfestingarbanka atvinnulífsins hf. Einnig hafa aðstæður breyst hin síðari ár með þroska innlenda lánamarkaðarins. Hann ræður nú við miklu stærri verkefni en áður og hefur þannig dregið úr þörf fyrir ríkisábyrgðir. Það er í ljósi þessara breytinga sem frv. þetta er lagt fram.

Í frv. er tekið á þeim þáttum sem snúa að veitingu beinna ríkisábyrgða og endurlána. Ýmsar breytingar eru gerðar frá gildandi lögum. Megintillögur að breytingum eru í átta liðum. Ég leyfi mér að vekja athygli á þeim.

Í fyrsta lagi er lagt til að áður en heimild til ábyrgðar er veitt af Alþingi skuli liggja fyrir mat á áhættu og afskriftaþörf vegna ábyrgðarinnar. Á þetta hefur skort.

Í öðru lagi að myndaður verði afskriftareikningur hjá Ríkisábyrgðasjóði til að mæta útlánatöpum. Kveðið er á um að ábyrgð verði ekki veitt nema afskriftareikningur sé nægjanlegur til að mæta metinni afskriftaþörf.

Í þriðja lagi er lagt til að árlegt áhættugjald verði mismunandi eftir áhættu eða 0,25--4% á ári.

Í fjórða lagi er lagt til að innheimt verði afgreiðslugjald við veitingu ábyrgðar vegna útlagðs kostnaðar.

Í fimmta lagi verði sú breyting gerð að allar skuldbindingar sem njóta ríkisábyrgðar skuli mynda gjaldstofn við álagningu ábyrgðargjalds óháð því hvort þær eru innlendar eða erlendar. Ábyrgðargjaldið verði hlutfallslegt 0,0625% á ársfjórðungi af höfuðstól skuldbindinga sem ríkissjóður ber ábyrgð á með svipuðum hætti og verið hefur. Til þessa hefur ábyrgðargjald einungis verið innheimt af erlendum skuldbindingum en framvegis einnig af innlendum skuldbindingum. Undanþegnar eru þó skuldbindingar vegna innstæðna í innlánsstofnunum, húsbréf, útgefin af húsbréfadeild Byggingarsjóðs ríkisins, enda eru þær skuldbindingar tryggðar með sérstökum hætti svo og útflutningsábyrgðir sem njóta ríkisábyrgðar. Um það gilda að sjálfsögðu sérstök lög.

Í sjötta lagi skal við gildistöku laganna gera sérstaka athugun á fjárhagsstöðu Ríkisábyrgðasjóðs. Ef í ljós kemur að fjárhagsstaða sjóðsins er óviðunandi gæti ríkissjóður þurft að leggja sjóðnum til nægilegt framlag til að mæta áætluðum skuldbindingum.

Í sjöunda lagi er gert ráð fyrir að fyrirkomulagi endurlána verði breytt þannig að horfið verði frá því að ríkissjóður láni til annarra en aðila í B- og C-hluta, þ.e. ríkisfyrirtækja og sjóða í ríkiseign.

Í áttunda lagi verður sú breyting gerð að þrengja þátt ábyrgða sem hlutfall af þeirri fjárfestingu sem hún er veitt til. Samkvæmt gildandi reglum er heimilt að ábyrgjast allt að 80% heildarkostnaðar þess verkefnis sem í hlut á gegn viðurkenndum veðum. Með frv. er lagt til að þessu verði nú hagað þannig að bæði þurfa að uppfylla kröfu um eiginfjárhlutfall í fjármögnun, þ.e. að minnsta kosti 20%, og að setja hámarkshlutfall ábyrgðar af lánsfjárhæð að hámarki 75% og gerð verði sú krafa hverju sinni að lántaki hætti sjálfur hluta með framlagi eigin fjár og að aðrir lánveitendur taki hluta áhættunnar með því að leggja til hluta lánsfjár.

[12:30]

Öll þau atriði sem ég hef talið upp eru til þess að koma betri skikk á ríkisábyrgðir og reyndar endurlánin og eru í takt við tímann ef svo má að orði komast, ekki síst vegna þess að lánastofnanir nú á dögum hafa yfir að ráða mjög mikilli þekkingu sem kemur þeim að notum þegar ákveða skal lánskjör til mismunandi aðila. Það er alþekkt, bæði hér á landi og erlendis, að aðilar greiða mismunandi háa vexti eftir þeirri áhættu sem viðkomandi lánastofnun tekur enda eru lánastofnanirnar að fara með fjármuni annarra aðila sem hafa lagt inn og treyst hafa viðkomandi lánastofnun fyrir fjármunum sínum. Það er að stórum hluta og stækkandi hluta fólk sem er að geyma verðmæti til elliáranna.

Eins og ég hef áður sagt hefur ríkið haft verulegan kostnað vegna ríkisábyrgðar. Markmið frv. er auk annars að draga úr kostnaðinum. Settar eru skýrari reglur en áður um veitingu og meðferð ábyrgða og mun hverju sinni liggja fyrir mat á líkum þess að á ábyrgð reyni og þar með kostnað ríkisins. Í þessum málum hefur verið til vandræða að það er tiltölulega auðvelt fyrir eina ríkisstjórn, einn ráðherra að veita ábyrgðina. Alþingi samþykkir alveg eins og sveitarstjórnir slíkar ábyrgðir en svo reynir ekki á ábyrgðina fyrr en mörgum árum, jafnvel kjörtímabilum síðar. Þá situr allt annað fólk í þessum stöðum og öllum hefur gleymst hverjir stóðu fyrir þessu og hvort málið hafi verið skoðað nægilega vel. Með þessu frv. er verið að gera tilraun til að tryggja vandaðri vinnubrögð en áður og þetta er eins og ég hef áður sagt í takt við þá stefnu sem reynt er að fylgja, ekki bara hér á landi heldur alls staðar í ríkisfjármálunum, að reglurnar séu ákveðnari og byggist á hlutlægari skilyrðum en áður tíðkast.

Það er spurning, virðulegi forseti, hvert senda á frv. Heimildir til ríkisábyrgða og lánsfjár er nú að finna í fjárlagafrv. en hins vegar er spurning hvort þessi formsatriði eigi frekar heima hjá efh.- og viðskn. Mér vannst ekki tími til þess að bera mig saman við hæstv. forseta en að svo stöddu geri ég tillögu um að málið verði sent efh.- og viðskn. en óska eftir því við hæstv. forseta að hann kanni málið og ræði við þá sem gerst kunna að þekkja til. Mun ég að sjálfsögðu hlíta niðurstöðu hæstv. forseta þegar fyrir liggur hvert eðlilegast er að senda frv. En að öðru leyti óska ég eftir því að borin verði upp sú tillaga að frv. fari til 2. umr.