Starfsskýrsla Ríkisendurskoðunar 1996

Fimmtudaginn 16. október 1997, kl. 14:08:30 (568)

1997-10-16 14:08:30# 122. lþ. 11.5 fundur 57#B starfsskýrsla Ríkisendurskoðunar 1996# (munnl. skýrsla), JóhS
[prenta uppsett í dálka] 11. fundur

[14:08]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Ég vil þakka forseta þingsins fyrir að flytja okkur skýrslu Ríkisendurskoðunar hún sýnir okkur enn einu sinni hve mikla þýðingu og mikið gagn við höfum af Ríkisendurskoðun og starfi hennar og hvernig hún styrkir allt eftirlitshlutverk Alþingis. Ég vil þó líkt og síðasti ræðumaður koma inn á það að ég tel að bæði þessi skýrsla Ríkisendurskoðunar svo og þær stjórnsýsluendurskoðanir sem fram fara á vegum Ríkisendurskoðunar þurfi meiri umfjöllunar við af hálfu þingsins í nefndum. Ég er ekki svo sannfærð um að það þurfi að setja á fót enn eina nýja nefnd til að fjalla almennt um þessa skýrslur heldur ætti það að vera verkefni viðkomandi nefndar að fjalla um stjórnsýsluendurskoðun eftir eðli og efni þess sem um er verið að fjalla hverju sinni. Þá vantar líka að mínu viti að löggjafarvaldið og þingmenn fylgi betur eftir þeim ábendingum sem fram koma í skýrslum Ríkisendurskoðunar. Þetta eru oft mikilvægar og gagnlegar ábendingar þar sem stundum kemur fram gagnrýni á ýmsa þætti í störfum framkvæmdarvaldsins og mér finnst það ætti að vera meira hlutverk þingsins, þingmanna og þingnefnda að fylgja því betur eftir að ábendingar Ríkisendurskoðunar komist til framkvæmda.

Ég nefni aðeins eitt dæmi hér af því að á það er bent í skýrslu Ríkisendurskoðunar sem við höfum hér til umfjöllunar. Þar er verið að vitna í þær stjórnsýsluendurskoðanir sem fram fóru á árinu 1996 og þar var m.a. skýrsla um fjárhagsstöðu byggingasjóðanna. Hér telur Ríkisendurskoðun ástæðu til þess að nefna hina alvarlegu stöðu sem blasir við Byggingarsjóði verkamanna og segir að útreikningar bendi til þess að í hann hafi vantað um 4--5 milljarða kr. á sl. ári. Ég hefði talið fulla ástæðu fyrir t.d. hv. félmn. að fara rækilega ofan í þá skýrslu og skoða þá alvarlegu athugasemd sem þarna kemur fram varðandi stöðu Byggingarsjóðs verkamanna, sem á sér veigamikla skýringu í því að á undanförnum tveimur til þremur árum hafa verið skorin verulega niður ríkisframlög til byggingarsjóðsins, yrði þá fylgt eftir af hálfu félmn. Þetta er ein ábending en það eru fleiri sem mætti nefna sem mér finnst að eigi að vera hlutverk þingnefnda og þingmanna að fylgja eftir.

Eins og ég sagði áðan eru þær eftirlitsstofnanir sem Alþingi hefur mjög mikilvægar, en þær eru náttúrlega fyrst og fremst Ríkisendurskoðun og umboðsmaður Alþingis. Þingmenn verða að geta treyst meira og meira á vinnu sem þar fer fram. Núna er æ meira gerð krafa um opnara stjórnsýslukerfi og að það sé gagnsætt. Því er mikilvægt að stjórnsýslan sé opin, þar sé unnið fyrir opnum tjöldum og að þingmenn, fjölmiðlar og almenningur hafi greiðan aðgang að upplýsingum um alla þætti stjórnsýslunnar. Mér finnst, virðulegi forseti, skjóta nokkuð skökku við þegar við erum að styrkja starf eftirlitsstofnana, opna stjórnsýsluna meira með stjórnsýslulögum, upplýsingalögum o.fl., að við erum að hverfa aftur í fortíðina varðandi það sem við sjáum þessa dagana og vikurnar þar sem verið er að loka stjórnsýslukerfinu með ákveðnum hætti. Þar á ég við hlutafélagavæðinguna og einkavæðinguna. Það var á fyrstu dögum þingsins að lögð var fram skýrsla af hálfu forsrh., sem ég ætla nú ekki að gera sérstaklega að umræðuefni en vonandi fáum við tækifæri til þess síðar, um aðgang að upplýsingum um hlutafélög í eigu ríkisins. Þar kemur raunverulega fram, sem er mjög alvarlegt og forsn. og forseti þingsins hljóta að taka til alvarlegrar skoðunar, að það er verið að loka að miklu leyti fyrir aðgang þingmanna að upplýsingum um hlutafélög, og það hlutafélög sem eru kannski 100% í eigu ríkisins eins og ríkisbankarnir. Þar með er auðvitað verið að hefta það að alþingismenn og Alþingi geti haft eðlilega eftirlitsskyldu með hlutafélögum.

Ég tel ástæðu til að víkja að þessu hér, herra forseti, vegna þess að Ríkisendurskoðun fjallar í sérstökum kafla um áhrif upplýsingalaga á starfsemi Ríkisendurskoðunar og þar segir orðrétt, með leyfi forseta:

,,Tekið skal fram að upplýsingalögin taka ekki til einkaaðila heldur aðeins stjórnsýslu ríkisins og sveitarfélaga. Undir hugtakið einkaaðilar í þessu sambandi falla m.a. félög einkaréttarlegs eðlis eins og hlutafélög, sameignarfélög og ýmis almenn félög.`` Síðan kemur fram orðrétt, með leyfi forseta: ,,Sé rekstrarformi opinberrar stofnunar t.d. breytt í hlutafélagsform fellur hlutafélagið sem slíkt utan við gildissvið laganna eftir breytinguna.`` Ég er ekki viss um að þingmenn hafi gert sér grein fyrir því, þegar þeir voru að samþykkja upplýsingalögin, að með þeim ákvæðum sem þar koma fram næðu þau ekki til hlutafélaga sem væru í eigu ríkisins. Það er fjallað um hér í upplýsingalögunum, sem Ríkisendurskoðun telur ástæðu til að gera að sérstöku umræðuefni í skýrslu sinni, takmarkanir á upplýsingarétti vegna almannahagsmuna. Þar er ekki vikið einu orði að þessu varðandi hlutafélögin.

[14:15]

Þegar allshn. fjallaði um upplýsingalögin á sínum tíma kom aldrei fram að með hlutafélagavæðingunni væri verið að loka fyrir allt upplýsingaflæði til þingsins, til almennings og fjölmiðla sem eftir því leita, þó að hlutaféð væri að fullu í eigu ríkisins. Ég sé ekki annað eins og Ríkisendurskoðun lýsir þessu máli hér en að það sé verið að loka á slíkar upplýsingar.

Ég vil spyrja forseta hvort hann telji ekki ástæðu til þess að forsætisnefnd ræði sérstaklega þá stöðu sem upp er komin nú varðandi hlutafélagavæðinguna og hvort ekki sé ástæða til þess að skoða með hvaða hætti er hægt við að bregðast. Það er margendurtekið í þessari skýrslu forsrh. að ráðherra er óheimilt og hann þarf ekki að gefa Alþingi upplýsingar um ákveðin atriði sem þar eru nefnd. Ef það er rétt, herra forseti, þá vil ég spyrja forseta þingsins hvort hann telji ekki ástæðu til þess að það verði opnað fyrir þetta með einhverjum hætti. Þarf að breyta lögum til þess að Alþingi hafi þarna eðlilegan aðgang? Eða, ég spyr um það því við erum hér að ræða Ríkisendurskoðun, ef þingið stæði frammi fyrir því að vera að beina til hæstv. viðskrh. eða samgrh. svo ég nefni sem dæmi ákveðnum óskum um upplýsingar varðandi starfsemi bankanna, varðandi starfsemi Pósts og síma og því yrði neitað af hálfu ráðherranna, geta þingmenn þá óskað eftir því að Ríkisendurskoðun afli viðkomandi upplýsinga? Að þingið fái þá þær upplýsingar sem ráðherrarnir neita að gefa gegnum Ríkisendurskoðun? Það er nefnilega alveg útilokað að með hlutafélagavæðingunni sé verið að loka alls staðar fyrir að þingmenn geti sinnt eftirlitsskyldu sinni. En við munum fjalla um þennan þáttinn væntanlega síðar af því að ég geri ráð fyrir því að hún verði tekin, þessi skýrsla, til sérstakrar umræðu.

Ég vil líka segja, herra forseti, að ég tel að þó að lögin um Ríkisendurskoðun sem var breytt á síðasta þingi hafi verið til verulegra bóta og þar hafi vissulega verið að styrkja alla starfsemi Ríkisendurskoðunar, þá hefði ég viljað sjá t.d. í 3. gr. laga um Ríkisendurskoðun að þingmenn hefðu beinni aðgang að Ríkisendurskoðun heldur en eingöngu gegnum forsætisnefnd. Ég tel að það væri mjög mikilvægt ef svo væri. En alla vega spyr ég að gefnu tilefni um þetta ákveðna atriði.

Ég þarf ekki að hafa mörg fleiri orð um þessa skýrslu. Ég vil þó ítreka að ég tel mjög mikilvægt að t.d. allshn. fjalli um hana og að það sé gert að föstum lið í starfi þingsins að fjalla um skýrslu Ríkisendurskoðunar um stjórnsýsluendurskoðun og það sé þá gert af hálfu fagnefnda eins og efni standa til hverju sinni. Og ég spyr hæstv. forseta sem fylgir þessari skýrslu úr hlaði hvort við megum sjá t.d. núna þegar verið er að endurskoða þingsköpin, sem mér skilst að sé verið að gera, hvort þar verði komið einhverri meiri festu á það að þessar skýrslur verði ræddar og þeim fylgt eftir.

Hæstv. forseti nefndi í umfjöllun sinni um skýrsluna aðkeypta þjónustu hjá Ríkisendurskoðun sem virðist vera töluvert umfangsmikil. Ég er alls ekki að gagnrýna það. Það hefur verið samið við 28 endurskoðunarskrifstofur og eins og fram kom í máli hæstv. forseta er alveg ljóst að það þarf að borga miklu meira á tímann fyrir aðkeypta þjónustu heldur en gjaldið er raunverulega á tímaeiningu hjá Ríkisendurskoðun. Ég fagna því að það eigi að fara að taka upp þá nýbreytni sem ég held að sé til bóta að bjóða þessi verkefni út.

Að öðru leyti ítreka ég óskir mínar um svör frá hæstv. forseta um þá skýrslu sem hér er til umræðu.