Starfsskýrsla Ríkisendurskoðunar 1996

Fimmtudaginn 16. október 1997, kl. 14:20:13 (569)

1997-10-16 14:20:13# 122. lþ. 11.5 fundur 57#B starfsskýrsla Ríkisendurskoðunar 1996# (munnl. skýrsla), KÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 11. fundur

[14:20]

Kristín Ástgeirsdóttir (andsvar):

Hæstv. forseti. Vegna þess sem fram kom hjá hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur um skýrslu Ríkisendurskoðunar um Húsnæðisstofnun ríkisins, þá vil ég upplýsa hv. þm. um það að á sínum tíma fór félmn. rækilega yfir þessa skýrslu. Hún fékk á sinn fund fulltrúa Ríkisendurskoðunar og fulltrúa viðkomandi stofnunar, enda voru gerðar athugasemdir af hálfu Húsnæðisstofnunar við ýmislegt sem fram kom. Þar fórum við auðvitað alveg sérstaklega í stöðu Byggingarsjóðs verkamanna sem við höfum einnig gert þegar við höfum verið að fara yfir fjárlögin og ég tek heils hugar undir áhyggjur hv. þm. af þeirri stöðu. Nú er fram undan vinna við fjárlög næsta árs og þá munum við að sjálfsögðu skoða þennan lið enn einu sinni. Væntanlega mun nefndin eða í það minnsta stjórnarandstaðan ítreka áhyggjur sínar af þessu málefni.

Í þessu samhengi vil ég bara nefna það að ég tel mjög mikilvægt að fagnefndir þingsins fari yfir skýrslur Ríkisendurskoðunar og kynni sér efni þeirra, ekki síst til þess að sjá hvaða athugasemdir er verið að gera og hverju þarf að fylgja eftir. Það er kannski ekki síst það sem snýr að okkur þingmönnum og kemur fram í þessari skýrslu að hér er auðvitað eitt og annað sem við sem eftirlitsaðili með framkvæmdarvaldinu eigum nú að fara ofan í og kanna hvort farið hefur verið eftir ábendingum Ríkisendurskoðunar. Og þar vil ég auðvitað bæði nefna það sem fram kemur um Húsnæðisstofnun og sjúkrahúsin o.fl. Nú er komið að okkar þætti, hæstv. forseti.