Starfsskýrsla Ríkisendurskoðunar 1996

Fimmtudaginn 16. október 1997, kl. 14:23:43 (571)

1997-10-16 14:23:43# 122. lþ. 11.5 fundur 57#B starfsskýrsla Ríkisendurskoðunar 1996# (munnl. skýrsla), KÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 11. fundur

[14:23]

Kristín Ástgeirsdóttir (andsvar):

Hæstv. forseti. Þegar verið var að endurskoða lögin um Ríkisendurskoðun sl. vetur, þá var þetta nokkuð mikið rætt, einmitt hvernig ætti að fara með skýrslur Ríkisendurskoðunar og hvernig nefndir þingsins og hvaða nefndir þingsins ættu að koma þar að málum. Í rauninni er þarna eitt af því sem við þurfum að þróa svolítið betur í vinnubrögðum okkar. Í fyrsta lagi þarf náttúrlega sjá til þess að farið sé yfir þessar skýrslur af viðkomandi fagnefndum. Ég hygg að fjárln. skoði flestar þessar skýrslur en fagnefndirnar þurfa að gera það líka þegar það eru málefni á þeirra sviði. Jafnframt þarf auðvitað að fylgja málunum eftir og mér vitanlega hefur það ekki verið gert að öðru leyti en því að í þessu tilviki varðandi húsnæðisnefnd höfum við sett athugasemdir til fjárln. og þá fyrst og fremst í umsögninni um fjárlagafrv. Og það verður náttúrlega að segjast eins og er að það hefur fyrst og fremst verið stjórnarandstaðan sem hefur verið að vekja athygli á hinni erfiðu stöðu Byggingarsjóðs verkamanna sem því miður virðist ekki vera tekið á í því frv. sem nú liggur fyrir um fjárlög næsta árs.