Starfsskýrsla Ríkisendurskoðunar 1996

Fimmtudaginn 16. október 1997, kl. 14:38:53 (576)

1997-10-16 14:38:53# 122. lþ. 11.5 fundur 57#B starfsskýrsla Ríkisendurskoðunar 1996# (munnl. skýrsla), EKG
[prenta uppsett í dálka] 11. fundur

[14:38]

Einar K. Guðfinnsson:

Virðulegi forseti. Ég vil eins og aðrir þeir sem hér hafa talað þakka ríkisendurskoðanda og starfsfólki Ríkisendurskoðunar fyrir mjög gott starf og fróðlega skýrslu sem við hv. þingmenn höfum haft tækifæri til þess að fara yfir á undanförnum árum, enn fremur hæstv. forseta fyrir mjög greinargóða og fróðlega skýrslu til þingsins.

Ég held að það fari ekkert á milli mála að hlutverk Ríkisendurskoðunar er ákaflega mikilvægt. Það er eins konar lykilhlutverk við hvers konar eftirlit í stjórnkerfinu og ekki hefur dulist neinum að samskipti Ríkisendurskoðunar og Alþingis hafa farið vaxandi, sérstaklega með því að Ríkisendurskoðun er orðin sjálfstæð stofnun sem heyrir beint undir Alþingi. Og þess vegna er það svo að þingið og þingmenn hafa oft og tíðum leitað til Ríkisendurskoðunar um sérfræðilegt álit á mörgum sviðum og þetta samstarf held ég að hafi almennt verið til góða.

Það er þess vegna eðlilegt að við ræðum starfsskýrslu Ríkisendurskoðunar við þetta tilefni hér sem raunar sýnir mjög vel fram á það mikla og umfangsmikla starf sem unnið er á vegum stofnunarinnar. Ég tel að þessi skýrsla sé mjög góð, nánast að öllu leyti, að öðru leyti en því að ég held að það hefði þurft og verið eðlilegt að henni fylgdu hin nýsamþykktu lög. Þó að þau hafi einungis verið í gildi á þessu ári, hefði verið eðlilegt, vegna þess að við ræðum þessa skýrslu m.a. í ljósi nýrra laga, og til bóta fyrir okkur og ekki síður aðra sem lesa skýrslu Ríkisendurskoðunar að hafa hin nýju lög í þessari skýrslu og það væri kannski til athugunar að svo verði hér eftir í skýrslu Ríkisendurskoðunar.

Ég vil líka fagna því frumkvæði Ríkisendurskoðunar að leita eftir sjálfstæðu áliti bresku ríkisendurskoðunarinnar á starfsemi stofnunarinnar. Það er svo að Ríkisendurskoðun er í dálítið sérstæðri aðstöðu. Hennar hlutverk er að skoða og endurskoða starfsemi stofnananna en hins vegar er kannski dálítið vandséð hvernig eigi að fylgjast með starfsemi Ríkisendurskoðunar, hvort hún sé virkilega að vinna að þeim málum sem nauðsynlegt er og eðlilegt er og þess vegna held ég að það hafi verið mjög til bóta að fá þessa endurskoðunarskýrslu frá Bretunum. Og það sem er sérstaklega ánægjulegt er að hin virta breska ríkisendurskoðun fellir mjög jákvæða dóma um okkar íslensku Ríkisendurskoðun og það er hlutur sem við hljótum að fagna.

Veikleiki þessarar skýrslu Bretanna er tungumálaþröskuldurinn. Það kemur reyndar fram í skýrslu bresku ríkisendurskoðunarinnar að þeir tala um að hann hafi háð þeim við endurskoðun á okkar ágætu stofnun. Þess vegna held ég að það sé athugandi sem kemur raunar fram í ábendingum frá þeim hér, til að mynda á bls. 11 í enska hluta skýrslunnar, að þeir benda bókstaflega á að mjög heppilegt væri að fram færi eins konar gæðamat eða gæðaeftirlit af hálfu óháðra aðila, hverjir sem það ættu nú að vera í okkar þjóðfélagi, sem gætu reynt að fara ofan í starfsemi Ríkisendurskoðunar. Ég held að þetta sé hlutur sem þurfi að skoða betur og athuga hvernig væri hægt að gera. Ég geri mér alveg grein fyrir vandanum sem þessu er samfara en engu að síður held ég að við hljótum að taka alvarlega ábendingu um gæðaeftirlit af þessu taginu frá bresku ríkisendurskoðunarskýrslunni.

Það eru tvö eða þrjú atriði sem koma fram í bresku ríkisendurskoðunarskýrslunni sem ég hefði áhuga á að ræða aðeins frekar. Það er í fyrsta lagi það sem hér hefur verið mjög til umfjöllunar sem er eftirfylgnin með skýrslum Ríkisendurskoðunar. Við þekkjum að Ríkisendurskoðun leggur fram mjög greinargóðar og ítarlegar skýrslur sem við höfum verið að fjalla um með ýmsum hætti í þinginu.

Með nýjum lögum er kveðið á um það í 11. gr. að ef Ríkisendurskoðun ákveði að beita skoðunarheimildum sínum, þá skuli stofnunin gera fjárln. og þeim þingnefndum sem viðkomandi málaflokkur fellur undir grein fyrir niðurstöðum sínum. Það er mjög til bóta að setja þetta inn í lagatextann, en engu að síður er það þannig að það er ekki alveg skýrt hvernig þetta á að bera að. Er það þannig að viðkomandi fagnefnd og fjárln. eiga að kalla eftir þessu frá Ríkisendurskoðun eða á það að gerast þannig að Ríkisendurskoðun, um leið og hún leggur fram sínar skýrslur, óski eftir því að koma á fund viðkomandi þingnefnda og fjárln. og gera þeim grein fyrir málinu? Síðan er það líka spurningin um það sem fram kom í máli hv. þm. Jóns Kristjánssonar. Það er auðvitað alltaf þessi hætta á tvíverknaði, þ.e. hvort eðlilegt sé að þetta fari þannig fram að viðkomandi fagnefnd og fjárln. fari sameiginlega ofan í málið eða hvort það eigi að fara fyrst fyrir fjárln. eða fyrst fyrir fagnefndina og þessi mál rædd sitt í hvoru lagi. Þetta er líka nokkuð sem við þurfum í þinginu að gera upp við okkur og það sem kannski stendur upp úr þessari umræðu er að það skortir nokkuð á hjá okkur sjálfum, almennum og óbreyttum þingmönnum, að við komumst að niðurstöðu um það hvernig við viljum að þetta sé gert. Ég held að það sé mjög mikilvægt að við reynum að festa þetta mál betur í sessi og fjalla um það hvernig við viljum að þessi endurskoðun fari fram.

Ég þekki það, a.m.k. af reynslunni frá samgn., að við höfum verið að leita eftir því hjá Ríkisendurskoðun að fara ofan í einstök mál og auðvitað hefur greiðlega verið tekið við því. Ríkisendurskoðun hefur sérstaklega verið að fara ofan í framkvæmdamálaflokka eins og flugmálaáætlun og hafnaáætlun. Hún er núna að vinna að málum varðandi vegagerðina og næsta miðvikudag verður einmitt fundur þar sem Ríkisendurskoðun kemur fyrir samgn. og gerir grein fyrir niðurstöðum varðandi flugmálaáætlunina. En þetta er hlutur sem við þurfum að ræða dálítið frekar.

[14:45]

Bretarnir benda á það í sinni skýrslu, ég vek athygli á því, að þeir telja að eðlilegt sé að við færum að líkt og gert er í breska þinginu þar sem farið er fyrir tiltekna nefnd, sem heitir Committee of Public Accounts, sem eftir því sem ég skil þessa skýrslu tekur skýrslu bresku ríkisendurskoðunarinnar til sérstakrar meðferðar. Ég sakna þess dálítið í þessu breska plaggi hérna að ekki er nægilega vel gerð grein fyrir því hvernig það er gert í breska þinginu. Mér er það alls ekki ljóst. Það er vísað til þess og boðið upp á að íslenskir þingmenn komi á fund breska þingsins og kynni sér þessa starfsemi, en ég hefði talið að það hefði verið heppilegt ef Bretarnir hefðu okkur grein fyrir því hvernig þetta færi fram í breska þinginu því að það er hlutur sem við hljótum m.a. að horfa til.

Ég get alveg tekið undir það sem hér hefur verið sagt, að dálítið hefur vantað upp á að þingmenn og þingnefndir færu skipulega í að fylgjast með því hvernig brugðist hefði verið við ábendingum Ríkisendurskoðunar í einstökum málum. Það er allur gangur á því hvernig það mál vinnst fram. Við gerðum smá tilraun til þess á sínum tíma þegar ég sat í fjárln. að fara ofan í málin skipulega, tókum skýrslur Ríkisendurskoðunar um framkvæmd fjárlaga, skrifuðum þeim stofnunum þar sem aðfinnslurnar höfðu verið mestar og óskuðum eftir því að gerð yrði grein fyrir því hvernig þær hefðu brugðist við þessu. Svörin voru á ýmsa lund, en það var greinilegt samt sem áður að stofnanirnar höfðu almennt tekið tillit til þess sem Ríkisendurskoðun hafði verið að gera og ég varð mjög var við það í stjórnsýslunni að þegar athugasemdir Ríkisendurskoðunar koma fram, hvort sem þær eru formlegar eða einungis við endurskoðun ársreikninga fyrirtækjanna, þá bregðast stofnanirnar yfirleitt mjög hart við. Þær taka það mjög alvarlega þegar Ríkisendurskoðun finnur að.

Á bls. 10 í enska hlutanum er einmitt vakin athygli á því, og er byggt á samtölum við starfsmenn Húsnæðisstofnunar sem hér var m.a. til umræðu, að Ríkisendurskoðun hefði gert einar 70 athugasemdir eða ábendingar við starfsemi Húsnæðisstofnunar. Þegar farið hefði verið að skoða þetta hefði Húsnæðisstofnun þegar tekið tillit til 58 af þessum 70 athugasemdum. Og þetta segir þá sögu að stofnanirnar í stjórnsýslunni taka athugasemdir og ábendingar Ríkisendurskoðunar alvarlega og þetta gerist þrátt fyrir að ekki hafi verið nein formleg eftirfylgni af hálfu Ríkisendurskoðunar í þessu máli eins og þarna segir, heldur var það einungis svo að stofnunin tók þetta mál sjálf upp og brást við í 58 af 70 tilvikum og það verður náttúrlega að teljast viðunandi árangur.

Ég vil líka aðeins koma inn á eitt sem ég held að sé dálítið mikilvægt. Þó að ég sé alveg ósammála hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur um það mál, þ.e. um hlutafélagavæðinguna, þá ætla ég ekki að gera það að umræðuefni vegna þess að það heyrir ekki undir þessa skýrslu hér. En það er rétt sem kemur fram í ábendingu bresku ríkisendurskoðunarinnar að aukin hlutafélagavæðing, einkavæðing og formbreyting ríkisstofnana og verkefnatilfærsla frá ríkinu til einkaaðila kallar á vissan hátt á nokkra breytingu. Það hefur verið þannig að Ríkisendurskoðun hefur falið einstökum aðilum endurskoðun á ríkisfyrirtækjum og stofnunum og hefur til þess fullt vald og ég tel að það sé mjög eðlilegt, tel reyndar að það sé mjög skynsamlegt af Ríkisendurskoðun að leita víðar fanga í sérfræðiþekkingu og held að það sé alls ekki dýrara nema en síður sé vegna þess að auðvitað verður að verðleggja tíma Ríkisendurskoðunar eins og endurskoðun er almennt verðlögð. Annað er óeðlilegt. Ég held hins vegar að þetta kalli eins og réttilega er bent hér á á breyttar aðferðir og í því sambandi er ég sammála því að útboðsleiðin sé skynsamlegust. Þess vegna vil ég fagna því sem fram kom í máli hæstv. forseta, að verk í þessa veru er þegar hafið hjá Ríkisendurskoðun. Ég held að það sé mikilvægt að reynt sé að vanda sem mest til þessa til að tryggja jafnræði í þessu máli.

Virðulegi forseti. Ég ætla í sjálfu sér ekki að fjalla frekar um starfsskýrslu Ríkisendurskoðunar. Ég ítreka að ég tel að hún sé eins og vænta mátti frá þessari stofnun vel unnin og skynsamlega upp sett. Ég fann einungis að því að mér fannst skorta að í þessari starfsskýrslu væru birt sérstaklega núna hin nýju lög sem væru þá aðgengileg fyrir þá sem vildu kynna sér starfsemi stofnunarinnar. Að öðru leyti ítreka ég að ég tel að mikilvægi þessarar stofnunar sé ótvírætt og hún gegni lykilhlutverki í allri stjórnsýslu og stjórnsýsluendurskoðun hér á landi.