Starfsskýrsla Ríkisendurskoðunar 1996

Fimmtudaginn 16. október 1997, kl. 15:00:37 (578)

1997-10-16 15:00:37# 122. lþ. 11.5 fundur 57#B starfsskýrsla Ríkisendurskoðunar 1996# (munnl. skýrsla), JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 11. fundur

[15:00]

Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar):

Herra forseti. Þar sem hv. síðasti ræðumaður á sæti í forsn. tók ég vel eftir þeirri skoðun sem hann setti fram um hvernig hann teldi að þingið ætti að standa að því að fylgja eftir þeim ábendingum sem fram koma frá Ríkisendurskoðun. Ég tók eftir að hv. þm. mælir með því að sérstök nefnd á vegum þingsins fjalli um stjórnsýsluendurskoðanir sem fram fara á vegum Ríkisendurskoðunar. Í mínum huga er efi að það sé rétt og ég hefði frekar talið að fagnefndirnar, hver á sínu sviði, ættu að fjalla um stjórnsýsluendurskoðanirnar. Þess vegna vil biðja hv. þm. um að færa fram rök fyrir því af hverju það ættu ekki að vera fagnefndirnar sem slíkar og af hverju ætti að skipa sérstaka nefnd til að fjalla um allar stjórnsýsluendurskoðanirnar, alveg sama út á hvað þær ganga.

Síðan skildi ég ekki alveg athugasemd hv. þm. við það ákvæði sem nokkuð var umdeilt á síðasta þingi, þ.e. ákvæði sem snýr að möguleikum Ríkisendurskoðunar til þess að geta komið að endurskoðun fyrirtækja eins og Landsvirkjunar. Ég hefði viljað fá fram nánari skýringu á því hvort hann sé á móti því að slíkt ákvæði sé inni í lögum um Ríkisendurskoðun að Ríkisendurskoðun hafi þann möguleika sem opnaðist með lögunum á síðasta þingi.