Starfsskýrsla Ríkisendurskoðunar 1996

Fimmtudaginn 16. október 1997, kl. 15:04:29 (580)

1997-10-16 15:04:29# 122. lþ. 11.5 fundur 57#B starfsskýrsla Ríkisendurskoðunar 1996# (munnl. skýrsla), JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 11. fundur

[15:04]

Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég er alveg sammála því að það sé hlutverk fjárln. að fjalla um skýrslur Ríkisendurskoðunar um fjárreiður ríkisins og framkvæmd fjárlaga. Hún hefur til þess besta þekkingu. Með sama hætti tel ég að fagnefndir eigi að fjalla um þau svið sem heyra undir þær. Málefni sjúkrahúsa o.s.frv. eigi heilbrn. að fara yfir og tel ég að við munum ná miklu meiri árangri með því. Oft velst í nefndirnar fólk með sérþekkingu á þessu sviði og þess vegna tel ég að það væru miklu betri fagleg vinnubrögð ef það yrði gert svo. Auðvitað þurfa ekki að vera neinar deilur um það ef það yrði ákveðið og fastsett í þingsköpum að málin skuli vera með þeim hætti. Af því að menn hafa verið að tala um tvíverknað --- að fjárln. sé oft og tíðum líka að fjalla um þessar skýrslur, þá gætu þetta verið fagnefndirnar ásamt fulltrúum fjárln. sem fjölluðu um þetta. En ég tel að málin fengju faglegri umfjöllun ef fagnefndir, hver á sínu sviði eftir efni máls, fjölluðu um þessar skýrslur.