Starfsskýrsla Ríkisendurskoðunar 1996

Fimmtudaginn 16. október 1997, kl. 15:07:14 (582)

1997-10-16 15:07:14# 122. lþ. 11.5 fundur 57#B starfsskýrsla Ríkisendurskoðunar 1996# (munnl. skýrsla), SvG
[prenta uppsett í dálka] 11. fundur

[15:07]

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Ég vil aðeins víkja að því máli sem hv. síðustu ræðumenn skiptust á skoðunum um til að byrja með, þ.e. hvernig mætti fara með skýrslur Ríkisendurskoðunar og ríkisreikninga. Ég held að út af fyrir sig sé ágætt að það sé rætt í þessari umræðu þó fjallað hafi verið um það víða. M.a. var það mál rætt á þeim vettvangi sem á undanförnum árum hefur fjallað um hugsanlega endurskoðun á lögum um þingsköp Alþingis. Þar hafa menn staldrað við að til verði sérstök nefnd, sjálfstæð nefnd, ríkisreikningsnefnd, sem fái ríkisreikninginn og skýrslur Ríkisendurskoðunar til meðferðar og hafi þá lagalegu stöðu að geta leitað til þeirra stofnana sem í hlut eiga og gerðar eru athugasemdir við, innt þær eftir því hvort ábendingum Ríkisendurskoðunar hafi verið fylgt eftir, hvort sem það er í ríkisreikningskýrslunni eða annars staðar. Að nefndin hafi þá stöðu að hún geti lagt málið t.d. fyrir viðkomandi fagnefndir ef hún vill en það sé ekki endilega skylda að þetta fari til viðkomandi fagnefnda. Viðkomandi nefnd, ríkisreikningsnefndin, geti afgreitt athugasemdir Ríkisendurskoðunar endanlega og sagt: Nefndin telur ekki ástæðu til að fjalla um það frekar. En hún geti líka lagt það fyrir þingið.

Það sem menn hafa verið að tala um er að hluta til blanda úr danska og norska kerfinu. Danska kerfið er að því leytinu til sjálfstæðara en það norska að þar er ekki um að ræða pólitíska skipun ríkisendurskoðandans. Í Noregi er um að ræða pólitíska skipun ríkisendurskoðandans sem er mjög óeðlilegt. Síðast var skipaður stjórnmálamaður í það verk og þó að það sé í alla staði hinn mætasti maður þá veikir það stöðu norsku ríkisendurskoðunarinnar. En sú danska er sterkari að því leytinu til að þar er um að ræða hóp endurskoðenda, einir sex menn sem hafa tiltölulega sterka stöðu, og þessir aðilar senda málin til viðkomandi fagnefnda. Ég held í rauninni að þetta sé það kerfi sem sé skynsamlegast og ég segi fyrir mig að ég tel að okkur sé í raun og veru til vansa að vera ekki búin að koma því á vegna þess að það er engin meðferð á þessum skýrslum, ekki nokkur meðferð á þessu. Ríkisendurskoðun er að framleiða skýrslur á skýrslur ofan, athugasemdir á athugasemdir ofan og það er varla nokkur hlutur gerður með þetta, það verður að segja það. Enginn farvegur er í þinginu eins og nú er og eftir að við lögðum niður yfirskoðunarmenn ríkisreikninga sem voru kjörnir samkvæmt stjórnarskrárákvæði til eins árs í senn og var í rauninni algerlega fráleitt og eldgamalt kerfi frá 1874 --- sjálfsagt að leggja það niður --- þurfti um leið að tryggja að einhver farvegur væri fyrir þessa vinnu. Það hefur ekki verið gert. Við hefðum átt að gera það fyrir löngu og engin ástæða er til að draga það neitt. Hins vegar sýnist mér staðan vera þannig af því það er komið þetta langt fram á kjörtímabilið að nýtt kerfi að þessu leytinu til geti varla tekið gildi fyrr en frá og með næsta kjörtímabili en þá verður að afgreiða þó á þessu kjörtímabili.

Þá kemur auðvitað spurningin um nefndaskipun þingsins. Við þurfum að fækka þingnefndum. Við þurfum að koma á kerfi sem er nokkurn veginn þannig að hver þingmaður sé í einni nefnd en ekki í fjölda nefnda þannig að menn geti sinnt verkum sínum og líka þessu verki, þessari nefnd sem hér er um að ræða. Það er tiltölulega einfalt að gera grein fyrir þeim hugmyndum hvernig á að fara að því að fækka þingnefndunum vegna þess að það er tóm vitleysa hvernig þessir hlutir eru þar sem menn ná ekki almennilega utan um það að sitja í fjölda nefnda eins og þetta er núna og engin mynd á því.

Eins og aðrir kvaddi ég mér aðallega hljóðs til þess að kvitta fyrir það í þessum stól, af því ég hef stundum verið með þessi mál dálítið í umræðum áður, að ég tek eftir þessari skýrslu. Ég get tekið undir það með öðrum hér að ég tel að Ríkisendurskoðun fái góða einkunn í þessu plaggi, það er ekki hægt að neita því, og það er hægt að óska Ríkisendurskoðun og ríkisendurskoðanda til hamingju með það vegna þess að þessi stofnun, breska ríkisendurskoðunin, er einhver merkasta stofnun af sínu tagi í heiminum og er algjör brautryðjandi í þessum fræðum.

Eitt af því sem gerir bresku ríkisendurskoðunina sterka er það að hún er undir stjórn þingsins með ákveðnum hætti. Það er ákveðin sérstök nefnd, eins og ég var að tala um hér fyrir okkur --- það má segja að hugmyndin um sérstaka ríkisreikningsnefnd sé bresk, og sú nefnd sem þar starfar hefur þá sérstöðu meðal allra nefnda í breska þinginu að hún er alltaf undir stjórn stjórnarandstöðunnar. Í þingsköpunum stendur að formaður ríkisreikningsnefndarinnar í breska þinginu sé alltaf úr stjórnarandstöðunni. Þar með er verið að undirstrika sérstöðu nefndarinnar og eftirlitsskyldu og eftirlitshlutverk hennar.

Margt í þessu breska nefndakerfi finnst mér ótrúlega skrýtið, m.a. hvað nefndakerfið í breska þinginu er losaralegt, en ég öfunda breska þingið af þessu fyrirkomulagi vegna þess að það undirstrikar hið lýðræðislega eðli og þingræðislega eðli stofnunar eins og ríkisendurskoðunar. Ég tel að það væri ekki fullnægjandi að þessi nefnd, ríkisreikningsnefnd eða einhver, að hún yrði eins og allar aðrar nefndir. Ég held að hún ætti að vera aðeins öðruvísi. Hún gæti verið fámennari og hún ætti líka að vera undir forustu stjórnarandstöðunnar þannig að ekki sé hætta á því að hún lúti þessum venjulegu meirihlutaákvörðunum, meirihlutavölturum, sem alltaf eru í gangi meira og minna í þessari stofnun af því höfum því miður enga hefð fyrir minnihlutastjórnir sem eru alveg hræðileg örlög fyrir Íslendinga en það er nú eins og það er.

Ég vek athygli á því að hér er um að ræða mjög merkilegar ábendingar um starfsemi Ríkisendurskoðunar. Ég hef því miður ekki átt kost á því að hlýða á alla umræðuna um málið í dag en ég geri ráð fyrir því að hv. alþm. hafi farið yfir þessar ábendingar, niðurstöðurnar, og forðast þess vegna að fara yfir það vegna þess að ég óttast að þar með væri ég að endurtaka eitthvað af því sem hefur verið sagt en mér finnst mjög margt gott í þessum ábendingum. Sumt væri hægt að gera strax eins og að betrumbæta framsetningu á þessum skýrslum, það er fornyrðislagssvipur á þeim, þetta er svona forntextavinnslusvipur. Myndvinnslutæknin hefur ekki haldið innreið sína í Ríkisendurskoðun og töflur og skýringamyndir eru t.d. allt of lítið notaðar. En það sem er aðallega gagnrýnt í skýrslu bresku ríkisendurskoðunarinnar er skortur á eftirfylgni. Það kemur fyrir aftur og aftur í plagginu. Til að stytta mál mitt vil ég segja að ég tek undir þær ábendingar sem fram koma af hálfu bresku ríkisendurskoðunarinnar í þeim efnum og ég vek líka athygli á því hvað hún segir á bls. 17 í grein 24 um samskiptin við Alþingi, það er mjög mikilvægt sem þar kemur fram. Að lokum skora ég á forseta og forsn. að halda þannig á þessum málum að þessu verði fylgt eftir sem stendur hérna. Þetta eru ekki svo flókin mál að ganga í og fylgja eftir og svo þarf að breyta þingskapalögunum þannig að það verði til ríkiseikningsnefnd í síðasta lagi frá og með byrjun næsta kjörtímabils.