Starfsskýrsla Ríkisendurskoðunar 1996

Fimmtudaginn 16. október 1997, kl. 15:27:22 (584)

1997-10-16 15:27:22# 122. lþ. 11.5 fundur 57#B starfsskýrsla Ríkisendurskoðunar 1996# (munnl. skýrsla), KH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 11. fundur

[15:27]

Kristín Halldórsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. 1. þm. Reykn. fyrir þessa umfjöllun um skýrslu Ríkisendurskoðunar og reyndar þeim þingmönnum sem lagt hafa orð í belg. Þetta eru mjög fróðlegar umræður.

Ég kveð mér hljóðs í andsvari vegna þeirra umræðna sem hafa orðið bæði núna og oft áður um farveg fyrir þessar skýrslur í þinginu þannig að þær yrðu teknar meira til umfjöllunar í nefndum sem e.t.v. yrði þá frekar til þess, sem menn hafa mikinn áhuga á, að teknar yrðu til athugunar þær athugasemdir og leiðbeiningar sem koma fram í þessum skýrslum, en þær eru reyndar býsna margar sem koma fyrir þingið. Menn hafa gjarnan tjáð sig um það hvernig þessu ætti að vera háttað og menn skiptast í tvo hópa með það. Sumir vilja að stofnuð verði ný nefnd eða sérstök nefnd sem fjalli um þetta og virðast þó um leið ekki vilja að það leiði til þess að nefndum í þinginu fjölgi. Ég er út af fyrir sig sammála því að það má fækka nefndum í þinginu, en við fækkum þeim nú ekki með því að stofna nýja nefnd og ég skil ekki alveg rökin á bak við það að það þurfi sérstaka nefnd. Mér finnst þau ekki hafa komið fram.

Ég er sammála því sem hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir lagði til málanna um að eðlilegt væri að vísa skýrslum til viðkomandi fagnefnda. Ég held að það væri miklu farsælli leið. Ég hef ekki alveg náð því hvaða rök liggja að baki því að sérstök nefnd eigi að fjalla um þetta og ég óska eftir því að hv. 1. þm. Reykn. skýri það nánar.