Starfsskýrsla Ríkisendurskoðunar 1996

Fimmtudaginn 16. október 1997, kl. 15:36:41 (589)

1997-10-16 15:36:41# 122. lþ. 11.5 fundur 57#B starfsskýrsla Ríkisendurskoðunar 1996# (munnl. skýrsla), JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 11. fundur

[15:36]

Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar):

Herra forseti. Mér fannst hv. 1. þm. Reykn. ekki svara fyrirspurninni. Mér fannst hann blanda saman ólíkum svörum. Hann talar um að þó þingmenn séu ósáttir við svör ráðherra þá séu svörin á ábyrgð ráðherra. Gott og vel, en það er óskylt málefninu sem ég var að spyrja um. Nú geta ráðherrar borið fyrir sig hlutafélagavæðingunni og hreinlega ekki svarað viðkomandi spurningum og gert það í skjóli hlutafélagavæðingarinnar að þeir þurfi ekki að svara þingmönnum. Og af því að hv. þm. og forseti þingsins bendir á Ríkisendurskoðun, að hún sé komin með þennan aðgang og ef eitthvað óeðlilegt sé að gerast þá hljóti Ríkisendurskoðun að upplýsa það, þá nægir það bara ekki. Þingmenn gætu viljað spyrja um ákveðna hluti sem þeir fá ekki svör við hjá ráðherra. Ég spyr beint: Geta þingmenn þá leitað til forsetadæmisins um það að forsetadæmið beiti sér fyrir því að Ríkisendurskoðun afli þeirra svara sem ráðherra neitar að svara í skjóli hlutafélagavæðingarinnar? Ef þetta liggur ekki klárt fyrir þá held ég að óhjákvæmilegt sé að það sé alvarlega skoðað að breyta lögunum um hlutafélög í þá veru að þegar um er að ræða hlutafélög sem eru í eigu ríkisins að hálfu eða öllu leyti þá hafi þingmenn fullan og óskoraðan aðgang að starfseminni og þeim upplýsingum sem þeir telja nauðsynlegt að leita þar til þess að geta sinnt eftirlitsskyldu sinni. Mér finnst ekki óeðlilegt, herra forseti, að við þingmenn óskum eftir atbeina meginforseta þingsins um að þingmenn hafi alla þá möguleika sem til eru til að geta sinnt eðlilega eftirlitshlutverki sínu.