Atvinnusjóður kvenna

Fimmtudaginn 16. október 1997, kl. 15:54:09 (592)

1997-10-16 15:54:09# 122. lþ. 11.6 fundur 72. mál: #A atvinnusjóður kvenna# þál., JóhS
[prenta uppsett í dálka] 11. fundur

[15:54]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Ég vil þakka hv. flm. þessarar tillögu, Drífu Hjartardóttur, fyrir að flytja þetta mál inn á þingið og gefa okkur með því tækifæri til að ræða stöðu atvinnusjóðs kvenna og ekki síður almennt stöðuna í atvinnumálum kvenna sem er allt of lítið gert af og fullt tilefni til þess að ræða miklu meira og ítarlegar heldur en gert hefur verið hér á fyrstu dögum þessa þings.

Það er fyllilega ástæða til eins og hér er lagt til að metinn sé árangur af þessum sjóði sem hefur starfað frá 1991 og hvort tilefni sé til þess að breyta reglunum. Eitt er ljóst að styrkir úr þessum sjóði hafa nýst þeim mjög vel þeim konum sem fengið hafa. Þær hafa sýnt mikla ráðdeild og hagsýni og gert mikið úr litlu. Og örugglega er rétt sem málshefjandi sagði hér áðan að hann hefur ábyggilega skipt sköpum um áframhaldandi búsetu í heimabyggð hjá mörgum konum. En þessi sjóður hefur enga lagastoð. Hann byggir eingöngu á framlögum á fjárlögum og hefur gert það frá 1991. Nú erum við að vísu hætt að sjá þessi framlög á fjárlögum, þau eru einhvers staðar á einhverjum safnlið hjá Vinnumálaskrifstofunni og kannski er full ástæða til að skoða hvort þessi sjóður ætti ekki að fá trygga lagastoð þannig að ekki sé hægt að ráðskast með hann og kippa grundvellinum undan honum eins og þeim sem með málið fer hverju sinni þóknast.

Mér sýnist það vera a.m.k. um 200--300 styrkir sem hafa verið veittir á þeim tíma sem sjóðurinn hefur starfað. Þeir hafa verið veittir eins og framsögumaður kom að til ýmissar þróunar, hönnunar og markaðsetningar. Og ég held að það sé alveg full ástæða til þess að þessi sjóður starfi áfram þó vera megi að rétt sé að víkka út verkefni hans þannig að hann geti kannski nýst konum betur en hann hefur gert hingað til.

Ef við ræðum stöðuna almennt varðandi atvinnumál kvenna þá blasir við nokkuð hrikaleg mynd vegna þess að úti í þjóðfélaginu og hér inni í sölum Alþingis er gefin mynd af því að það sé nú kannski bara allt í lagi í atvinnumálum, atvinnuleysi hafi minnkað verulega o.s.frv. En þegar maður rýnir í atvinnutölurnar, sérstaklega hjá konum, hvað kemur þá í ljós, herra forseti? Í því sambandi vil ég minnast þess að þegar ég fór með félmrn. og atvinnumálin þá var töluvert atvinnuleysi enda vorum við í efnahagsþrengingum. Þá var staðan í atvinnumálum, atvinnumálum kvenna, iðulega rædd hér á Alþingi, hvort það ætti nú að grípa til sértækra aðgerða o.s.frv. Hér er ég með fyrir framan mig tölurnar frá 1992, þá var atvinnuleysi hjá konum 3,7% og hjá körlum 2,6%. En hvert er atvinnuleysið hjá konum og hvert hefur það verið undanfarin tvö til þrjú ár? Ég nefndi hér töluna 3,7% árið 1992. Það hefur verið 6,3% árið 1994, 6,4% árið 1995, 5,8% árið 1996, 6% í maí 1997 og núna er það 5,7%. Og í einstökum landshlutum --- nefnum bara, herra forseti, kjördæmi hæstv. félmrh., vinnumálaráðherra, sem sér ekki ástæðu til að heiðra okkur hér með nærveru sinni, þar er atvinnuleysi kvenna hæst nú um þessar mundir, í ágúst 6,8%. Og það hefði einhvern tímann verið talin ástæða til þess, herra forseti, að taka upp ítarlega umræðu um atvinnumál kvenna og stöðu kvenna í atvinnumálum. Það er ekki gert.

Ég tel fulla ástæðu til þess að stjórnarandstaðan skoði hvort ekki eigi að fara fram á utandagskrárumræðu almennt um atvinnuleysi hjá konum hér á landi vegna þess að það er gífurlega mikið. Við erum að tala kannski um 5--6% atvinnuleysi. Við erum að tala um 5,1% núna í ágúst hjá konum, meðan það er 1,8% hjá körlum. Og hvað er að? Hefði ekki einhvern tímann verið kallað á sértækar aðgerðir þegar staðan er svona? Þetta eru á fjórða þúsund konur. Við erum að tala um tvö þúsund konur á aldrinum 20--40 ára sem eru atvinnulausar nú um þessar mundir og við ræðum ekki þessa stöðu hér á Alþingi. Ég þakka þingmanninum fyrir að hreyfa þessu máli þannig að við höfum tækifæri til að ræða það. En við þurfum að ræða það líka miklu ítarlegar undir sérstökum dagskrárlið þar sem ráðherrar eru til svara en hér eru núna tómir bekkir hjá ráðherrunum þegar við erum að ræða um atvinnusjóð kvenna. Og af hverju er málum svo komið? Allar sértækar aðgerðir sem gripið hefur verið til gegnum árin snúast um að fjölga stöðum í þessum sérstöku karlastörfum, í vegamálum, í viðhaldsverkefnum, í mannvirkjagerð o.s.frv. Ég man að ég þurfti sem ráðherra árið 1993 að knýja á um sérstakt framlag sem var 60 milljónir sem sérstaklega fór í atvinnuátak fyrir konur. Það nýttist geysilega vel og skilaði árangri.

[16:00]

En nú á þessum tímum, í góðæri, og þegar menn eru að tala um að atvinnuleysi sé lítið, þurfum við aftur að grípa til sértækra aðgerða til að bæta stöðu kvenna. Og staðreyndin er sú að þegar við förum yfir þær stöður og þau störf sem konur eru í, þá hefur þeim núna í gegnum árin ýmist fækkað eða fjöldi þeirra staðið í stað. Við getum talað um banka og fjármálastofnanir, þar hefur á undanförnum 4--5 árum fækkað um 1.200 störf og auðvitað mætti nefna fleiri störf í því sambandi. Og ég held að hagræðingin sem er jú nauðsynleg, hafi bitnað meira á störfum kvenna en karla. Við verðum að fara yfir allt landslagið í þessum málum. Hvað er raunverulega að gerast? Af hverju er atvinnuleysi hjá konum svona gífurlega hátt? Og það er ekki hægt að líta fram hjá því þegar við stöndum frammi fyrir svona miklu atvinnuleysi hjá konum að við reynum að fara yfir hver skýringin á því er. Hver er skýringin á því að atvinnuleysi kvenna hefur frá því að þessi ríkisstjórn tók við --- tölurnar eru hér frá árunum 1994, 1995, 1996 og 1997 --- aukist svona gífurlega? Það hlýtur að vera einhver skýring á þessu sem okkur ber skylda til þess að fara yfir.

Sá sjóður sem við ræðum hér er auðvitað liður í því að bæta stöðu kvenna, gera þeim fært að koma til framkvæmda ýmsum hugmyndum sem þær eru með til þess að bæta stöðuna í atvinnumálum kvenna. Þessi sjóður á að starfa áfram og ég hvet til þess að hann fái sérstaka lagastoð og meira fjármagn heldur en hann hefur haft úr að spila, þessar tölur sýna að það er nauðsynlegt. Og það á að auka og það á að útvíkka hlutverk sjóðsins.

En við þurfum, herra forseti, (Forseti hringir.) líka að fara yfir stöðuna í atvinnumálum kvenna. Það er ekki lítið atvinnuleysi hér í landinu þegar við erum með 5--6% atvinnuleysi hjá konum og höfum verið með það 2--3 sl. ár. Og ég mun íhuga það og ræða við stjórnarandstöðuna hvort ekki sé ástæða til þess að við förum í ítarlega umræðu utan dagskrár þar sem ráðherrabekkurinn yrði fullskipaður, (Forseti hringir.) þar sem við ræðum það alvarlega ástand sem um þessar mundir er í stöðunni í atvinnumálum kvenna hér á landi.