Atvinnusjóður kvenna

Fimmtudaginn 16. október 1997, kl. 16:02:56 (593)

1997-10-16 16:02:56# 122. lþ. 11.6 fundur 72. mál: #A atvinnusjóður kvenna# þál., KH
[prenta uppsett í dálka] 11. fundur

[16:02]

Kristín Halldórsdóttir:

Herra forseti. Já, það er svo sannarlega ástæða til þess að ræða ástandið í atvinnumálum kvenna og þess vegna kem ég hingað til þess að taka undir efni þessarar tillögu og þá fyrst og fremst um nauðsyn þess að tryggja framhald á stuðningi við þróun og uppbyggingu atvinnu með sérstöku tilliti til kvenna. Þess vegna fagna ég því að þessi tillaga er fram komin og tek undir orð hv. síðasta ræðumanns um að það er ástæða til þess að taka þetta ástand sérstaklega fyrir. Við lítum svo sannarlega á það sem mikið áhyggjuefni hvernig atvinnumál kvenna hafa þróast vegna þess að breytingar á atvinnuháttum hafa haft mjög mikil áhrif á líf kvenna um allt land. Um það mætti skrá mikla bók og merkilega og verður kannski einhvern tíma því að það hefur átt sér stað mjög merkileg þróun. Og við skulum ekki gleyma því hvernig sívaxandi vinna kvenna á almennum vinnumarkaði hefur beinlínis staðið undir hinum títt nefnda og mér liggur við að segja elskaða hagvexti undangenginna áratuga því að það er fyrst og fremst aukið vinnuframlag kvenna sem er skýringin á auknum hagvexti undangenginna ára.

Atvinnuleysi hefur hins vegar rækilega minnt okkur á hversu brotakennt atvinnuöryggið er í raun og veru og þá fyrst og fremst atvinnuöryggi kvenna. Atvinnuleysi kemur alls staðar í heiminum harðast niður á konum og erum við sannarlega engin undantekning hér á landi. Stjórnvöld hafa hins vegar aðeins að örlitlu leyti brugðist við þessari staðreynd eins og kom fram í máli hv. síðasta ræðumanns og þá t.d. með þeim sjóði sem þetta þingmál snýst um. Það er út af fyrir sig góðra gjalda vert, en ef við nú berum það verkefni saman við framtak ríkisvaldsins í sköpun atvinnu sem verður að teljast að langmestu leyti við hæfi karlmanna, þá smækkar þetta verkefni niður í --- ég vil nú ekki segja nánast ekki neitt, en það liggur við að manni finnist það. Þegar ríkisvaldið vill hafa áhrif á þróun atvinnuvega, þá er það allt á ákaflega karlmannlegum nótum. Þá er settur milljarður í vegakerfið, í vegalagningu og margfölduð áhersla á stóriðju og fleira í þeim dúr.

Hitt er svo deginum ljósara að konur eru býsna lagnar við að gera mikið úr litlu og þær hafa verið ótrúlega útsjónarsamar að skapa sér sjálfum atvinnu og verkefni af ýmsu tagi. Í þrengingum undanfarinna ára hafa þær sýnt aldeils ótrúlegt þolgæði og hugmyndaflug við atvinnusköpun, bæði í ferðaþjónustu, við verslun og viðskipti af ýmsu tagi og við framleiðslustörf og það hefur verið mjög merkilegt að fylgjast með þeirri þróun. Því miður bera þær reyndar oft og tíðum allt of lítið úr býtum og það er mikið áhyggjuefni. Þær leggja mjög mikla sjálfboðavinnu af mörkum, þ.e. þær vinna kauplaust eða á mjög lágu kaupi mánuðum saman á meðan verkefnið er að þróast og þar fram eftir götunum. Maður spyr sig jafnvel stundum hvernig almennt efnahagsástand í þjóðfélaginu væri ef karlar hefðu verið og væru almennt jafnnægjusamir og konur í þessum efnum. Og er ég þá ekki að halda því fram að konurnar eigi alltaf að vera jafnhógværar og þær eru því að auðvitað er það ástæðan fyrir því að þær sitja oft eftir. Þær finna til slíkrar ábyrgðar gagnvart efnahagsþrengingum þjóðfélagsins að þær kunna varla við að fara fram á almennileg laun sér til handa og þegar þeim er síðan gjörsamlega ofboðið, þá þurfa þær að leggja út í svo hatramma baráttu og þegar þær síðan ná því að fá eitthvað hærri prósentutölu í samningum, þá er það svo sannarlega munað og á það minnt á sí og æ. Konur eru, eins og hv. flm. tók fram í ræðu sinni, mjög ófúsar að taka há lán eða jafnvel nokkur lán því að þær vilja ekki setja fjárhag fjölskyldunnar í neina hættu fyrir utan það að þær hafa löngum veigrað sér við því að sækjast eftir lánum. Ástæðan fyrir því er því miður sú að þeim finnst þær hafa mætt lítilsvirðandi viðmóti, ekki verið teknar sem fullgildir einstaklingar heldur spyrtar við eiginmenn sína, þrælspurðar um hans fjárhag, og þannig hafa þær fundið rækilega og grímulaust fyrir hefðbundnu vantrausti í garð kvenna hvað þessi mál varðar. Þetta er því miður staðreynd og er mjög slæmt og um þær móttökur sem konur hafa oft fengið þegar þær leita t.d. eftir lánum í lánakerfinu væri hægt að nefna ýmis dæmi.

Það eru líka mörg dæmi miklu ánægjulegri sem er hægt að nefna um vel heppnað framtak kvenna. Þau eru mörg og það er afskaplega ánægjulegt að heimsækja fyrirtæki kvenna eins og við kvennalistakonur gerum okkur far um þegar við förum um landið. Flest þeirra eru lítil. Þau eru rekin af mikilli útsjónarsemi og hagsýni og þar ríkir iðulega mikil gleði og samkennd. Og ég held að því megi slá föstu að þessi atvinnurekstur er ekki baggi á banka- og sjóðakerfinu og að lán til kvenna vegna atvinnusköpunar eða atvinnureksturs yfirleitt vega ákaflega létt í þeirri summu upp á nokkra tugi milljarða, ég er ekki ein af þeim sem muna léttilega tölur, en gott ef þeir eru ekki um 60 sem hafa verið afskrifaðir sem töpuð lán á sl. 5 árum.

En að lokum, ég sé að tími minn er búinn, það sem hér er kallað atvinnusjóður kvenna er í rauninni ekki lengur til, a.m.k. ekki í sýnilegu formi í fjárlögum. (Forseti hringir.) Þessu verkefni var vísað til Atvinnuleysistryggingasjóðs á síðasta ári og hans sér ekki stað í fjárlögum eða fjárlagafrv. þessa árs. Það er miður vegna þess að þó að við getum spurt um hann hér eða nefndarmenn í fjárln. geti spurt um hann í nefndinni, þá er mjög slæmt að hann skuli ekki vera hér. Og ég held að við ættum að athuga þetta vegna þess að það er mjög erfitt að fylgjast með þróun málsins þegar svona er búið að fara með þennan sjóð.