Efling atvinnu- og þjónustusvæða á landsbyggðinni

Fimmtudaginn 16. október 1997, kl. 16:25:54 (597)

1997-10-16 16:25:54# 122. lþ. 11.8 fundur 16. mál: #A efling atvinnu- og þjónustusvæða á landsbyggðinni# þál., Flm. HjálmJ (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 11. fundur

[16:25]

Flm. (Hjálmar Jónsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir till. til þál. um eflingu atvinnu- og þjónustusvæðanna á landsbyggðinni. Tillgr. hljóðar svo:

,,Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að skipa nefnd til að móta tillögur um það hvernig efla megi atvinnu- og þjónustusvæðin (vaxtarsvæðin) á landsbyggðinni í því skyni að jafna aðstöðu landsmanna í dreifbýli og þéttbýli.

Kannað verði m.a. hvernig:

a. fólki verður auðvelduð vinnusókn úr dreifbýli í þéttbýli, t.d. með því að aksturskostnaður verði frádráttarbær frá skatti,

b. kostnaður vegna margvíslegrar sérfræðiþjónustu á vegum ríkisins verði jafnaður,

c. bæta megi aðgengi fyrirtækja að stoðkerfi atvinnulífsins, svo sem helstu menntunar-, rannsóknar- og ráðgjafarstofnunum svo og fjárfestingarsjóðum,

d. kostnaður landsmanna vegna húshitunar verði jafnaður, t.d. með því að arðgreiðslur Landsvirkjunar gangi til þess,

e. reglur og vinnubrögð banka og sjóða um lánveitingar til atvinnulífsins og einstaklinga verði samræmdar þannig að þær mismuni ekki landsbyggðinni gagnvart höfuðborgarsvæðinu.``

Þessa tillögu flyt ég ásamt átta öðrum þingmönnum stjórnarflokkanna. Þau eru hv. þm. Arnbjörg Sveinsdóttir, Egill Jónsson, Einar K. Guðfinnsson, Guðni Ágústsson, Gunnlaugur M. Sigmundsson, Hjálmar Árnason, Sturla Böðvarsson og Vilhjálmur Egilsson.

Herra forseti. Þegar fjallað er um byggðamál vill stundum brenna við að rætt sé um málefni hinna dreifðu byggða sem einangraðan þátt sem komi þeim einum við. Staðreyndin er þó önnur. Búsetudreifing í landinu er sameiginlegt mál allra landsmanna. Allir landsmenn, hvar sem þeir búa, eiga mikið undir því að þróun búsetu eigi sér stað en ekki sé nánast um stökkbreytingar að ræða. Hagsmunir dreifbýlis og þéttbýlis fara saman í jafnri þróun og stöðugri. Meginmarkmið byggðastefnu eiga að mínum dómi að vera þau að byggð þróist sem hagkvæmast fyrir þjóðarheildina, að auðlindir lands og sjávar nýtist sem best og að atvinnulífi í landinu séu búin eðlileg rekstrarskilyrði svo að fyrirtækin geti skilað arði og geti þannig verið sú undirstaða sem annað hvílir á.

Þegar horft er til búsetuþróunar á undanförnum árum hlýtur okkur að bregða í brún. Á skýringarmynd sem prentuð er sem fylgiskjal með tillögunni sést að ekkert lát er á fólksflutningi af landsbyggðinni til höfuðborgarsvæðisins. 47% af samanlagðri fjölgun á höfuðborgarsvæðinu hefur komið af landsbyggðinni á undanförnum 15 árum. Það þýðir að nánast níundi hver íbúi í Reykjavík í dag flutti þangað af landsbyggðinni á undanförnum 15 árum.

Enginn amast við því að fólk flytji sig til. Búsetubreytingar eru fullkomlega eðlilegar rétt eins og eðlilegt er að fólk skipti um starf nokkrum sinnum á lífsleiðinni. En þegar aðstreymið hingað á suðvesturhornið er jafneindregið og raun ber vitni eru það að mínum dómi alvarleg hættumerki. Þeir tímar koma þá innan skamms að tiltölulega stór svæði á landsbyggðinni geta ekki lengur veitt þá þjónustu sem kallað er eftir í nútímaþjóðfélagi og þykir sjálfsögð. Samdrátturinn minnkar tekjur sveitarfélaganna og af þeim ástæðum getur svo farið að innan skamms verði fólksflutningarnir af landsbyggðinni til höfuðborgar enn þá örari.

[16:30]

Störfum hefur fækkað verulega í landbúnaði á 10 ára tímabili frá 1985--1994. Þeim hefur fækkað úr 8.300 í 5.200. Það er ótrúlega mikil fækkun á skömmum tíma. Annað áhyggjuefni á landsbyggðinni er að ættliðaskipti í landbúnaði eru afar erfið. Lánveitingar til landbúnaðar eru langt á eftir fyrirgreiðslu í lánum til sjávarútvegs og iðnaðar. Séu lánveitingarnar ekki til nægilega langs tíma mun það ugglaust valda hækkandi búvöruverði. Það mun vissulega koma niður á öllum.

Á vegum Byggðastofnunar starfar nefnd sem hefur það verkefni að kanna ástæðurnar fyrir hinum miklu búferlaflutningum í landinu. Mér skilst að nefndin muni skila áliti í byrjun næsta árs. Þar verður vafalaust margt forvitnilegt upplýst. Mér býður í grun að flutningur fólks á suðvesturhornið sé í mörgum tilvikum eini kostur fólks og einn kostur er oftast nauðugur kostur. Hann er þvingaður kostur. Hér eru tekjumöguleikarnir yfirleitt meiri, hér er ýmis sérfræðiþjónusta sem kostar stórfé að bera sig eftir af landsbyggðinni eða fá hana til sín. Þessi mismunun er landsbyggðinni í óhag en kemur niður á öllum. Margvísleg sérfræðiþjónusta, sem ríkið hefur á hendi, er staðsett í Reykjavík. Vilji atvinnurekendur og sveitarfélög nýta sér þjónustuna þurfa þeir og þau að greiða ýmsan aukakostnað sem leiðir af ferðalögum og óhagræði. Það virðist liggja beint við að jafna þetta þannig að landsmenn sitji við sama borð hvað varðar aðgengi að þjónustunni. Byggðastofnun hefur nú markað sér lofsverða og athyglisverða stefnu í því að setja atvinnuráðgjafa víða á landsbyggðinni. Í fleiri málum hefur Byggðastofnun tekið málin nýjum og fastari tökum. Nýjustu fréttir eru þær að formaður stjórnar Byggðastofnunar hefur lagt fram tillögu um að flytja þróunarsvið Byggðastofnunar á landsbyggðina, í þessu tilviki til Sauðárkróks. Það gefur vonir um vaxandi gengi landsbyggðar, í öllu falli á stóru svæði þar. Þar er um að ræða sex störf sem er ekki svo lítið mælt á kvarða okkar. Samt sem áður er það svo að aðgengi fyrirtækjanna á landsbyggðinni að stoðkerfi atvinnulífsins er verulega lakara en á höfuðborgarsvæðinu. Þetta veldur því í mörgum tilfellum að fyrirtæki nýta sér ekki þjónustuna. Það er mjög miður, það gerir þeim erfiðara um vik að fylgjast með auka framleiðni sína og arð og getu til að greiða hærri laun. Ég er ekki að segja að stöðnun ríki í atvinnulífi á landsbyggðinni heldur gætu fyrirtækin í einhverjum tilvikum gert betur ef aðgengi að stoðkerfinu væri betra og nýsköpun væri líka stórum auðveldari.

Herra forseti. Það er pólitískt úrlausnarefni hvernig landið er byggt öðrum þræði og það kemur öllum landsmönnum við. Þau efnisatriði sem hér er drepið á er hægt að taka pólitíska ákvörðun um. Með stjórnvaldsaðgerðum er hægt að draga úr mismunun dreifbýlis og þéttbýlis á Íslandi. Það er sjálfsögð jöfnun en ekki sértæk aðgerð. Meðan mismunurinn á sér stað má ímynda sér að það sé pólitískur vilji að stuðla að búseturöskun. En ég er sannfærður um að svo er alls ekki. Ég tel fullvíst að þingmeirihluti sé fyrir því að allir landsmenn sitji við sama borð. Þetta er einhvers konar misskilningur eða slys að mismunun sé eftir búsetu.

Herra forseti. Margar leiðir eru til að jafna þessa hluti. Stjórnvöld þurfa að taka ákvörðun um markvissar aðgerðir til að styðja við búsetu í byggðum landsins. Það er alls ekki til góðs að mannfjöldasprenging sé eða verði á mjög afmörkuðum svæðum í landinu.

Það sem fólk tæki strax eftir og mest í kjörum sínum yrði tillagan samþykkt að húshitunarkostnaður á landsbyggðinni yrði lækkaður. Það á að vera auðvelt mál þar sem ríkishlutinn af arðgreiðslu Landsvirkjunar gæti að einhverju leyti gengið til þeirrar jöfnunar. Þegar fólk sækir vinnu úr sveit í nálægt þéttbýli innan atvinnu- og þjónustusvæðis þarf það að geta dregið þann kostnað frá skatti. Þetta hvort tveggja virðist mér liggja beint við að gera. Fólk ætti með þessum hætti mun auðveldara með að nýta fjárfestingar sínar í hinum dreifðu byggðum landsins. Verði þessi aðstöðumunur jafnaður, herra forseti, er ég þess viss að augu margra opnast fyrir ýmsum öðrum kostum sem felast í því að búa úti á landi.

Ég leyfi mér að vitna í rannsókn Stefáns Ólafssonar á búferlaflutningum en sú könnun stendur yfir. Á byggðaráðstefnu á Akureyri í vor var kynnt brot af niðurstöðum úr könnuninni. Ég vil geta þeirra. Þar kemur fram að landsbyggðarfólk er tiltölulega ánægt með búsetuna þótt annmarkar séu taldir nokkrir. Minnst ánægja er með atvinnutækifærin og tekjuöflunarmöguleikana. Oft og einatt er einhæfni í atvinnulífinu en almenn ánægja með ýmsa opinbera þjónustu svo sem dagvistun, grunnskóla, heilbrigðisþjónustu, vegasamgöngur víðast hvar og margháttað menningarlíf og almenna þátttöku í því. En vissulega horfa margir til þess að auðveldara er á margan hátt að flytja á höfuðborgarsvæðið vegna þess að atvinnumöguleikar eru meiri og fjölbreytnin sömuleiðis.

Herra forseti. Landsbyggðin á mikla möguleika á sókn og vexti enda hefur landið margvíslega kosti sem mikilvægt er að nýta og hlúa að því samfélagi sem er í dreifðum byggðum landsins. Þar varðar mestu að svonefnd vaxtarsvæði nái að dafna og það eru svæðin sem hafa bestar forsendur til að vaxa og svara auknum kröfum um fjölbreytt atvinnulíf og margvíslega þjónustu nútímasamfélagsins.

Herra forseti. Ég hef rakið nokkur atriði þar sem réttur landsbyggðarfólks er minni en réttur þeirra sem búa á höfuðborgarsvæðinu. Þegar talað er um að nauðsynlegt sé að draga úr misvægi atkvæða í landinu með stjórnarskrárbreytingum finnst mér að benda þurfi á dæmi sem staðfesti að pólitísk mismunun eigi sér stað á kostnað þeirra sem búa á þéttbýlasta svæði landsins, höfuðborgarsvæðinu. En á meðan mismununin á sér stað á hinn veginn þar sem landsbyggðin situr ekki við sama borð og höfuðborgarsvæðið er ástæðulaust að tala um jöfnun atkvæðisréttar.

Herra forseti. Ég legg til að tillögu þessari verði að lokinni umræðunni vísað til síðari umræðu og hv. allshn.