Efling atvinnu- og þjónustusvæða á landsbyggðinni

Fimmtudaginn 16. október 1997, kl. 17:12:36 (603)

1997-10-16 17:12:36# 122. lþ. 11.8 fundur 16. mál: #A efling atvinnu- og þjónustusvæða á landsbyggðinni# þál., KHG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 11. fundur

[17:12]

Kristinn H. Gunnarsson (andsvar):

Herra forseti. Ekki ber nú held ég mikið í milli í afstöðu okkar til málsins að öðru leyti en hv. þm. rennur auðvitað blóðið til skyldunnar að verja sína ríkisstjórn og vill bera af henni það blak að öllum þremur markmiðunum sem hún setti sér hafi henni mistekist að ná fram. Það er fullyrðing sem ég setti fram og fullyrðing sem ég ætla að standa við því ég hef öll rök til þess að sýna fram á að hún sé rétt og þarf þess raunar ekki því að hv. 1. þm. Vestf. gerði það rækilega í sinni ræðu og vísa ég til röksemdafærslu og upplýsinga sem fram komu í máli hans því til stuðnings.

Ég vil aðeins segja að lokum, herra forseti, um löggjöf um nýtingu auðlinda eins og fiskimiðanna. Sú löggjöf er mjög hamlandi fyrir fámenna staði á landsbyggðinni sem hafa efnahagslega lítið bolmagn. Þeir hafa líka flestir misst sína togara og með þeim mikið af aflaheimildum sínum. Fiskveiðistjórnunarkerfið hefur breyst í efnahagslöggjöf sem er ekki bara til að stýra því hvernig miðin eru nýtt, eða með öðrum orðum að þau séu ekki ofnýtt, heldur hvernig menn geta látið misjafna efnahagslega stöðu ráða þróuninni og í því kerfi verða þeir fámennu undir í samkeppni við fjölmennari staðina. Við sjáum og höfum mörg dæmi um að aflaheimildir og veiðitæki hafa flust af milli staða af þeim sökum og löggjöfin er eitt af vandamálunum sem landsbyggðin á við að búa.