Efling atvinnu- og þjónustusvæða á landsbyggðinni

Fimmtudaginn 16. október 1997, kl. 17:15:52 (605)

1997-10-16 17:15:52# 122. lþ. 11.8 fundur 16. mál: #A efling atvinnu- og þjónustusvæða á landsbyggðinni# þál., LB
[prenta uppsett í dálka] 11. fundur

[17:15]

Lúðvík Bergvinsson:

Virðulegi forseti. Sú umræða sem hefur spunnist í tilefni af flutningi þessar þáltill. hefur meira snúist um byggðamál og byggðaþróun heldur en nákvæmlega um efnisatriði tillögunnar. Ég ætla að fylgja í fótspor þeirrar umræðu.

Það er alveg ljóst að sú þróun sem átt hefur sér stað á landsbyggðinni undanfarin 10--15 ár að minnsta kosti er mjög uggvænleg. Ég held að það hafi verið samfelld fækkun á landsbyggðinni allt frá árinu 1980 eða um það bil. Sú þróun er mjög uggvænleg og alls ekki þjóðhagslega hagkvæm þó að það sé nú jafnan þannig að ekki er hægt að binda fólk á klafa um það hvar það vill búa. Þess vegna skiptir í raun og veru miklu máli hvernig við nálgumst þá umræðu sem hér fer fram. Eitt af því sem ég hef tekið sérstaklega eftir í þessari umræðu er hve neikvæð hún í raun og veru er og hvernig landsbyggðarmenn hafa sjálfir átt sinn þátt í að draga upp neikvæða ímynd af landsbyggðinni. Það sem ég held að skipti miklu máli í tilraunum landsbyggðarmanna til að reyna að snúa þessari þróun við er að þeir fari sjálfir að draga fram þá kosti sem í því felast að búa úti á landi. Það held ég að skipti mjög miklu máli. Það er alveg sjálfgefið að meðan sífellt er verið að draga upp þá mynd af landsbyggðinni að þar sé allt í niðurníðslu þá er mjög erfitt að fá fólk til að flytja út á land eða að búa þar.

Ég hef nýverið lagt fram fsp. til fjmrh. um þróun fasteignaverðs á landsbyggðinni og í Reykjavík frá árinu 1976 til dagsins í dag. Ég held að niðurstaða úr þeirri könnun verði mjög merkileg og segi meira en mörg orð um þá þróun sem hefur átt sér stað. Á hinn bóginn lít ég nú reyndar svo á að sú tillaga sem hér er sett fram, og er örugglega sett fram af góðum hug eins og einhver hv. þm. nefndi áðan, sýni að ríkisstjórninni hafi ekki tekist að framfylgja ályktun Alþingis um stefnumótun sem samþykkt var á Alþingi fyrir árin 1994 til 1997. Það sem hér er lagt til felst í þeirri ályktun sem Alþingi samþykkti. Mér finnst einhvern veginn að framlagning þessara till. af stjórnarþingmönnum hljóti að vera yfirlýsing af þeirra hálfu um að ríkisstjórninni hafi hreinlega ekki tekist að framfylgja þeirri ályktun sem samþykkt var hér á Alþingi, það er ekki hægt að skilja þessa tillögu öðruvísi en svo.

Enn fremur tel ég nokkuð augljóst að þeir sem standa að flutningi á þessari tillögu geti varla farið að samþykkja hér vegáætlun og flugmálaáætlun með niðurskurði því það eru grundvallarþættir í því að búa á landsbyggðinni. Og ef þeir vilja styrkja landsbyggðina þá er alveg ljóst að þeir geta aldrei staðið að samþykkt á niðurskurði í þessum málaflokkum. Ellegar er bara ekki orð að marka af því sem stendur í tillögunni. Ég held það verði mjög fróðlegt að fylgjast með því þegar að því kemur að samþykkja hér vegáætlun ef þar verður um að ræða einhvern verulegan niðurskurð sem hv. þm. Magnús Stefánsson gat um áðan þó að við stjórnarandstæðingar höfum ekki séð þá áætlun enn þá. Það verður fróðlegt að fylgjast með því ef þeir hv. þm. sem að þessari tillögu standa munu á síðari stigum samþykkja niðurskurð í vegáætlun. Það verður a.m.k. erfitt að setja þá ákvörðun í einhvern rökrænan búning. Það held ég að sé alveg deginum ljósara. Enda hefur hv. þm. Magnús Stefánsson lýst því yfir opinberlega að hann setji mikinn fyrirvara við þá áætlun sem nú liggur fyrir í vegamálum og ætlunin er að leggja fyrir Alþingi.

Hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson nefndi hér áðan að það væri nánast einkenni á þessari ríkisstjórn, og ég held hann hafi vitnað til þeirrar síðustu líka, að þar sé afskiptaleysi í byggðamálum almennt. Ég held það megi taka undir þá fullyrðingu hv. þm. því að í raun og veru, þrátt fyrir góð orð og háleit markmið um að halda landi í byggð o.s.frv., er kannski lítið sem hægt er að segja að hafi verið gert í þeim málum til að standa við þær yfirlýsingar. Það er einkanlega vega- og flugmálaáætlun sem þar koma til skoðunar um hvort eitthvert samhengi sé milli orða og verka því það er grundvallaratriði fyrir landsbyggðina að samgöngur séu góðar.

Í framsöguræðu sinni fyrir þessari tillögu hér áðan nefndi hv. 1. flm. það sem einhvers konar réttlætingu fyrir því að gripið yrði til sértækra aðgerða og réttlætingu fyrir núverandi kjördæmaskipan í landinu og kosningareglu að höfuðborgin hefði svo margt fram yfir landsbyggðina að landsbyggðin mætti þá hafa eitthvað annað fram yfir hana. Með öðrum orðum, að ein mismunun leiddi til réttlætingar á annarri mismunun. Ég verð að viðurkenna það, virðulegi forseti, að ég á mjög erfitt með að átta mig á röksemdafærslu af þessu tagi. (KHG: Er þetta ekki jákvæð mismunun?) Já, að ein mismunun leiði til annarrar mismununar þýði sem sagt jákvæð mismunun. Ég verð að mótmæla fullyrðingum hv. 1. flm. sem setur rök sín fram með þessum hætti.

Hins vegar vil ég hnykkja enn frekar á því sem ég sagði í upphafi máls míns að við þingmenn sem komum utan af landi þurfum að setja okkur það mark að reyna að snúa við þeirri neikvæðu umræðu og neikvæðu ímynd sem óneitanlega er smám saman að skapast um landsbyggðina með því að reyna að draga fram hið jákvæða við hana, að fólk vill búa þarna sökum þess að það hefur margt fram yfir það að búa í þéttbýli. Við megum ekki alltaf vera að draga allt hið neikvæða fram. Við verðum að reyna að breyta þessari umræðu því hún skiptir gríðarlega miklu máli um að við fáum menntað fólk til að starfa á landsbyggðinni. Það skiptir gríðarlega miklu máli að fólk hafi trú á því sem er að gerast á heimavígstöðvunum. Það skiptir alveg gríðarlega miklu máli. Dæmi sem ég hef tekið sérstaklega eftir er Húsavík. Mér virðist að þar hafi menn áttað sig á nauðsyn þess að tala jákvætt og koma á framfæri jákvæðum fréttum af sinni heimabyggð. Ég held að það hafi skilað nokkru til þess að fólk fái trú á sinni heimabyggð.