Efling atvinnu- og þjónustusvæða á landsbyggðinni

Fimmtudaginn 16. október 1997, kl. 17:28:21 (609)

1997-10-16 17:28:21# 122. lþ. 11.8 fundur 16. mál: #A efling atvinnu- og þjónustusvæða á landsbyggðinni# þál., LB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 11. fundur

[17:28]

Lúðvík Bergvinsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég nefndi það áðan að umræðan um þessa tillögu hefði smám saman þróast út í einhvers konar byggðaumræðu. Ég held að það sé einmitt það sem við megum ekki láta þessa umræðu þróast í, að hún verði þannig að hér sé um að ræða baráttu milli landsbyggðar og höfuðborgar. Það eru sameiginlegir hagsmunir landsmanna að við höldum landinu í byggð. Það eru sameiginlegir hagsmunir landsmanna að við getum byggt okkur þannig upp á landsbyggðinni að fólk vilji vera þar og að við getum tryggt þar ákveðna gerjun í atvinnulífinu. Þetta eru sameiginlegir hagsmunir. En það þjónar kannski út af fyrir sig engum tilgangi að vera að koma á fót einhverjum nefndum um góð mál þegar þessum málum er nú þegar komið fyrir annars staðar.

Virðulegi forseti. Ég verð að ítreka það að ég get ekki skilið flutning þessarar tillögu öðruvísi en svo að hér sé um að ræða einhvers konar skæruliðahóp innan þingflokka ríkisstjórnarflokkanna sem gefur þau skilaboð frá sér að hann sé óánægður með stefnu ríkisstjórnarinnar í byggðamálum.