Efling atvinnu- og þjónustusvæða á landsbyggðinni

Fimmtudaginn 16. október 1997, kl. 17:29:45 (610)

1997-10-16 17:29:45# 122. lþ. 11.8 fundur 16. mál: #A efling atvinnu- og þjónustusvæða á landsbyggðinni# þál., EKG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 11. fundur

[17:29]

Einar K. Guðfinnsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að hv. þm. sé á nokkrum villigötum vegna þess að hann er að reyna að gera sér einhvern mat úr því að það séu þingmenn stjórnarliðsins sem flytja þessa tillögu og að á bak við liggi einhverjar hvatir sem hv. þm. er að reyna að gera sér í hugarlund hverjar séu. Ég held að þetta séu akkúrat umræður, virðulegi forseti, sem við eigum að forðast þegar við erum að tala um eins alvarlegt mál og þróun byggðamálanna er. Það getur vel verið að hv. þm. finnist í hita augnabliksins þegar hann situr hér inni að það kunni að þjóna pólitískum hagsmunum hans að vera með einhver læti. En það breytir hins vegar engu um efnislega niðurstöðu þessa máls sem er að það er mjög alvarleg þróun í byggðamálum. Hún á sér miklu flóknari ástæður heldur en við töldum hér áður og fyrr og við þurfum að fara í þessa umræðu mjög almennt og efnislega.

Ég var hins vegar mjög ánægður að heyra að hv. þm. taldi mikilvægt að auka fjármagn til vegamála. Ég er alveg sammála því að það sé eitt af því mikilvægasta sem við gerum um þessar mundir til að sporna við þessari byggðaþróun að auka fjármagn til vegamála. Þess vegna setti ég fram mjög skýran fyrirvara hvað þetta varðaði í fjárlagafrv. þegar verið var að afgreiða þetta mál í þingflokki Sjálfstfl. Það undraði mig nokkuð að þessi umræða kæmi frá hv. 6. þm. Suðurl., þm. jafnaðarmanna, vegna þess að mér hefur fundist að þegar vegamál hafa verið rædd á þeim bænum, þá hafi þau verið rædd á allt öðrum forsendum með allt öðrum formerkjum. Og þáv. málgagn Alþýðuflokksins, hið andaða Alþýðublað, tók sig sérstaklega til á sl. ári þegar fréttir bárust út um það að við nokkrir þingmenn stjórnarliðsins værum óánægðir með hlut vegamálanna í fjárlagafrv. og lýsti því yfir að þetta væri undarleg forgangsröðun, --- undarleg forgangsröðun af þingmönnum Sjálfstfl. Það væri ýmislegt annað sem væri nú brýnna heldur en að leggja peninga í það að leggja vegi út um allar þorpagrundir landsins.