Efling atvinnu- og þjónustusvæða á landsbyggðinni

Fimmtudaginn 16. október 1997, kl. 17:36:32 (614)

1997-10-16 17:36:32# 122. lþ. 11.8 fundur 16. mál: #A efling atvinnu- og þjónustusvæða á landsbyggðinni# þál., MS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 11. fundur

[17:36]

Magnús Stefánsson (andsvar):

Herra forseti. Ég vil nú bregðast við ræðu hv. þm. aðeins á öðrum nótum en hér hefur verið vegna þess að ég vil taka undir það sem hann sagði varðandi umræðuna á landsbyggðinni. Ég er alveg sammála hv. þm. með það eins og ég sagði í ræðu minni fyrr í dag að landsbyggðarmenn hafa ekki verið nógu jákvæðir í sínum málflutningi. Við þurfum og verðum að byggja upp jákvæðari ímynd heldur en ríkir í dag og einnig vil ég segja að það skiptir kannski ekki alveg nákvæmlega öllu máli hvaða aðgerða stjórnvöld grípa til ef landsbyggðarmenn sjálfir taka ekki við þeim á jákvæðan hátt.

Þarna tel ég að við stjórnmálamenn leikum mjög stórt hlutverk, ekki síst þingmenn landsbyggðarkjördæmanna, sem felst þá í því að taka þátt í því að efla þessa jákvæðu umræðu vegna þess að þeir huglægu þættir og sú ímynd sem er varðandi búsetu á landsbyggðinni skipta svo miklu máli í þessu öllu saman. Því það eru margir og miklir kostir við það að búa víðs vegar um landið.

Einnig vil ég nefna það og það er frægt og við þekkjum það að í lok fréttatíma í sjónvarpsstöðvunum er gjarnan skotið fram myndbroti sem menn kalla sjónvarpssólina í Reykjavík þar sem er verið að sýna myndir af fólki sem er á Austurvelli eða torgum borgarinnar að spóka sig í góða veðrinu. Þetta á sér kannski stað á sama tíma og fólks sums staðar úti á landsbyggðinni er í kulda og trekki og allt öðru veðurfari og þetta byggir smám saman upp þá ímynd hjá fólkinu úti á landsbyggðinni að það sé svona framúrskarandi gott veðurfar hér í Reykjavík sem ég held að sé algjör misskilningur.