Efling atvinnu- og þjónustusvæða á landsbyggðinni

Fimmtudaginn 16. október 1997, kl. 17:45:54 (617)

1997-10-16 17:45:54# 122. lþ. 11.8 fundur 16. mál: #A efling atvinnu- og þjónustusvæða á landsbyggðinni# þál., SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 11. fundur

[17:45]

Svanfríður Jónasdóttir:

Herra forseti. Þetta er nokkuð merkileg umræða sem hefur staðið yfir nokkurn tíma að undirlagi stjórnarsinna. Hún er merkileg vegna þess að við erum að ræða hina hliðina á stefnuræðu forsrh., hina hliðina á góðærinu rómaða, hina hliðina á því þegar ráðamenn segja: Það er allt í góðu lagi. Af því að við stjórnarandstæðingar heyrum ágætlega höfum við lengi vitað að ekki er allt í góðu lagi. Við höfum vitað að fólki fækkar úti á landi og við þekkjum áhyggjur fólksins þar sem finnur fyrir því að hið meinta góðæri hefur ekki komið við mjög víða á landsbyggðinni. En ef stjórnarandstæðingur segir þetta í sölum Alþingis þá er það neikvæðni, þá er það ómerkilegur málflutningur og þá er það málflutningur sem dregur úr. Þess vegna er svo merkilegt að hér skuli koma stjórnarsinnar, ekki einn heldur margir og lengst af einokuðu þeir umræðuna og þeir taka sig til og ræða hina hliðina á glansmyndinni. Það er afar merkilegt, herra forseti. Menn koma eins og þeir séu dottnir beint úr tunglinu og segja: Hér eru mikil tíðindi.

Það eru mikil tíðindi núna að í fyrra skyldu flytja 1.750 manns frá landsbyggðinni til Reykjavíkur. Herra forseti. Mér fundust það þó nokkur tíðindi í fyrra og svo eru það mikil tíðindi að nú skuli vera fluttir 1.500 frá landsbyggðinni og til Reykjavíkur og ekki nema október.

Herra forseti. Kannski má virða þeim mönnum það til vorkunnar, sem eru núna að vakna upp við þessi tíðindi og finnast þau mikil, þó að þeim finnist þeir sem tala öðruvísi koma í ræðustól til að þjóna pólitískum hagsmunum. Guð má vita hagsmunum hverra en það er alla vega sérkennilegur útúrsnúningur sem kom fram áðan.

Auðvitað eru allir sammála um alvöru málsins. Menn eru hins vegar ekki sammála um vandi hverra þetta er. Ég tek eftir því að stjórnarliðar tala gjarnan um vanda landsbyggðarinnar. En ég tek undir með þeim sem segja: Auðvitað er þetta vandi okkar allra og það er gallinn á umræðunni núna að eingöngu landsbyggðarþingmenn taka þátt í henni af því að þetta er vandi okkar allra.

Ég tek líka eftir því að menn skoða sérstaklega og ræða hvað er að gerast í einstökum kjördæmum og þá gjarnan í kjördæmi sínu. Það er líka vandi við umræðuna um byggðarmál á Alþingi og mér finnst óþægilegt að hlusta á það þegar þingmenn koma upp og tala um flutning úr kjördæmum. Mér hefur oft þótt sérkennilegt þegar mál koma upp einhvers staðar í landinu að þeir sem taka til máls í þingsal þegar málið er tekið upp eru fyrst og fremst þingmenn viðkomandi kjördæmis enda þótt öllum megi vera ljóst að málið snertir okkur öll sem Íslendinga. Það er m.a. vegna þessa, herra forseti, sem ég hef stutt þá tillögu að landið verði allt gert að einu kjördæmi. Mér sýnist að það sé líklegasta leiðin til þess að segja okkur öllum sem situm á löggjafarsamkomunni og öðrum sem ráða í samfélaginu að landið allt kemur okkur við, ekki bara einstakur partur þess þegar það passar.

Mér fannst líka sérkennilegt, herra forseti, þegar ég las vasafjárlög fjmrh. að þar er varað sérstaklega við sértækum aðgerðum sakir þess hversu vondar þær séu fyrir landsbyggðina. Ég gerði þetta að sérstöku umræðuefni úr ræðustóli vegna þess að mér fannst ólíðandi hvernig fjallað var um landsbyggðina á þeim stað vegna þess að niðurstaða mín er sú eftir að vera búin að fylgjast með þessum málum og umræðum um þau nokkuð lengi, að aðgerðir sem farið er í heita þá einungis sértækar að þær séu annars staðar en í Reykjavík. Sambærilegar aðgerðir í Reykjavík eru sjálfsagðir hlutir.

Ég vildi óska þess að okkur fyndist öllum að okkur kæmi þetta við vegna þess að þannig er það í raun og veru. Byggð og byggðaþróun á Íslandi kemur okkur öllum við og við þurfum líka, herra forseti, að hugsa til þess að ekki er nóg að við veltum því fyrir okkur hvort við höldum öllu landinu í byggð. Við þurfum líka að velta því alvarlega fyrir okkur hvernig við ætlum að halda Íslandi í byggð vegna þess að það er ekki lengur svo að fólk láti sér nægja að flytja úr dreifbýli í þéttbýli eða úr minna þéttbýlli í stærra þéttbýli. Fólk flytur því miður í allt of stórum stíl beint til útlanda eða á þangað erindi og ílendist vegna þess að auðvitað er það svo að fólk er ætíð að sækja í betri lífskjör. Ég er ekki að segja með þessu að lífskjör í útlöndum eða lífskjör í stærra þéttbýli séu einatt betri. Það er mikið til í því sem bæði hv. þm. Magnús Stefánsson og hv. þm. Lúðvík Bergvinsson hafa verið að reyna að segja í dag að miklu máli skiptir hvaða viðhorf menn hafa til þéttbýlis og dreifbýlis og það skiptir verulega miklu máli hvaða mynd fólk gefur af þessum svæðum, ekki bara fjölmiðlar heldur líka við sem tölum um landsbyggðina og viljum vera málsvarar þess að byggð sé alls staðar í landinu.

Ég sagði einhvern tíma í umræðu um byggðamál að kók auglýsti ekki sína vöru með því að sýna skemmdar tennur. Kók auglýsir alltaf kók með því að tengja það heilbrigði og hreysti, útivist og ungu fólki. Við höfum hins vegar haft tilhneigingu til þess, fólk sem býr úti á landi, að miða byggðarlög okkar endalaust og ævinlega við Reykjavík eins og Reykjavík sé fullkomin og síðan höfum við dregið frá og mínusað endalaust af því að bærinn okkar og byggðin okkar hefur ekki haft upp á nákvæmlega allt að bjóða sem Reykjavík hefur upp á að bjóða. Ég held að þetta sé sú vitlausasta umræða sem við höfum nokkurn tíma farið í og erum við þó búin að spóla í henni lengi vegna þess að með þessu erum við aftur og aftur að segja: Reykjavík er hið rétta viðmið. Allt annað er neikvætt, verra.

En við gleymum stundum að það fólk sem býr í Reykjavík fer á mis við ýmislegt sem við, sem búum úti á landi, fáum að njóta. Af hverju segjum við ekki oftar frá því? Hv. þm. Drífa Hjartardóttir vék að því áðan að það væri margt jákvætt. Við vitum það líka að fólkið sem býr úti á landi kann að meta það. Það kann að meta opinberu þjónustuna og það veit alveg hvers virði er að geta verið þátttakandi með þeim hætti sem fólk úti á landi er, ekki bara þátttakandi í því samfélagi fólks sem þar er heldur í ýmissi menningarstarfsemi.

Herra forseti. Mér finnst mikil tíðindi að hv. stjórnarliðum finnist það tíðindi að það sé að fækka á landsbyggðinni en því miður held ég að það hafi ekki verið tíðindi fyrir aðra.