Efling atvinnu- og þjónustusvæða á landsbyggðinni

Fimmtudaginn 16. október 1997, kl. 18:08:27 (623)

1997-10-16 18:08:27# 122. lþ. 11.8 fundur 16. mál: #A efling atvinnu- og þjónustusvæða á landsbyggðinni# þál., PHB
[prenta uppsett í dálka] 11. fundur

[18:08]

Pétur H. Blöndal:

Herra forseti. Hér er verið að ræða þáltill. sem tekur á mjög alvarlegu vandamáli. Þetta er mjög mikilvægt mál. Hingað til hafa að mér sýnist eingöngu talað þingmenn landsbyggðarinnar, að sjálfsögðu talaði hér þingmaður Reykn., en ekki Reykv.

Þessi mikli flutningur utan af landi er mjög slæmur. Hann er persónulegt áfall fyrir það fólk sem telur sig neyðast til að flytja. Hann ruglar samböndum fólks við kunningja og ættingja og hann er þjóðhagslega mjög óhagkvæmur. Það er verið að eyðileggja byggingar, húsnæði og annað slíkt sem fellur í verði. Það er engan veginn hagur Reykjavíkur að fólk flytjist til þangað, það er alls ekki rétt. Við Reykvíkingar viljum líka sjá blómlegar byggðir um allt land ekki síður en landsbyggðarfólk.

Það er mjög mikill kostur að búa úti á landi og menn hafa ekki undirstrikað það nægilega mikið. Ég minni t.d. á hávaðamengunina hér í Reykjavík. Hún er þvílík að ef maður fer upp á fjöll hér í nágrenninu þá heyrir maður dyninn. Að sjálfsögðu hljómar hann í hverri einustu íbúð í Reykjavík og veldur hugsanlega taugaveiklun og öðru slíku. Þetta er ekki til staðar úti á landi eða í miklu minni mæli. Það hafa verið nefnd mörg önnur atriði eins og glæpir og slíkt sem gerir Reykjavík óörugga. Það er ekki til úti á landi eða í miklu minni mæli.

En umræðan hefur alltaf verið neikvæð. Ímynd landsbyggðarinnar er neikvæð og það eru ýmsar ástæður fyrir því. Það hefur ekki verið nefnt hér að vandi landbúnaðarins, sem er búinn að ganga í gegnum miklar þrengingar á undanförnum árum, hefur í hugum manna sett neikvæða ímynd á alla landsbyggðina þó að hún sé engan veginn öll tengd landbúnaði. Þannig að fólk hefur á tilfinningunni að það sé allt saman eymd og volæði úti á landi vegna þess hve landbúnaðurinn hefur gengið illa. En það er engan veginn rétt. Það eru til mjög blómlegar byggðir úti á landi. Svo er líka hitt að það hefur þótt búmannsdyggð að berja sér á brjóst og það gera menn ansi víða.

Herra forseti. Hér á landi hefur í fjölda áratuga ríkt ákveðin miðstýringarárátta. Fjármálakerfið er allt miðstýrt hér í Reykjavík. Stjórnkerfið er meira og minna miðstýrt í Reykjavík og jafnvel þegar menn ætla að fara að bjarga landsbyggðinni með því að setja á stofn eina stofnunina í viðbót, Byggðastofnun, hvar skyldi hún þá starfa? Í Reykjavík að sjálfsögðu. Og hún dregur til sín fólk --- ég hugsa að margir starfsmenn hennar hafi komið utan af landi, flutt til Reykjavíkur til að bjarga landsbyggðinni. Það er ákveðin miðstýringarárátta.

Svo hefur það gerst að atkvæðavægi veldur því að landsbyggðarþingmenn gera út á ríkissjóð. Við skulum bara horfast í augu við það. Menn eru að gera út á ríkissjóð alls konar vitlausar framkvæmdir. Það er neikvætt. Því fylgir ákveðinn vælutónn í umræðunni, menn þurfa að væla út einhverja framkvæmd, höfn eða brú eða eitthvað slíkt, og vælutónninn veldur því að menn halda að allt sé í volæði á viðkomandi stað. Þannig að atkvæðavægi getur valdið því að staða landsbyggðarinnar versnar.

Fyrir utan það eru svo kengvitlausar framkvæmdir í byggðarlaginu sem drepa niður sjálfsvirðingu borgaranna þar. Þegar þeir þurfa að horfa upp á að það er verið að byggja einhverja höfn sem allir vita að er vitleysa þá drepur það niður sjálfsvirðingu þeirra. (GÁ: Ekki er sú höfn á Suðurlandi.)

Herra forseti. Það er margt jákvætt að gerast. Ég nefni t.d. verðbréfamarkaðinn þar sem menn hleypa að frjálsræði og markaðslögmálum. Hvert skyldu aðallega peningarnir hafa streymt? Út á land. Til útgerðarfyrirtækja um allt land. Það eru gífurlegar framkvæmdir á Austfjörðum, á Norðurlandi og á Vestfjörðum sem eru fjármagnaðar héðan frá Reykjavík í gegnum verðbréfamarkaðinn. Þannig að það er ýmislegt sem hefur verið til bóta. Það er nýbúið að flytja ýmis verk frá ríki til sveitarfélaga. Það er ekki miðstýringaraðgerð, það er verið að flytja verkefni frá miðstýringarapparatinu til sveitarfélaganna, t.d. grunnskólann. Það mun styrkja landsbyggðina ótrúlega mikið og menn eiga eftir að sjá það.

Svo er það internetið og tölvurnar sem gera það að verkum að það er nánast sama hvar maðurinn situr í heiminum í dag, hann hefur alltaf þann möguleika að nýta sér tæknina. Það mun breyta stöðunni allverulega þegar fram í sækir. Það skiptir nefnilega ekki máli lengur hvar menn búa. Ég get vel ímyndað mér að margur vísindamaðurinn, tölvunarfræðingurinn eða bara hver sem er flytji út í sveit og sitji þar í sínum sveitabæ eða í þorpi úti á landi og vinni í Reykjavík eða í New York eða einhvers staðar annars staðar. Þetta er allt mögulegt í dag. Arkitekt getur búið úti í sveit og fengið innblástur frá fossunum og fjöllunum, hann getur verið að teikna hús í Köln, New York eða í Tókíó, enginn vandi. Þetta held ég að sé til bóta.

Í þessari þáltill. er ýmislegt sem ég er ekkert voðalega hrifinn af. Það eru sértækar aðgerðir. Það á t.d. að láta Landsvirkjun jafna húshitunarkostnað, skekkja stöðu með því að nota arðinn í einhverjar sértækar aðgerðir. Ég er ekki hrifinn af því og eins og ég gat um áðan þá held ég að það sé landsbyggðinni ekki til góðs. Það eina sem hægt er að benda á að sé landsbyggðinni til góða er einmitt frelsið. Það er verðbréfamarkaðurinn og það er internetið sem er til góða og það er það að hafa hlutina ekki miðstýrða. Landsvirkjun er miðstýrð, situr hér í Reykjavík, við Háaleitisbraut.

Mér finnst þessi umræða hafa verið mjög góð. Hún er mjög þörf, hún er nauðsynleg. Við getum ekki horft upp á að allir streymi til Reykjavíkur, allir íbúar landsins og svo áfram út í heim. Það getum við ekki horft upp á.