Lögmenn

Mánudaginn 20. október 1997, kl. 15:06:23 (630)

1997-10-20 15:06:23# 122. lþ. 12.3 fundur 57. mál: #A lögmenn# (heildarlög) frv., dómsmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 12. fundur

[15:06]

Dómsmálaráðherra (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um lögmenn. Frv. þetta var samið á vegum réttarfarsnefndar að beiðni dómsmrh.

Við samningu frv. hefur verið leitast við að eiga samráð við stjórn Lögmannafélagsins og einstaka stjórnarmenn eftir því sem kostur hefur verið. Einnig hefur nefndin fjallað um helstu álitaefni um breytingu á gildandi lögum um lögmenn og rætt þau á fundum réttarfarsnefndar með allstórum hópi lögmanna.

Frv. þetta var flutt á síðasta þingi, en var þá ekki útrætt. Frv. er nú lagt fram á ný með fáeinum breytingum en efni þeirra hefur verið kynnt Lögmannafélagi Íslands. Lög um störf lögmanna eru hluti af réttarfarslöggjöfinni en um þau efni eru í gildi lög um málflytjendur nr. 62/1942. Frv. þetta felur í sér tímabæra endurskoðun á þeim lögum en það er einnig liður í heildarendurskoðun löggjafar sem varðar réttarfarsleg málefni. Á þessu þingi verður einnig flutt frv. til laga um dómstóla og marka þessi tvö frumvörp lokaáfanga við setningu nýrra laga um dómstólaskipan og meðferð mála fyrir héraðsdómi og Hæstarétti. Þessi meðferð réttarfarslaga hófst með setningu laga um aðskilnað dómsvalds og umboðsvalds í héraði en sá aðskilnaður kom til framkvæmda 1. júlí 1992. Samkvæmt gildandi lögum hafa lögmenn einkarétt til að flytja mál fyrir dómstólum í stærstu umdæmum landsins. Í frv. er gert ráð fyrir að þessu fyrirkomulagi verði haldið en þó þannig að einkaréttur lögmanna taki til landsins alls. Um það hafa verið skiptar skoðanir hvort afnema beri þennan einkarétt lögmanna og má færa fyrir því rök að ekki eigi að þvinga menn til að leggja mál sitt í hendur lögmanns ef hann vill fela það öðrum sem hann treystir betur. Aftur á móti þykja vega þyngra þær röksemdir að almennt er hagsmunum málsaðila betur borgið í höndum lögmanna vegna þeirrar þekkingar sem þeir hafa á lögum og réttarfari. Sú þekking er í raun óhjákvæmilegt skilyrði þess að máli sé haldið til haga skilmerkilega þannig að málsaðili verði ekki að óþörfu fyrir réttarspjöllum. Einnig verður að hafa hliðsjón af því að það eykur skilvirkni dómstóla að lögmenn annist málflutning máls fyrir dómi.

Vegna einkaréttar lögmanna til að flytja mál fyrir dómi er nauðsynlegt að í lögum verði kveðið á um eftirlit með störfum þeirra og beitingu agaviðurlaga. Samkvæmt gildandi lögum er þetta eftirlitsvald í höndum Lögmannafélags Íslands en það fyrirkomulag gerir óhjákvæmilega ráð fyrir skylduaðild lögmanna að því félagi.

Því sjónarmiði hefur verið haldið fram hin síðari ár með vaxandi þunga að nauðsynlegt sé að gera breytingar á þessu. Í þeim efnum verður að hafa hliðsjón af breyttum viðhorfum hér á landi og erlendis varðandi það að skylda menn til aðildar að félagi. Þessi viðhorf komu m.a. fram í dómi Mannréttindadómstóls Evrópu frá 30. júní 1993 í máli á hendur íslenska ríkinu, en þar var komist að þeirri niðurstöðu að ríkið hefði brotið gegn skyldum sínum samkvæmt 11. gr. mannréttindasáttmála Evrópu með því að hafa gert leigubifreiðastjórum skylt með lögum að vera félagsmenn í stéttarfélögum í sínum starfsgreinum.

Einnig verður að hafa hliðsjón af 2. mgr. 74. gr. stjórnarskrárinnar en þar segir að engan megi skylda til að vera í félagi. Umrætt ákvæði stjórnarskrárinnar gerir þó ráð fyrir að með lögum megi skylda menn til að vera í félagi að fullnægðum þeim skilyrðum að það sé nauðsynlegt til að félag geti sinnt lögmæltu hlutverki vegna almannahagsmuna eða réttinda annarra. Að öllum líkindum fengi það samrýmst þessu ákvæði stjórnarskrárinnar að skylda lögmenn til aðildar að félagi sem hefði það hlutverk að hafa eftirlit með störfum þeira. Það mundi sennilega ekki heldur brjóta gegn 11. gr. mannréttindasáttmála Evrópu og lögum nr. 62/1994, um lögfestingu hans. Á hinn bóginn er gagnstæð niðurstaða ekki útilokuð og má draga í efa að skilyrði stjórnarskrár um nauðsyn skylduaðildar sé fullnægt í ljósi þess að tillögur frv. eru staðfesting á því að eftirlit með lögmönnum verður komið við án skylduaðildar að félagi þeirra.

Þá verður einnig að gæta þess að þau dæmi þekkjast að túlkun mannréttindaákvæða hafi tekið breytingum í tímans rás þannig að viðteknum skýringum þeirra hafi síðar verið hafnað. Að þessu virtu og með hliðsjón af meginreglu stjórnarskrárinnar um neikvætt félagafrelsi er því lagt til að skylduaðild lögmanna að félagi verði afnumin og eftirliti með störfum þeirra hagað á annan veg. Má einnig færa fyrir þessu rök að það geti tæplega samrýmst nútímasjónarmiðum um eðlilega stjórnsýsluhætti að einni stétt manna sé falið að hafa eftirlit með sjálfri sér.

Þótt lagt sé til að skylduaðild að Lögmannafélagi Íslands verði afnumin gerir frv. ráð fyrir áframhaldandi tilvist þessa félags og jafnframt að það hafi hlutverki að gegna lögum samkvæmt. Þannig segir í 5. gr. frv. að Lögmannafélag Íslands komi fram fyrir hönd lögmanna gagnvart dómstólum og stjórnvöldum um þau málefni sem stétt þeirra varðar. Einnig er mælt fyrir um að félagið skuli setja siðareglur fyrir lögmenn og þær gildi um þá alla án tillits til þess hvort þeir eru félagsmenn eða ekki.

Þá er lagt til í 3. mgr. 24. gr. að Lögmannafélag Íslands geti gefið út leiðbeiningar handa lögmönnum um endurgjald sem þeim er hæfilegt að áskilja umbjóðendum sínum úr hendi skuldara vegna kostnaðar af innheimtu peningakröfu. Það skal áréttað sérstaklega að hér er ekki um gjaldskrá að ræða milli lögmanns og umbjóðanda hans heldur leiðbeiningar um hæfilegar bætur úr hendi þriðja manns, þ.e. skuldarans. Þetta er reist á því að lögmaður gerir ekki skuldara reikning fyrir veitta þjónustu heldur viðsemjanda sínum. Á hinn bóginn getur kröfuhafi krafist bóta úr hendi skuldara til að fá þennan kostnað endurgreiddan. Vegna neytendasjónarmiða er óhjákvæmilegt að þessar bætur úr hendi skuldara verði samræmdar, enda hefur viðkomandi skuldari hvorki valið lögmann til að fara með innheimtu kröfu á hendur sér né samþykkt áskilda þóknun lögmannsins. Hvað sem þessu líður mun samkeppni eftir sem áður gilda í samskiptum viðsemjanda og lögmanns, enda verður að ætla að áskilin þóknun úr hendi kröfuhafa hafi áhrif við val á lögmanni.

Það sem ég hef nú rakið er sú meginbreyting frá gildandi lögum sem frv. gerir ráð fyrir og mun ég nú í helstu atriðum gera grein fyrir efni frv. að öðru leyti og fjalla um þær tillögur sem þar er að finna.

Með frv. er lagt til að stjórnsýsla samkvæmt því verði falin annars vegar dómsmrn. og hins vegar þriggja manna nefnd sem komið verður á fót, svokölluðu Lögmannaráði. Þessi stjórnvöld tækju því yfir það opinbera hlutverk sem Lögmannafélag Íslands hefur farið með. Þau verkefni sem gert er ráð fyrir að ráðuneytið fari með eru einkum að fylgjast með því að lögmenn fullnægi ávallt þeim skilyrðum sem sett eru til að öðlast lögmannsréttindi og þeir gæti þess í störfum sínum að varðveita fjármuni annarra á vörslureikningum og afli sér starfsábyrgðartryggingar. Þau viðfangsefni sem lagt er til að Lögmannaráði verði falin eru hins vegar að fjalla um ágreining skjólstæðings og lögmanns um endurgjald fyrir veitta þjónustu kjósi annar eða báðir deiluaðilar að leggja mál undir úrlausn þess. Einnig er lagt til að Lögmannaráð fari með mál vegna kvörtunar umbjóðanda sem telur lögmann ekki sinna verki eða hafa gert á sinn hlut með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða reglum.

Það skal sérstaklega tekið fram og áréttað að sú stjórnsýsla sem frv. gerir ráð fyrir verði háð endurskoðun dómstóla. Þannig mun réttaröryggi verða tryggt með viðhlítandi hætti gagnvart lögmönnum.

Í 6. gr. frv. er lagt til að felld verði niður sú tilhögun gildandi laga að sá sem leitar eftir málflutningsréttindum fyrir héraðsdómi þurfi að hafa sýnt fram á hæfni sína með flutningi fjögurra munnlega fluttra mála. Þess í stað er lagt til að umsækjandi þurfi að standast sérstaka prófraun sem þriggja manna prófnefnd annast. Til undirbúnings þessari prófraun verða skipulögð námskeið og þannig er unnt að koma við markvissari undirbúningi fyrir veitingu lögmannsréttinda. Með þessu verður undirbúningur að lögmannsréttindum almennari, en gildandi fyrirkomulag hefur verið gagnrýnt með þeim rökum að það feli í sér mismunun þar sem aðstaða manna til að fá leyfi lögmanns og umbjóðanda til að flytja prófmál sé misjöfn.

[15:15]

Þá er lagt til í 9. gr. frv. að auknar kröfur verði gerðar um starfsreynslu þeirra sem sækjast eftir að fá leyfi til að verða hæstaréttarlögmenn. Skal umsækjandi hafa starfað sem héraðsdómslögmaður í fimm ár í stað þriggja samkvæmt gildandi lögum áður en hann sækir um þessi réttindi og enn fremur verður hann að hafa flutt 30 mál munnlega fyrir héraðsdómi eða sérdómstól. Hins vegar er prófmálum fyrir réttinum fækkað úr þremur í tvö. Með frv. þessu eru lagðar til markvissari reglur um sviptingu lögmannsréttinda en eru í gildandi lögum.

Samkvæmt 3. mgr. 13. gr. skal ráðherra fella úr gildi réttindi lögmanns komi í ljós að hann fullnægi ekki lengur almennum skilyrðum til að hljóta lögmannsréttindi eða starfsskilyrðum sem lúta að skrifstofuhaldi lögmanns, vörslufjárreikningum og starfsábyrgðartryggingu.

Þá er lagt til í 1. mgr. 14. gr. að ráðherra geti að tillögu lögmannaráðs fellt niður réttindi lögmanns vegna alvarlegra og ítrekaðra brota á lögum eða siðareglum.

Í IV. kafla frv. eru ítarlegri reglur en í gildandi lögum um störf lögmanna auk þess sem lögð eru til ýmis nýmæli. Meðal þeirra er ákvæði í 19. gr. þar sem lagt er til að lögmenn geti stofnað félög um rekstur sinn í því formi sem þeir sjálfir kjósa, þar á meðal með takmarkaðri ábyrgð. Það breytir þó engu um að lögmaður ber ábyrgð á tjóni sem hann eða starfsmaður hans veldur öðrum með störfum sínum.

Þá er lagt til að reglur um vörslufjárreikninga og starfs\-ábyrgðartryggingu verði í stórum dráttum með sama sniði og samkvæmt gildandi lögum.

Herra forseti. Ég hef í aðalatriðum gert grein fyrir meginefni laganna og þeim breytingum sem að er stefnt með framlagningu þess og ég legg til að frv. verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. allshn.