Lögmenn

Mánudaginn 20. október 1997, kl. 15:17:20 (631)

1997-10-20 15:17:20# 122. lþ. 12.3 fundur 57. mál: #A lögmenn# (heildarlög) frv., LB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 12. fundur

[15:17]

Lúðvík Bergvinsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Það frv. sem við ræðum núna er lagt fram öðru sinni svo til óbreytt. Ég flutti ræðu þar um í fyrra og er nánast hægt að vísa til hennar aftur.

En ástæðan fyrir því að ég kveð mér hljóðs í andsvari við hæstv. ráðherra er sú staðreynd að í frv. kemur fram að ekki er lengur skylduaðild að Lögmannafélagi Íslands en þrátt fyrir það er lögbundið að félagið skuli vera til og það skuli vera í forsvari fyrir lögmenn. Félagið er því til og það er í forsvari fyrir lögmenn jafnvel þó að svo gæti staðið á að enginn lögmaður væri í félaginu. Það er vel hugsanlegt að enginn lögmaður væri í félaginu sem hefur hreinu og kláru hlutverki að gegna, m.a. kemur það fram fyrir hönd lögmanna gagnvart dómstólum og stjórnvöldum, eins og fram kemur í 5. gr. Lögmannafélagið setur siðareglur fyrir lögmenn jafnvel þótt, allavega fræðilega séð, enginn væri í félaginu, eins og kemur nánar fram í 5. gr.

Virðulegi forseti. Ég ætlaði nú aðeins að koma fram í andsvari við hæstv. ráðherra en ég sé að virðulegur forseti hefur sett á mig 20 mínútur en ég ætla aðeins að biðja um tvær.

En það er ein spurning sem ég vil beina til hæstv. ráðherra: Hvernig getur það verið að hægt sé að lögbinda að félag skuli vera til, lögbinda að hlutverk skuli vera til fyrir félagi en jafnframt að ekki sé skylduaðild að félaginu og hvernig hyggst ráðherra bregðast við ef enginn lögmaður er í félaginu?