Lögmenn

Mánudaginn 20. október 1997, kl. 15:23:11 (634)

1997-10-20 15:23:11# 122. lþ. 12.3 fundur 57. mál: #A lögmenn# (heildarlög) frv., dómsmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 12. fundur

[15:23]

Dómsmálaráðherra (Þorsteinn Pálsson) (andsvar):

Herra forseti. Það kemur mér á óvart að hinn lærði þingmaður skuli halda málflutningi sínum áfram með þessum hætti því það er alkunna að í lögum er kveðið á um að félög hafi tilteknu hlutverki að gegna og komi fram gagnvart stjórnvöldum án þess að um sé að ræða skylduaðild að viðkomandi félögum. Það getur verið til hægðarauka fyrir margs konar samskipti ríkisins annars vegar við viðkomandi félög eða starfsheildir í þjóðfélaginu og til þess að auðvelda framgang mála með ýmsum hætti. Það breytir að engu leyti hinu að ég tel vera skynsamlegt að stíga það skref að afnema skylduaðild að Lögmannafélaginu og að afnema þá sérstöku reglu að Lögmannafélagið hafi eftirlit með sínum eigin félagsmönnum. Það eigi að gera af óháðum aðilum til þess að koma á stjórnsýslu í þessum efnum sem er í samræmi við nútímaviðhorf. En Lögmannafélagið getur þrátt fyrir þessar grundvallarbreytingar haft ákveðnu hlutverki að gegna og það getur verið til hægðarauka fyrir stjórnvöld að hafa samskipti við það með ýmsu móti enda er þetta hið mætasta félag og hefur gegnt þýðingarmiklu hlutverki í okkar þjóðfélagi og með öllu ástæðulaust að vanvirða hlutverk þess og starfsemi.