Lögmenn

Mánudaginn 20. október 1997, kl. 15:25:16 (635)

1997-10-20 15:25:16# 122. lþ. 12.3 fundur 57. mál: #A lögmenn# (heildarlög) frv., JóhS
[prenta uppsett í dálka] 12. fundur

[15:25]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Ég á sæti í allshn. sem mun fjalla um það frv. sem hér er til umræðu, um lögmenn, og mun því ekki gera einstakar greinar þess að umræðuefni en vil þó taka eina grein til umræðu, þ.e. 24. gr., og fá fram frekari skýringar hjá ráðherranum á þeirri grein en fram kemur bæði í greininni sjálfri og um hana. Spurningin er um síðustu málsgreinina sem hljóðar svo, með leyfi forseta:

,,Lögmannafélag Íslands getur gefið út leiðbeiningar handa lögmönnum um endurgjald, sem þeim sé hæfilegt að áskilja umbjóðendum sínum úr hendi skuldara vegna kostnaðar af innheimtu peningakröfu. Óheimilt er lögmönnum að nota leiðbeiningar þessar í öðrum tilgangi.``

Spurningin sem ég set fram til hæstv. ráðherra er hvort þetta ákvæði þýði það að Lögmannafélaginu sé heimilt, eftir að þetta ákvæði er orðið að lögum, að gefa út leiðbeinandi gjaldskrá? Ég nefni þetta vegna þess að ég hef á undanförnum þingum ásamt fleiri hv. þm. flutt till. til þál. um aðgerðir til að bæta stöðu skuldara. Og einn liðurinn í þeirri þáltill. var eftirfarandi: ,,Sett verði opinber gjaldskrá fyrir innheimtu lögmanna þar sem m.a. verði sett þak á innheimtuþóknun þeirra og aðra gjaldtöku af skuldurum.``

Rökin fyrir þessari tillögu voru þau að fólk í vanskilum velur sér ekki lögmann heldur eru það kröfuhafar þeirra sem það gera. Í þessari greinargerð var vitnað til álits Samkeppnisstofnunar frá febrúar 1994, þar sem Samkeppnisstofnun hafði kveðið upp úrskurð um beiðni Lögmannafélags Íslands um undanþágu frá banni við útgáfu á sameiginlegri gjaldskrá. En í úrskurði sínum taldi Samkeppnisstofnun hagsmunasamtök lögmanna, Lögmannafélag Íslands, ekki til þess bæran aðila að gefa út leiðbeinandi reglur um gjaldtöku lögmanna, reglur sem ætlað er að gæta hagsmuna dómþola þegar dómstólar dæma um málskostnað eða til að gæta hagsmuna skuldara í innheimtumálum, enda eiga lögmenn sjálfir annarra beinna hagsmuna að gæta í slíkum málum. Um þetta atriði sagði Samkeppnisstofnun orðrétt í úrskurði sínum, með leyfi forseta:

,,Ef setja þarf reglur eða gjaldskrá til að gæta hagsmuna þeirra sem áður er um rætt eða til að gæta samræmis hjá dómstólum, samanber það sem fjallað er um í beiðni Lögmannafélags Íslands, telur Samkeppnisstofnun eðlilegt að það sé löggjafarvaldið eða til þess bær stjórnvöld sem það geri.``

Ég hef skilið þennan úrskurð Samkeppnisstofnunar þannig að Lögmannafélagið væri ekki til þess bær aðili að gefa út leiðbeinandi gjaldskrár heldur væri það löggjafarvaldið eða til þess bær stjórnvöld sem það geri. Ég er sammála því að setja þarf ákveðna gjaldskrá og þak á gjaldskrá lögmanna sem oft á tíðum er mjög há. Í þeirri tilvitnuðu tillögu, sem ég nefndi áðan, voru tekin um það mörg dæmi hvað lögfræðikostnaður var hár og þess vegna var þessi tillaga sett fram um að sett verði opinber gjaldskrá fyrir innheimtu lögmanna og þak á innheimtuþóknun þeirra eða aðra gjaldtöku af skuldurum. En að þessu gefna tilefni, út af þeim úrskurði Samkeppnisstofnunar, þá hef ég viljað fá frekari skýringar frá dómsmrh. hvort hann telji að lögmenn séu til þess bærir sjálfir að gefa út leiðbeinandi gjaldskrár handa félagsmönnum sínum eða hvort það þurfi ekki að vera stjórnvöld eins og Samkeppnisstofnun úrskurðaði í sínu áliti frá 1994.