Lögmenn

Mánudaginn 20. október 1997, kl. 15:33:04 (638)

1997-10-20 15:33:04# 122. lþ. 12.3 fundur 57. mál: #A lögmenn# (heildarlög) frv., dómsmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 12. fundur

[15:33]

Dómsmálaráðherra (Þorsteinn Pálsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla ekki að leggja dóm á hver er afstaða frv. beinlínis gagnvart úrskurði samkeppnisnefndar. Samkeppnisyfirvöld hafa hins vegar lagt mjög ríka áherslu á að lögmenn hafi ekki gjaldskrá og tryggð verði frjáls samkeppni þeirra í milli. Það held ég að samkeppnisyfirvöld hafi gert vegna þess að þau hafa trú á því að með því móti séu hagsmunir neytenda best varðir. En hér er um nokkuð sérstaka aðstöðu að ræða vegna þess að unnt er að krefja þriðja aðila, þ.e. skuldarann sjálfan, um ákveðinn kostnað við innheimtuna. Þess vegna er gert ráð fyrir því að hægt sé að samræma þær reglur og þau atriði sem unnt er að gera kröfu til í slíkum tilvikum þannig að þar gildi almennar reglur og komi ekki skuldurunum í opna skjöldu vegna þess eins og fram hefur komið í umræðunni er það ekki hann sem velur lögmanninn heldur innheimtuaðilinn.