Skaðabótalög

Mánudaginn 20. október 1997, kl. 15:43:33 (641)

1997-10-20 15:43:33# 122. lþ. 12.4 fundur 58. mál: #A skaðabótalög# (endurskoðun laganna) frv., dómsmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 12. fundur

[15:43]

Dómsmálaráðherra (Þorsteinn Pálsson) (andsvar):

Herra forseti. Vegna fyrirspurnar hv. þm. tek ég fram að í undirbúningi er að koma fram með frv. um breytingar á bótafjárhæðum í umferðarlögum í samræmi við þau áform sem uppi hafa verið. Það frv. sem við erum að fjalla um hefur engin áhrif þar á eða á framgang málsins.

Varðandi spurningu hv. þm. um gildi laganna er nokkuð ljóst að skaðabætur greiðast í samræmi við gildandi rétt á hverjum tíma. Því verður varla komið við með öðrum hætti. Ég innti nefndina mjög ákveðið eftir því hvort hún gæti komist af með skemmri tíma en hér er verið að óska eftir. Það var mat formanns nefndarinnar að svo væri ekki. Í því sambandi vitnaði hann sérstaklega til þess að á þessum vetri mætti vænta þess að til uppgjörs kæmi á skaðabótamálum frá, ef ég man rétt, 1993 og 1994 sem væri nauðsynleg viðmiðun fyrir nefndina til þess að geta lagt mat á lögin sem eru núna í gildi og komið með raunhæfar tillögur. Fyrir þá sök var talið nauðsynlegt að tímafresturinn yrði þessi.