Meðferð og eftirlit sjávarafurða

Mánudaginn 20. október 1997, kl. 15:52:39 (645)

1997-10-20 15:52:39# 122. lþ. 12.5 fundur 171. mál: #A meðferð og eftirlit sjávarafurða# (gildistaka EES-reglna) frv., sjútvrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 12. fundur

[15:52]

Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Í maí sl. samþykkti Alþingi breytingu á lögum nr. 93 frá 20. nóvember 1992 um meðferð sjávarafurða og eftirlit með framleiðslu þeirra. Veigamesta breytingin sem hér um ræðir fjallar um breytingar á landamæraeftirliti á EES-svæðinu og uppsetningu landamærastöðva á Íslandi.

Í upphafi var gert ráð fyrir að breytingin öðlaðist gildi þegar í maí sl. en vegna mikillar óvissu og tafa hjá framkvæmdanefnd Evrópusambandsins í þessu máli var gildistöku breytinganna seinkað til 1. nóvember 1997.

Aðeins til upprifjunar þá var með lögunum frá 1992 lögfestur samningur sérfræðinga EFTA-ríkjanna og framkvæmdastjórnar Evrópubandalagsins frá nóvember 1996 um að fella inn í samninginn um Evrópska efnahagssvæðið samræmdar heilbrigðisreglur um dýr og dýraafurðir. Samningurinn felur í sér samningsbundna endurskoðun á I. viðauka við EES-samninginn frá 1992, afnám landamæraeftirlits á svæðinu, og samræmdar reglur varðandi innflutning frá þriðju ríkjum. Með samningnum tekur Ísland upp gerðir er varða fisk, fiskafurðir, fiskmjöl, lifandi humar, lúðuseiði, barrahrogn og hrogn og svil Atlantshafslax, regnbogasilungs og bleikju. Samkomulag þetta þykir hafa verið mjög hagstætt fyrir Ísland. Til að flýta sem mest fyrir framkvæmd samningsins var ákveðið að lögin tækju gildi 1. nóvember 1997. Það hefur komið í ljós að sá tími sem framkvæmdastjórn Evrópubandalagsins ætlaði sér að ljúka málsmeðferð í stofnunum sínum var ekki nægur og er henni ekki lokið og óvíst hvenær henni lýkur. Framkvæmdastjórnin er nú að vinna úr nokkrum lagatæknilegum athugasemdum sem fram hafa komið í málsmeðferð hennar og varða eftirlitshlutverk Eftirlitsstofnunar EFTA. Er vonast til að þeirri vinnu ljúki á næstu vikum. Að því loknu fer samningurinn til umfjöllunar í ráðherraráði Evrópusambandsins og til kynningar í Evrópuþinginu. Að loknu þessu ferli verður ákvörðun um breytingu á I. viðauka við EES-samninginn lögð til samþykktar fyrir sameiginlegu EES-nefndina. Miðað við hve skammt framkvæmdastjórn Evrópubandalagsins er komin í afgreiðslu samningsins er ljóst að fresta þarf gildistöku laganna.

Með frv. þessu er lagt til að gildistökunni verði frestað um eitt ár, frá 1. nóvember 1997 til 1. nóvember 1998.

Í ljósi þess að nú er skammt til þess tíma sem lögin eiga að taka gildi samkvæmt þeim ákvæðum sem samþykkt voru um þau efni á síðasta þingi er nauðsynlegt af minni hálfu að fara þess á leit að frv. þetta fái hraða afgreiðslu hér á hinu háa Alþingi. Og í ljósi þess að ætlunin er að síðasta vika októbermánaðar verði kjördæmavika, þá þarf að afgreiða þetta mál ef þess er nokkur kostur sem lög frá Alþingi í þessari viku þannig að hér taki ekki gildi lög um samninga sem Evrópusambandið hefur ekki sjálft staðfest af sinni hálfu. Ég vænti þess að um þetta megi takast gott samstarf við hv. sjútvn. og hún sjái sér fært að fjalla um málið með þeim hætti að ljúka megi málsmeðferðinni á svo skömmum tíma vegna þeirrar óvenjulegu aðstæðna sem uppi eru.

Ég legg svo til, herra forseti, að málinu verði að lokinni 1. umr. vísað til 2. umr. og hv. sjútvn.