Fiskveiðar utan lögsögu Íslands

Mánudaginn 20. október 1997, kl. 16:28:55 (652)

1997-10-20 16:28:55# 122. lþ. 12.6 fundur 146. mál: #A fiskveiðar utan lögsögu Íslands# (útboð veiðiheimilda) frv., SJS
[prenta uppsett í dálka] 12. fundur

[16:28]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ljóst er að um norsk-íslenska síldarstofninn, sem við köllum svo, gilda að mörgu leyti sérstakar aðstæður. Það má líkja því við það að nýr fiskstofn eða ný verðmæti hafi uppgötvast á hafsvæðum okkar og ekki er fyrir hendi varanleg aflareynsla í þeim skilningi að menn hafi nýtt þennan stofn um langt árabil eins og algengast er með aðra helstu nytjastofna á Íslandsmiðum. Það er reyndar skoðun mín, og hún er ekki ný, að löggjöfinni, bæði lög um stjórn fiskveiða og nýlega sett lög um fiskveiðar utan lögsögu Íslands, sé áfátt hvað varðar það að bregðast við og taka á þegar slíkar aðstæður koma upp. Þeir ágallar eru ekki síður á löggjöfinni hvað varðar útdeilingu eða skiptingu réttinda þegar sambærilegar aðstæður koma upp eða kynnu að koma upp innan íslensku efnahagslögsögunnar.

[16:30]

Hér mætti t.d. nefna til sögunnar að innfjarðarrækja hefur fundist á nýjum veiðisvæðum og veiðiheimildir kannski farið úr engu í hundruð eða jafnvel þúsundir tonna á örskömmum tíma og menn hafa lagt grunninn að skiptingu þeirra veiðiheimilda í aflahlutdeildarkerfinu sem síðan hefur talið óáreitt, hversu mikið sem veiðistofninn hefur vaxið. Slíkt hefur leitt til úthlutunar gífurlegra veiðiréttinda til einstakra aðila og skapað mikið ósamræmi í afkomu sambærilega settra útgerða á viðkomandi svæðum, þ.e. þeirra sem fengu hlutdeild og hinna sem ekki fengu. Það verður að segjast að um nánast tilviljanakennda ráðstöfun verðmæta hafi þá verið að ræða. Og löggjöfinni var og er áfátt enda er hún í grunninn byggð upp utan um þau markmið að takmarka aðgang og takmarka sókn í fiskstofna en ekki útdeila nýjum eða auknum réttindum. Það liggur því nokkuð í eðli þessarar löggjafar að henni er áfátt þegar þær óvenjulegu aðstæður, því miður, koma upp að ný verðmæti séu til skiptana. Þetta er í grunninn takmörkunar- eða skömmtunarkerfi en ekki öfugt.

Herra forseti. Ég hef margoft í umræðum um þessi mál tekið það fram að ég tel að það sé fullkomlega eðlilegt að menn vilji skoða með sérstökum hætti meðferð veiðiréttindanna þegar aðstæður koma upp eins og þær sem gilda varðandi norsk-íslensku síldina. Þar með er ég ekki að segja að ég sé stuðningsmaður þessa frv. í óbreyttu formi eða telji að það sem hér er lagt til, og ekki er kannski að öllu leyti skýrt, sé hin eina rétta aðferð. Þvert á móti er þar mörgum spurningum ósvarað. Hins vegar er sjálfsagt að skoða málið og ég tel eðlilegt að umræður fari fram um það.

Fyrsta spurningin sem ég tel að menn þurfi að átta sig á er sú hvort hér sé ætlunin af hálfu frumvarpshöfunda að leggja til varanlega aðferð, eða aðferð sem eingöngu skuli gilda meðan veiðireynsla er að myndast yfir eitthvert tiltekið tímabil. Ef hugsunin er sú að leggja til varanlega aðferð, um aldur og ævi skuli veiðiheimildum í þessum tiltekna fiskstofni úthlutað eða þannig með þær farið að þær séu boðnar upp, þá er auðvitað verið að leggja þar til allt annað kerfi heldur en gildir um úthlutun veiðiréttinda að öðru leyti. Og þá verða menn líka að svara þeirri spurningu: Vilja menn hafa þetta sitt með hverjum hætti, eftir því hvaða tegundir eiga í hlut á grundvelli einhverra sögulegra aðstæðna þegar nýtingin hófst, eða vilja menn reyna að byggja fiskveiðilöggjöfina á því að hún sé sjálfri sér samkvæm og einsleit og það sé í grundvallaratriðum farið eins með réttindin gagnvart öllum helstu nytjastofnum? Það er eindregið mín afstaða að við eigum að reyna að leita að slíkum aðferðum. Með öðrum orðum, herra forseti, þörfin er þá sú að móta hér almenna stefnu en ekki sértæka.

Úthafsveiðilöggjöfin er að sjálfsögðu að nokkru leyti því marki brennd að menn voru að leita málamiðlana milli ólíkra sjónarmiða. 5. og 6. gr. laganna um veiðar utan lögsögu taka mið af því í þó nokkrum mæli að uppi voru býsna skiptar skoðanir um hvernig með þessi mál skyldi fara. Greinin felur þó í sér möguleika til þess að láta endurgjald koma fyrir veiðiréttindi í deilistofnum eða hreinum úthafsstofnum og reyndar býsna umtalsvert endurgjald ef heimildir 5. gr. um allt að 15% endurgjald væru nýttar til fulls. Sú málsgrein vísar hins vegar eingöngu til þess tímabils sem gildir þangað til varanleg veiðireynsla í skilningi sömu lagagreinar liggur fyrir. Það er alveg ljóst að um leið og varanleg veiðireynsla liggur fyrir í ýtrasta skilningi þess orðs, þ.e. þrjú ár af sex ára tímabili fullnægja skilyrðum um varanlega veiðireynslu, þá ber að úthluta veiðiréttindunum í hlutdeildarkerfinu. En endurgjaldsákvæðin gætu komið til, þ.e. þau að leita eftir tilboðum frá útgerðum sem vilja nýta veiðiheimildirnar innan þessa tímabils. Að því loknu og þegar um varanlega úthlutun yrði að ræða kæmi svo að því að meta að hve miklu leyti eða hvort að öllu leyti yrði nýtt heimildin til 15% endurgjalds í öðrum afla í þorskígildum talið í aflaheimildum.

Ég held, herra forseti, að í þriðja lagi sé einnig mjög mikilvægt að missa ekki sjónar á því sem mestu máli skiptir og það er að nýta þennan stofn og gera úr honum verðmæti. Gleymum því ekki, verðum ekki svo upptekin af því að skipta arðinum að við gleymum sjálfri frumforsendunni og hún er sú að fiskurinn sé veiddur og úr honum gerð sem mest verðmæti. Við þurfum líka að hafa í huga hvernig kerfið er sem við ætlum að setja upp, hvaða aðferðir tryggja okkur best að þjóðarbúið fái sem mest verðmæti. Er það t.d. aðferð af þessu tagi, að bjóða veiðiheimildirnar árlega upp? Um það, burtséð frá afstöðu til gjaldtöku eða ekki gjaldtöku, hef ég mjög miklar efasemdir. Af hverju? Vegna þess að ég held að slík aðferð, með þeirri óvissu sem henni hlýtur að vera samfara um það hverjir fá veiðiheimildirnar hverju sinni, dragi úr möguleikum manna til þess að skipuleggja sig og sinn rekstur þannig að þeir geti hámarkað verðmætin. Ég veit þess dæmi að menn hættu við fjárfestingar sem áttu að stuðla að aukinni manneldisvinnslu á síld á síðasta vori, bæði í landi og um borð í skipum, eftir að ákveðið var að hafa veiðarnar ólimpískar á síðustu vertíð. Útgerðarmaður hafði undirbúið að setja um borð í skip sitt flökunarvélar og gera sig kláran til þess að vinna síldina úti á sjó. Hann hætti að verulegu leyti við þá fjárfestingu þegar honum varð ljóst að hann yrði að hella sér í kapphlaupið eins og aðrir og gæti ekki minnkað afköst sín í veiðunum með því að stunda vinnslu. Fiskvinnslustöðvar sem hugðust gera sambærilega hluti drógu einnig úr fjárfestingum af þeirri einföldu ástæðu að kapphlaupið byggir á magnhugsun en ekki því að hámarka verðmætin. Sama gildir að sjálfsögðu um ólimpískar veiðar, þ.e. það fyrirkomulag sem notað var á síðustu vertíð. Það liggur algjörlega í augum uppi að það er ekki hagkvæmt út frá því að fyrirtækin viti að hverju þau ganga, geti skipulagt sínar veiðar og sína vinnslu, jafnvel valið sér þann tíma sem hentugastur er og beðið eftir því að síldin komist í gott ástand þótt því kunni að fylgja nokkur áhætta. Nærtækt dæmi er auðvitað það að á þeim tíma sem veiðarnar hófust í fyrra, og munu hefjast um leið og leyft er ef um kapphlaup er að ræða, þá er gjarnan mikil áta í síldinni og hún er sem óðast að fitna á þeim vikum. Með því að bíða í nokkurn tíma eða með því að nota aðferðir sem mögulega gera kleift að vinna síldina þrátt fyrir átu er hugsanlega hægt að ná umtalsverðu magni hennar til manneldis en það var ekki gert í fyrra og mun ekki verða gert í þessu kerfi. Það er hugsanlegt að ná að vinna síld nálægt miðunum eða á miðunum þótt um átu sé að ræða með því auðvitað annars vegar að reyna ná henni úr og hins vegar með því að flaka síldina og frysta. Síld sem ekki væri í ástandi til að heilfrysta eða salta getur hugsanlega verið vinnanleg á vissa markaði sem flök þegar búið er að skera kviðinn og þar með átuna frá. En þetta byggir að sjálfsögðu á því að menn þurfi ekki að hamast eins og vitlausir menn í fáeinar vikur á hverju vori til að klára sinn skammt eða keppa við aðra um takmarkað magn. Það þarf í raun og veru, herra forseti, ekki að fara frekari orðum um að það fyrirkomulag er ekki sérstaklega hagkvæmt.

Varðandi gjaldtökuna vil ég aðeins segja, og það ættu ekki að vera nýjar fréttir, að ég hef ekki útilokað það nema síður sé að vera þátttakandi í að skoða almenna stefnumótun um hófsamlega og yfirvegaða meðferð hvað auðlindanýtingu snertir á einhvers konar auðlinda- eða umhverfistengdri gjaldtöku sem sé í þágu rannsókna og nýtingar á auðlindinni sjálfri. En ég er alfarið andvígur skattlagningarhugmyndum, sértækum og stórfelldum skattlagningarhugmyndum á sjávarútveginn ef þeir fjármunir eiga að renna út fyrir greinina. Ég held að það sé vitlaus og vondur skattstofn og ég held að það sé stórhættulegt fyrir sjávarútveginn og þjóðarbúið að lenda út á þeirri braut. Og því miður er ekki þeim mikla hagnaði og þeim mikla gróða til að skipta sem mikið er talað um þessa dagana og stórfelldir útreikningar eru birtir yfir. Ég vildi að satt væri, þá væri þjóðarbúið betur á sig komið ef þær gríðarlegu fjárhæðir væru afgangs í íslenskum sjávarútvegi sem stundum er talað um að geti orðið af stærðargráðunni 15--30 milljarðar. Ég lýsi eftir þeim. Hvar eru þeir? Og betur að þeir væru finnanlegir við þær aðstæður sem margar greinar sjávarútvegsins því miður búa við, stórfellt tap eins og meira og minna öll landsvinnslan. Og jafnvel greinar sem á undanförnum missirum höfðu góða afkomu eru komnar niður undir núllið eins og rekstur vinnsluskipa og rækjuiðnaðurinn. Meðaltalsafkoman sem hangir einhvers staðar við núllið er fyrst og fremst borin uppi af óvenjulegum aðstæðum og sérstaklega góðri afkomu í veiðum og vinnslu og sérstaklega þó veiðum og mjölvinnslu uppsjávarfiska. Þetta væri mönnum hollt að hafa í huga.

Varðandi það að ekki sé neinni veiðireynslu til að dreifa í norsk-íslensku síldinni og að þær veiðiheimildir sem þar eru á ferðinni séu að öllu leyti til komnar vegna samninga stjórnvalda við aðra aðila um þær veiðiheimildir, þá er það ekki nema að hluta til rétt. Það er vissulega svo að þjóðaréttur okkar og þeir þjóðréttarlegu samningar sem náðst hafa, þótt slakir væru frá sjónarhóli okkar Íslendinga að mínu mati, færa okkur þarna tiltekinn rétt sem er til úthlutunar. En það var líka búið að fara og veiða síldina og það var búið að sýna fram á að hún væri gengin út á alþjóðlegt hafsvæði og jafnvel að einhverju leyti inn í íslenska lögsögu og væri þar í veiðanlegu magni. Þær veiðar skiptu að sjálfsögðu mjög miklu þegar gengið var til samninga, frjálsar veiðar skipa sem hófust 1994 og veiddust, ef ég man rétt, 24--27 þúsund tonn, að mestu leyti í síldarsmugunni en að litlu leyti í norðausturhorni íslensku lögsögunnar og umtalsverðar veiðar 1995 á svipuðum grunni áður en stjórn hófst í samkomulagi við Færeyinga á árinu 1996 og síðan veiðarnar á grundvelli samningsins nú. Þessum veiðum ber ekki að horfa fram hjá. Það er að sjálfsögðu svo að útgerðin hefur með sókn sinni lagt þarna einnig sitt af mörkum og það er rétt að hafa í huga.

Að síðustu, herra forseti, þá tel ég fullkomlega réttmætar þær spurningar sem hv. flm. málsins bar hér fram til hæstv. ráðherra og ríkisstjórnarinnar. Ég hef eins og aðrir tekið eftir yfirlýsingum ýmissa ráðamanna í stjórninni undanfarna daga í þessum efnum og þótt þær allrar athygli verðar. Ég tel ekki að ábyrgðaraðilar eins og hæstv. utanrrh., eins og hæstv. sjútvrh. og eins og hv. formaður utanrmn. eigi að komast upp með að vera með yfirlýsingar án þess að nokkuð sé á bak við þær heldur standi þeir reikningsskil á því hér hvað er þar á ferðinni. Er á ferðinni stefnubreyting af hálfu stjórnarmeirihlutans sem stóð að afgreiðslu úthafsveiðilaganna á sínum tíma þar sem þessi mál voru sett í tiltekinn farveg, eða hvað? Ég tel ekki að menn eigi að geta blaðrað um að þeir telji vel koma til greina að hafa þarna einhvers konar uppboð eða gjaldtöku og hlaupið síðan frá því hér, sem mér fannst hæstv. sjútvrh. að verulegu leyti gera. Og hvar er formaður Framsfl., hæstv. utanrrh., sem hefur verið með hliðstæðar yfirlýsingar og hvar er hv. formaður utanrmn.? Og síðan kemur hér í ræðustól enn einn maðurinn sem hefur verið með yfirlýsingar um þetta mál, hv. 3. þm. Vestf., (EOK: Ég er á mælendaskrá.) sem er á mælendaskrá og mun gefa skýringar á sínum viðhorfum í þessum efnum án vafa. En ég sakna þess að fá ekki útlistanir á því hvað er á ferðinni hjá hæstv. ríkisstjórn því auðvitað hljótum við stjórnarandstæðingar að spyrja um það, ekki síst þegar mál af þessu tagi koma hér fram, hver séu viðhorf þeirra sem tala fyrir hönd meiri hlutans hér á Alþingi í þeim efnum. Er það svo að hæstv. ríkisstjórn sé að einhverju leyti að breyta um stefnu hvað varðar grundvallarregluna sem undir fiskveiðilöggjöfinni hvílir --- þ.e. aflahlutdeildarregluna? Er það svo? Formaður Framsfl. viðhafði mjög athyglisverð ummæli sem vísuðu að nokkru leyti í þá veru á flokksþingi Framsfl., ég hygg fyrir um ári síðan, þegar hann lýsti því yfir að hann teldi koma til greina að setja þak eða strik í úthlutun samkvæmt aflahlutdeildarreglu ef þorskstofninn héldi áfram að vaxa og færi kannski upp úr einhverjum tilteknum mörkum. Er hæstv. sjútvrh. sammála því að til greina komi að setja einhvern ramma innan hvers aflahlutdeildarkerfið virki þá 100%, en menn áskilji sér rétt til þess að meðhöndla veiðiheimildir þar fyrir ofan, eða að einhverju leyti veiðiheimildir þegar um er að ræða nýja nytjastofna sem uppgötvast eða hefja göngur á okkar hafsvæði?

[16:45]

Þetta er grundvallarspurning. Og grundvallarspurningar eigum við ekki að ræða hér af neinum stráksskap eða í útúrsnúningatón heldur reyna að skýra umræðuna hvað þær varðar. Ég vil lýsa þeirri skoðun minni að ég hef aldrei útilokað að einmitt slík regla yrði tekin upp og tel reyndar mjög varasamt að hafa aflahlutdeildarregluna eins afdráttarlausa og hún er í löggjöfinni. Það leiðir menn út í ógöngur í vissum tilvikum sem ég hef þegar nefnt dæmi um ef t.d. fáein skip fá háa aflahlutdeild í staðbundinni tegund. Við skulum hugsa okkur að það séu þrír rækjubátar sem hafi 33,34% hver af veiðistofni á einhverju innfjarðarrækjusvæði, það gæti líka verið um að ræða skelfisk eða eitthvað annað. Eða við skulum segja að þrjú íslensk skip önnuðust alla veiðiheimildir í búra sem menn væru búnir að ná tökum á að nýta hér einhvers staðar við landið. Svo vex sá stofn eða nýtingarmöguleikarnir aukast alveg gífurlega, á þá aflahlutdeildarreglan að vera án þaks? Á hún að vera án takmarkana? Þetta er að mínu mati grundvallarspurning sem tengist mjög því máli sem við eru hér að fjalla um. Mér þætti fróðlegt að t.d. hæstv. sjútvrh. eða aðrir talsmenn ríkisstjórnarinnar, sem hafa tjáð sig nokkuð um þessi mál á ýmsum vígstöðvum undanfarin missiri, ekki alltaf skýrt heldur dálítið út og suður, töluðu í þeim efnum.

Að öðru leyti, herra forseti, er sjálfsagt mál að þetta frv. fái þá skoðun sem því ber. Ég efast ekki um að sjútvn. mun leggja sitt af mörkum að senda málið til umsagnar og vinna að því.