Fiskveiðar utan lögsögu Íslands

Mánudaginn 20. október 1997, kl. 16:47:17 (653)

1997-10-20 16:47:17# 122. lþ. 12.6 fundur 146. mál: #A fiskveiðar utan lögsögu Íslands# (útboð veiðiheimilda) frv., Flm. SighB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 12. fundur

[16:47]

Flm. (Sighvatur Björgvinsson) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er sjálfsagt að svara hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni enda flutti hann mál sitt eins og alþingismaður en ekki eins og gagnfræðaskólastrákur á kappræðufundi eins og hæstv. sjútvrh. gerði.

Hv. þm. spurði hvort ætlunin væri að leggja til varanlega aðferð eða ekki. Það er ekki gert ráð fyrir því í frv. að þar séu nein sólarlagsákvæði. En engin lagasetning er ævarandi. Menn breyta lagasetningum, eins og verið er að gera tillögu um að breyta lagasetningu hér, eftir aðstæðum hverju sinni. Þannig að við erum ekki að leggja hér til einhverja eilífa lagasetningu heldur lagasetningu sem stendur þar til henni verður breytt.

Síðasta stjórnmálaályktun sem rak á mínar fjörur var ályktun frá einu af félögum Alþb., Verðandi--Birtingu, þar sem þess er krafist að lagt verði á veiðileyfagjald. Þannig að það eru margir skoðanabræður okkar jafnaðarmanna innan Alþb., þar á meðal hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon. Hann sagði að hann útilokaði það ekki og vildi m.a. skoða þetta frv. vel. Ég fagna því, hann er formaður sjútvn. Hann sagðist bara ekki vilja hafa þetta svona heldur einhvern veginn öðruvísi. Þá stendur náttúrlega upp á hv. þm. í þeirri skoðun sem fram fer að leggja til hvernig hann vill hafa þetta veiðileyfagjald sem þarna er lagt til. Ef hann vill ekki hafa það svona, hvernig öðruvísi hugnast honum þá að hafa það gjald?

Það hefur komið fram hér á Alþingi, virðulegi forseti, að útgerðarfélög þessa lands borga samtals um 260 millj. kr. til sameiginlegra þarfa. Hv. þm. finnst það nóg vegna þess að afkoman sé ekki glæsileg. Er það þá skoðun hv. þm. að atvinnugreinar sem ekki skila t.d. umtalsverðum hagnaði í úttektum Þjóðhagsstofnunar eigi ekkert að greiða til sameiginlegra þarfa? Hefði t.d. álframleiðsla á Íslandi ekkert átt að greiða til sameiginlegra þarfa um árabil eða meðan hún var rekin með tapi? Er það skoðun hv. þm. að t.d. heimili þar sem endar ná ekki saman eigi að undanþiggja öllum opinberum gjöldum, þar á meðal greiðslu virðisaukaskatts og annarra gjalda? Ég hef ekki séð margar tillögur af því taginu frá hv. þm. En ef þetta er skoðun hans þá er það að sjálfsögðu athugunarefni.