Fiskveiðar utan lögsögu Íslands

Mánudaginn 20. október 1997, kl. 16:49:47 (654)

1997-10-20 16:49:47# 122. lþ. 12.6 fundur 146. mál: #A fiskveiðar utan lögsögu Íslands# (útboð veiðiheimilda) frv., SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 12. fundur

[16:49]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Mér fannst hv. þm. því miður detta dálítið í það sem hann var sjálfur að ásaka hæstv. sjútvrh. um að hafa gert hér í síðari hluta ræðu sinnar. Ég bið hv. þm. að finna þess stað að ég hafi verið síðri talsmaður þess en aðrir menn að sjávarútvegurinn borgi skatta með eðlilegum hætti eins og aðrar atvinnugreinar. Ætli ég hafi nú ekki gengið einna vasklegast fram í því hér, og er þó ekki alltaf vel til vinsælda fallið, að leggjast gegn því t.d. að tekjuskattur af hagnaði fyrirtækja væri lækkaður. Að sjálfsögðu á sjávarútvegurinn að borga skatta. Það er hægt að skattleggja óeðlilegan hagnað sem myndast við sölu veiðiheimilda sérstaklega og er miklu skynsamlegri aðferð en flatar skattlagningar samkvæmt veiðileyfagjöldum eins og hv. þm. og flokkssystkin hans hafa lagt til. Ástæðan fyrir því að sjávarútvegurinn borgar því miður jafnlítið í skatta, t.d. tekjuskatt, er ósköp einfaldlega gífurlegur uppsafnaður vandi sem hann er enn að reyna að ná sér upp úr, uppsafnað tap sem reyndar stjórnvöld af nokkru örlæti ákváðu að framlengja með breytingum á lögum um tekju- og eignarskatt í fyrra. Við skulum ekki gleyma því heldur að því miður skuldar sjávarútvegurinn um 120 milljarða í þessum töluðum orðum miðað við hvernig það hefur tikkað undanfarna daga. Staðan er þó ekki betri en það. Vandinn við það að ræða þessi mál er náttúrlega sá að menn talast við í fyrirsögnum og það er óskaplega lítið sem gert hefur verið í því að útskýra hvað á bak við það liggur, veiðileyfagjald og veiðileyfagjald. Hvað er það? Ég held að hugmyndir manna um það séu nokkurn veginn jafnmargar og mennirnir sjálfir sem taka sér þetta orð í munn. Og þau fáu þingmál sem hér hafa verið flutt og vísa í þá veru bjóða yfirleitt upp á a.m.k. dúsín af valkostum þegar verið er að ræða hvernig hægt er að leggja þetta á. Hugmyndir manna um aðferðir og upphæðir og annað í þeim dúr eru mjög á reiki og þar af leiðandi er erfitt að ræða þetta. Ég hef reynt að tala tiltölulega skýrt og ég er ekki viss um að aðrir hafi lagt meira á sig en einmitt ég að koma mínum sjónarmiðum skilmerkilega á framfæri í ræðu og riti. Ég er algjör andstæðingur stórfelldrar og sértækrar skattlagningar á sjávarútveginn og þar með landsbyggðina. En ég hef aldrei útilokað það og mun ekki gera á meðan skynsamlega er um þau mál rætt að einhver hófsamleg auðlindastefna sé mótuð sem geri öllum atvinnugreinum jafnhátt undir höfði, það er annað mál.