Fiskveiðar utan lögsögu Íslands

Mánudaginn 20. október 1997, kl. 16:54:54 (656)

1997-10-20 16:54:54# 122. lþ. 12.6 fundur 146. mál: #A fiskveiðar utan lögsögu Íslands# (útboð veiðiheimilda) frv., SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 12. fundur

[16:54]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Ef þetta væri eins morgunljóst og hv. þm. er hér í sinni einföldun að reyna að segja þá þyrftu nú þingmenn jafnaðarmanna væntanlega ekki að hafa sex mismunandi valkosti á uppboði í tillögu sinni um veiðileyfagjald. Þeir voru a.m.k. sex í þeirri útgáfu tillögunnar sem flutt var í fyrra. Það bendir nú ekki til þess að þetta sé alveg gjörsamlega einfalt og morgunljóst úr því að sjálfir höfuðtalsmenn málsins í landinu treysta sér ekki til að leggja fram einn kost frekar en annan heldur bjóða upp á sex mismunandi leiðir. Og í raun og veru eru valkostirnir miklu fleiri, það mætti hrópmerkja þá því einn liðurinn er að blanda þeim saman með mismunandi hætti.

Ég man nú ekki hvort það var Churchill gamli eða einhver annar sem sagði það um flugmennina í síðari heimsstyrjöldinni sem vörðu London að aldrei hefðu jafnmargir átt jafnfáum jafnmikið að þakka. Mér dettur þetta stundum í hug um íslenska sjómenn og íslenska útgerð. Íslenskir sjómenn, um 5.500 talsins, færa hlutfallslega meiri verðmæti að landi heldur en nokkurs staðar í heiminum. Eigum við ekki líka að horfa á hina hliðina á málinu. Þetta er ekki bara þannig að það sé einhverjum fáum útvöldum úthlutað miklu gefins. Þetta er líka þannig að mjög fáir leggja mjög mikið af mörkum í þágu mjög margra, þ.e. íslensk útgerð og íslenskir sjómenn standa meira og minna undir efnahagslífi þjóðarinnar. Það er hin hliðin á málinu. Þetta eru ekki bara einhverjir vondir sægreifar og forréttindastétt sem á grundvelli einhvers rangláts kerfis fleyta hér rjómann ofan af í þjóðfélaginu. Það er ekki bara þannig. Það er líka önnur hlið á þessu máli. Hún heitir ósköp einfaldlega verkaskipt þjóðfélag. Sumir fást við það að gera út og sækja sjó, aðrir kenna börnum og þeir þriðju kasta rekunum á hina dauðu o.s.frv. Þannig hefur þetta þjóðfélag þróast að tiltekin stétt manna hefur í þágu þjóðarheildarinnar nýtt þessar auðlindir eins og bændur nýta landið, ferðaþjónustan nýtir náttúrufegurðina og svo framvegis. Við búum í verkaskiptu þjóðfélagi og þessi uppstilling er ekki að öllu leyti sanngjörn. Ég endurtek að ég tel fullkomlega eðlilegt að ræða þessi mál út frá hófsemd um almenna stefnumörkun sem lítur til allrar auðlindanýtingar. Þá gæti sjávarútvegurinn þess vegna gert svipað og Kísiliðjan sem hefur t.d. lagt fé af mörkum til að rannsaka o.s.frv. Það er allt annar hlutur heldur (Forseti hringir.) en hinar stórfelldu skattahugmyndir sem hér blunda alltaf á bak við og koma alltaf úr kafinu um leið og farið er að ræða málið betur.