Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 20. október 1997, kl. 18:27:05 (678)

1997-10-20 18:27:05# 122. lþ. 12.7 fundur 155. mál: #A stjórn fiskveiða# (framsal veiðiheimilda) frv., Flm. GHall
[prenta uppsett í dálka] 12. fundur

[18:27]

Flm. (Guðmundur Hallvarðsson):

Herra forseti. Ég vil þakka þeim sem hafa tekið til máls vegna þessa frv. Aðeins út af því sem síðasti ræðumaður kom inn á þar sem hann talaði um að þetta mál snerti mörg byggðarlög, einkum og sér í lagi þau þar sem kvótinn væri seldur og snerti enn fremur mjög harðar og miklar deilur um brask. Það var líka komið aðeins inn á það hvernig ætti að endurúthluta. Ég tel að þessi mál séu með þeim hætti að nauðsynlegt sé að taka þau upp og vona að málið fái góða umfjöllun hjá hv. sjútvn. sem þetta mál mun að sjálfsögðu fara til.

Ég vildi þó aðeins geta þess, eins og fram kemur í grg. með 3. gr., sem ég held að nauðsynlegt sé að ítreka hér, að í 3. gr. ,,er kveðið á um að ávallt sé öllum frjálst að skipta á jöfnum heimildum af þeim tegundum sem aflamarki sæta. Fiskistofa skal leggja mat á það hvort hér sé um jöfn skipti að ræða, ella væri þarna opin leið til þess að greiða fyrir mismun verðmætis, en frv. er einmitt ætlað að koma í veg fyrir það óeðlilega verslunarkerfi sem viðgengist hefur undanfarin ár samfara því ósætti sem ,,kvótabraskið`` hefur valdið.

Þá er jafnframt tekið fyrir það í 1. mgr. greinarinnar að skip sem fær til sín aflaheimildir í tegund gegn greiðslu umsýslugjalds vegna vöntunar í þeirri tegund noti þá tegund í skiptimynt í jöfnum skiptum, enda markmið frv. að fái menn til sín aflaheimildir eða sé úthlutað þeim, nýti þeir þær sjálfir. Það samrýmist einnig vel þeim meginmarkmiðum kvótakerfisins að jafna veiðiheimildum til þeirra sem þurfa þeirra með vegna verkefnisskorts og skömmtunaraðgangs að afla innan kvótakerfisins.``

Þetta opnar möguleika fyrir útgerðir á stöðum þar sem kvóti hefur verið seldur vegna ástands sem upp hefur komið, og við þekkjum vel til, að kaupa þá til sín þann kvóta sem gírugir útgerðarmenn hafa verið að kaupa til sín bara til að safna að sér auði og ekki er eðlilegt að gerist. En eins og hv. meðflm. minn, Guðjón Guðmundsson, kom inn á áðan, þá hefur þetta náttúrlega farið þær leiðir að með ólíkindum er.

Ég endurtek þakkir mínar fyrir þær umræður sem hafa farið fram og vænti þess og veit að þetta mál mun fá faglega umfjöllun í hv. sjútvn.

[18:30]