Grunnskólinn og kjaramál kennara

Þriðjudaginn 21. október 1997, kl. 13:52:44 (685)

1997-10-21 13:52:44# 122. lþ. 13.91 fundur 58#B grunnskólinn og kjaramál kennara# (umræður utan dagskrár), GÁS
[prenta uppsett í dálka] 13. fundur

[13:52]

Guðmundur Árni Stefánsson:

Virðulegi forseti. Auðvitað er ekki viðunandi að æðsta vald í menntunarmálum þjóðarinnar, hæstv. menntmrh., sé stikkfrí þegar fyrir liggur og menn óttast að innan örfárra daga lamist skólahald í grunnskólum landsins. Það er ekki viðunandi. Við hljótum að fara fram á að hann ásamt með félmrh. og fjmrh. setjist að samningaborði með sveitarfélögum í landinu í ljósi þeirra gjörbreyttu aðstæðna sem nú eru frá því að samkomulag var gert milli þessara aðila 1995. Auðvitað eru aðstæðurnar gjörbreyttar. Allir þeir sem fylgjast með umræðum um þessi mál sjá það og heyra. Sveitarstjórnarmenn hafa fullyrt það, lagt fram tölulegar upplýsingar í þá veru. Það er sjálfsagt og eðlilegt að menn setjist að samningaborði með sveitarfélögum og gefi upp á nýtt í þessum fjárhagslegu samskiptum þessara tveggja aðila. Löggjafarvaldið setur sveitarfélögum ákveðinn skýran og afmarkaðan ramma um skólahald í hverju sveitarfélagi fyrir sig og á landsvísu. Það er síðan mennmrn. í þessu tilfelli að fylgjast með því að sá lagarammi sé útfylltur. Ef í ljós kemur að sveitarfélög vítt og breitt um landið hafa ekki fjárhagslegt bolmagn til þess að uppfylla þessar skyldur hlýtur ráðuneytið að grípa þarna inn í eða a.m.k. hafa áhyggjur af og vilja setja sig inn í þau mál. Svör menntmrh. við umræðuna eru með slíkum fádæmum að sjaldan hefur annað eins heyrst, þ.e. að ekki sé á verksviði hans eða valdi að fylgjast með eða leggja neitt inn í þá deilu sem er að lama skólastarf í öllum grunnskólum landsins innan örfárra daga. Hvílíkt og annað eins. Það er ekki ofsagt sem stjórnarþingmaðurinn, hv. þm. Hjálmar Árnason, sagði áðan: það er eymdarstaða í þessum málum. Það er eymdarstaða í menntmrn.