Grunnskólinn og kjaramál kennara

Þriðjudaginn 21. október 1997, kl. 13:54:48 (686)

1997-10-21 13:54:48# 122. lþ. 13.91 fundur 58#B grunnskólinn og kjaramál kennara# (umræður utan dagskrár), EKG
[prenta uppsett í dálka] 13. fundur

[13:54]

Einar K. Guðfinnsson:

Virðulegi forseti. Ekki er ofsögum sagt að það er uppi mjög alvarleg staða í grunnskólunum vegna yfirvofandi verkfalls kennara. Verkfallið mun að sjálfsögðu ekki bara snerta kennarana heldur ekki síður þá 40 þúsund nemendur eða svo sem starfa í grunnskólunum. Ég verð þó að segja að þó að verkfall sé alltaf mjög alvarlegt hef ég meiri áhyggjur af því ef sú staða verður uppi að kennarar yfirgefi stöður sínar eftir kjarasamningana en auðvitað getur komið til þess ef niðurstaða kjarasamninganna verður ekki viðunandi að þeirra mati. Ég held að það mál sé mjög alvarlegt og sé þess eðlis að við getum ekki horft fram hjá því. Að minnsta kosti finnst mér að sú grein sem birtist í Morgunblaðinu núna á dögunum frá einum reyndasta og virtasta kennara landsins, Herdísi Egilsdóttur, sé einmitt dæmigerð fyrir það. Ég leyfi mér, virðulegu forseti, að vitna í grein hennar þar sem hún segir: ,,Ég sé fyrir mér að kennarar bíti á jaxlinn og klári þennan vetur en láti svo ekki sjá sig í haust þegar skólar byrja.`` Þetta er auðvitað mjög alvarlegt mál.

Hitt er hins vegar alveg fráleitt eins og hv. stjórnarandstæðingar hafa talað hér að það eigi að vísa ábyrgðinni á kjaradeilunni, sem er auðvitað kjaradeila milli kennara og viðsemjenda þeirra sem eru sveitarfélögin, í menntmrn., að menntmrn. eigi að taka af samningsumboð sveitarfélaganna og semja þannig beint við kennara eins og maður gat helst skilið á þessum sérkennilega málflutningi sem fór hérna fram. Auðvitað fór samningsumboðið til sveitarfélaganna um leið og grunnskólamálin fluttust til sveitarfélaganna og mjög eðlilega var staðið að því máli öllu saman. Það var gengið til frjálsra samninga sem báðir aðilar urðu ásáttir um og gengið var út frá því að því fylgdi tiltekin peningaupphæð sem sveitarfélögin hefðu til ráðstöfunar. Það liggur fyrir m.a. í upplýsingum frá formanni Sambands sveitarfélaga að núna er meiri fjámunum varið til grunnskólanna í landinu en hefur verið gert undanfarin ár. Rúmlega 9 milljarðar fóru til þessa málaflokks á árinu 1995 en áætlað er að upphæðin verði tæpir 11 milljarðar á þessu ári. Auðvitað er fráleitt að tala með þeim hætti að þetta sé mál sem hægt sé að vísa frá sveitarfélögunum inn til menntmrn. Þetta er hins vegar mál sem er mjög brýnt og er mjög alvarlegt og verður að leysa og ég treysti því að samningsaðilar muni gera það á næstu dögum.