Grunnskólinn og kjaramál kennara

Þriðjudaginn 21. október 1997, kl. 14:01:34 (689)

1997-10-21 14:01:34# 122. lþ. 13.91 fundur 58#B grunnskólinn og kjaramál kennara# (umræður utan dagskrár), KÁ
[prenta uppsett í dálka] 13. fundur

[14:01]

Kristín Ástgeirsdóttir:

Hæstv. forseti. Það síðasta sem fram kom í máli hæstv. félmrh. er kannski kjarni málsins. Það var reiknað með ámóta hækkun til kennara og til annarra stétta meðan öllum mátti ljóst vera að kennarar þurfa að fá verulegar launabætur og það hafa sveitarstjórnarmenn viðurkennt í þeim umræðum sem átt hafa sér stað að undanförnu. En sveitarfélögin virtust ekki gera sér fyllilega grein fyrir því hve gífurlegur kostnaður fylgdi flutningi grunnskólans yfir til sveitarfélaganna og ekki heldur hvílíkar væntingar kennarar höfðu til þessa flutnings. Þar kemur að því sem fram kom í máli hæstv. menntrmh. að fjárhagslegi þáttur málsins hefði verið einna best ræddur.

Við stjórnarandstæðingar héldum því fram þegar umræðan átti sér stað um flutning grunnskólans að kostnaður væri stórlega vanáætlaður og það hefur komið í ljós. Það er bullandi óánægja meðal sveitarfélaganna með þá stöðu sem uppi er og það hvernig fjármunum er skipt, m.a. úr jöfnunarsjóðnum og það blasir einfaldlega við okkur sú staðreynd að sveitarfélögin hafa ekki nægilegt fé til þess að sinna þessu verkefni jafn vel og þau gjarnan vilja.

Það var haft á orði í umræðunni að stjórnarandstæðingarnir séu að vísa ábyrgðinni yfir til menntmrn. Auðvitað vitum við öll að samningamálin eru í höndum sveitarfélaganna en við hljótum að þurfa að fara ofan í þessi mál aftur og reyna að átta okkur á því hvernig ríkisvaldið verður að koma inn í til þess að sveitarfélögin geti sinnt því verkefni sem þeim er falið lögum samkvæmt og hæstv. menntmrh. rifjaði einmitt upp fyrir okkur áðan og það er auðvitað mergurinn málsins. Hvernig á sveitarfélögunum að vera kleift að uppfylla grunnskólalögin ef þau fá ekki til þess aukið fjármagn? Það hlýtur að þurfa að skoða þessi mál í samhengi, hæstv. menntmrh. og ég skora á hæstv. ráðherra að eiga nú frumkvæði að því að ræða málin við sveitarfélögin og beita sér fyrir lausn þessarar deilu.