Háskólar

Þriðjudaginn 21. október 1997, kl. 14:20:11 (695)

1997-10-21 14:20:11# 122. lþ. 13.7 fundur 165. mál: #A háskólar# frv., SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 13. fundur

[14:20]

Svanfríður Jónasdóttir:

Herra forseti. Mér létti nokkuð við að heyra hversu mjög hæstv. menntmrh. ítrekaði samstarfsvilja sinn við Háskóla Íslands. Það er reyndar svo að stundum finnst manni ástæða til tortryggni þegar menn ítreka svo innilega ákveðna hluti en ég vona að ekki sé ástæða til hennar í þessu tilfelli.

Það var nefnilega þannig í vor þegar ákveðið var að fresta afgreiðslu frv. um háskólann að það var ekki hvað síst gert að áeggjan Háskóla Íslands sem vildi fá tækifæri til að fjalla betur um frv. en eins og sagði í bókun háskólaráðs frá 30. apríl sl., með leyfi forseta:

,,Háskólaráð æskir þess við Alþingi að háskólasamfélagið fái ráðrúm til haustsins til þess að geta fjallað rækilega um frv. til laga um háskóla. Ósk háskólans hvílir á þremur meginforsendum:

1. Efnislegum athugasemdum sem settar eru fram í greinargerð Háskóla Íslands. Einkum athugasemdum við IV. kafla frv.

2. Lagalegum rökum sem hvíla á 7. mgr. 2. gr. laga um Háskóla Íslands, nr. 131/1990, þar sem kveðið er á um samráð við deildir háskólans.

3. Rökum um sjálfstæði háskólasamfélagsins sem eru margsinnis áréttuð í greinargereð með frv. en virðast að talsverðu leyti hafa orðið út undan í málsmeðferð við undirbúning þess.``

Í bókuninni kemur jafnframt fram, herra forseti, að háskólinn er því fylgjandi að lög verði sett um háskólastigið og háskólinn telur flest atriði frv. fyrir utan IV. kafla þess til bóta fyrir stöðu háskóla í landinu.

Í efnislegum athugasemdum háskólans sem vikið er að í 1. lið þess sem ég vitnaði í úr bókun háskólaráðs kom fram að Háskóli Íslands lagði til að IV. kafli yrði felldur út úr frv. en sá kafli fjallar um stjórn ríkisháskóla. Markmið tillögunnar var að færi yrði gefið á að stjórnkerfi háskólans yrði mótað í sérlögum um hann, rétt eins og virðist eiga að gera með þá skóla sem eru einkaskólar eða sjálfseignarstofnanir. Í tilfelli þeirra virðast yfirvöld menntamála ekki hafa miklar áhyggjur af stjórnkerfi skólanna þó að þeir þiggi allir opinbert fé til rekstursins.

Til vara var Háskóli Íslands með tillögu um að 1. gr. breyttist þannig að á eftir 2. málslið kæmi: ,,Heimilt er þó að víkja frá einstökum ákvæðum kaflans í sérlögum um ríkisháskóla.`` Skýringin sem háskólinn gaf var sú að með þessu fengi hann svigrúm til að móta hugmyndir um breytta stjórnskipan skólans.

Jafnframt kom fram, herra forseti, að ef hvorug þessara tillagna næði fram að ganga væri tillaga háskólans til vara að í 13. gr., á eftir 3. mgr., bættist ný mgr. efnislega um að ákvæði greinarinnar, sem eru einmitt um stjórn háskólans, giltu ekki ef sérlög einstakra háskóla mæltu á annan veg um þau atriði sem þar greinir. Sömuleiðis að 14. gr., en hún er um skipan rektors, gildi nema öðruvísi sé kveðið á um stöðu rektors í sérlögum.

Nú er það svo, herra forseti, að þó að ráðherra segi að frv. sé lítið sem ekkert breytt eru lítils háttar breytingar bæði á 13. og 14. gr. sem eru þó frekar tæknileg útfærsla vegna ábendinga sem fram komu í vor þegar frv. var til umfjöllunar. En það kom skýrt fram að Háskóli Íslands taldi í vor að með IV. kaflanum sem fjallar um stjórn ríkisháskólanna væri verið að binda hendur háskólans verulega. Það er ekki bara túlkun einhverra úti í bæ að þetta frv. gæti leitt til þess. Það kom beinlínis fram og kemur fram í því sem Háskóli Íslands lét sjálfur frá sér fara í vor. Menn höfðu efasemdir um nauðsyn þess að hafa sérstök ákvæði um stjórn ríkisháskóla í almennum lögum, í rammalöggjöf. Fremur ætti að útfæra þau í sérlögum um hvern skóla enda segir í 3. gr. frv. að ríkisreknir háskólar séu sjálfstæðar ríkisstofnanir sem heyri stjórnarfarslega undir menntmrh. og lúti stjórn samkvæmt sérstökum lögum um hvern skóla.

Herra forseti. Einu ákvæðin um stjórnarfyrirkomulag einkaskóla í frv. eru þau að þeir starfi eftir samþykktum eða skipulagsskrám sem menntmrh. staðfestir.

Í ljósi þess að afgreiðslu frv. var frestað í vor að beiðni fyrst og fremst Háskóla Íslands og samkomulag var gert um að afgreiða það nú á haustþingi var áhugavert að vita hvaða breytingar hefðu átt sér stað á frv., ekki síst þar sem við í minni hluta menntmn. litum svo á að reynt yrði að ná samkomulagi við Háskóla Íslands í sumar þannig að hann gæti betur unað því. Ítrekað kom fram að þeir töldu ákvæði IV. kafla, einkum 13. og 14. gr., geta orðið afdrifarík fyrir eðlilega samfellu í þróun og starfi skólans og töldu að samþykkt sérstaklega þeirra greina mundi kalla á róttæka breytingu á stjórnskipulagi háskólans til hins verra. En þegar nýtt frv. er skoðað kemur í ljós að litlar breytingar hafa verið gerðar á því eins og hæstv. ráðherra benti réttilega á.

Eins og ég gat um snúa tvær þeirra reyndar að 13. og 14. gr. en ekki á þann veg að það breyti neinu hvað varðar megingagnrýni Háskóla Íslands. Sú gagnrýni sem sett var fram stendur því enn og virðist ljóst að ekki stendur til af hálfu menntmrh. að taka tillit til hennar nema samstarfsviljinn beri óvæntan ávöxt. Aðrir skólar gerðu einnig margvíslegar athugasemdir við frv. sem lítið tillit er tekið til og eiginlega þvert á móti í veigamiklu atriði en það er þriðja breytingin sem gerð er á frv. frá í vor og ég vil gera að sérstöku umræðuefni. Hún er nefnilega til hins verra fyrir þá skóla sem verða með þessum lögum skilgreindir sem háskólar og veikir stöðu þeirra en um er að ræða orðalagsbreytingu í 2. gr. frv.

Fulltrúar þeirra skóla sem með þessum lögum verða skilgreindir sem háskólar lögðu mikla áherslu á að þeir litu svo á að rannsóknarskylda væri afar mikilvægur áfangi. Fulltrúar þessara skóla litu því svo á að með lögunum fengju þeir rannsóknarskylduna þrátt fyrir þær mótsagnir sem voru í frv. vegna þess að í frv. var og er í 5. gr. sá möguleiki orðaður að háskóli geti hugsanlega ekki haft rannsóknarskyldu. Sú hugsun að háskólinn geti hugsanlega ekki haft rannsóknarskyldu er nú áréttuð í 2. gr. með nýju orðalagi þannig að í stað skilgreiningarinnar þar sem sagði að háskóli væri menntastofnun sem jafnframt sinnti rannsóknum segir nú að háskólinn sé menntastofnun sem jafnframt sinnir rannsóknum ef svo sé kveðið á um í reglum í starfsemi hvers skóla.

Ég held að það hafi komið fram hjá hverjum einasta viðmælanda hv. menntmn. í vor þegar fjallað var um frumvarpið eins og það lá þá fyrir hve mikilvægt menn teldu að háskólar hefðu rannsóknarskyldu hver eftir sínum sérstöku aðstæðum. Því er mikilvægt vegna þess að þessi einstaka breyting er gerð á frumvarpinu að það komi fram hér, og ég óska eftir að ráðherra greini okkur frá því, hvort hann er með einhverja sérstaka skóla í huga sem eiga ekki að hafa rannsóknarskyldu. Það er nauðsynlegt að Alþingi viti hvað fyrir honum vakir með þessari breytingu. Það verður nefnilega allt önnur staða fyrir þá háskóla sem ekki hafa rannsóknarskyldu en hina.

Við skulum einungis nefna eitt atriði en það er samkeppni um hæfa kennara. Menn geta séð það fyrir sér hvorn skólann kennari velur ef hann á tveggja skóla völ og annar hefur rannsóknarskyldu en ekki hinn. Hér er beinlínis verið að mismuna með þeim hætti að það hlýtur að koma mjög niður á þeim skólum sem ekki koma til með að hafa rannsóknarskyldu. Þess vegna eins og ég sagði, herra forseti, er nauðsynlegt að það komi fram strax í umræðunni hvað hæstv. ráðherra á við með þessari breytingu, hvernig hann hefur hugsað sér að þetta mál verði. Það sem er merkilegt líka, herra forseti, er að sú mismunun sem kemur fram með breyttu orðalagi á stöðu skólanna, stangast á við þá samræmingaráráttu eða nánast þráhyggju sem einkennir frv. þegar um stjórnunarkaflann er að ræða.

[14:30]

Herra forseti. Það er rétt sem hæstv. ráðherra sagði áðan að um ýmis atriði þessa frv. komu skoðanir og hugmyndir manna fram í umræðunni hér í vor. Það er þó ljóst að í þeirri vinnu sem fram fór í hv. nefnd var varpað nýju ljósi á ýmsa hluti sem mönnum voru e.t.v. ekki alveg ljósir í 1. umr. um málið en það kom eins og menn þekkja aldrei til 2. umr. Stúdentaráð Háskóla Íslands hafði t.d. af því áhyggjur í vor, og ugglaust hefur þeim áhyggjum ekki linnt þegar stúdentaráð nú skoðaði frv., en það hafði áhyggjur af því að með ákvæðum 19. gr. væri verið að opna fyrir skólagjöld. Og í umsögn Háskóla Íslands um frv. kemur fram að Háskóli Íslands hefur ekki sóst eftir gjaldtöku af stúdentum vegna náms. Hins vegar virðist hér vera á ferðinni angi af áhuga ráðherra á skólagjöldum, samanber umfjöllun hans á netinu um þau mál eða öllur heldur um umfjöllum Stúdentablaðsins um þau mál.

Það er alvarlegt, herra forseti, að ekkert OECD-land ver hlutfallslega jafnlitlu fjármagni til háskólastarfs og Ísland. Og það sem er hættulegt er að þetta kerfi er orðið svo svelt að það er litlu fegið. Það hefur hins vegar komið fram að Háskóli Íslands, eins og ég gat um hér áðan og kemur fram í umsögn háskólans um frv., hefur ekki sóst eftir gjaldtöku af stúdentum vegna náms. Við verðum með öðrum hætti að mæta þörfum háskólans fyrir aukið fjármagn. Ráðherra gat um það hér áðan að eitthvert lítilræði væri að finna í fjárlagafrv. næsta árs en það er engan veginn nægjanlegt og ekki hálfdrættingur á við það sem háskólinn taldi sig minnst komast af með.

Herra forseti. Hér er á ferðinni rammalöggjöf og rammalöggjöf tekur fyrir allt það efni, öll þau álitaefni sem upp kunna að koma varðandi stjórn og starfsemi háskóla. Og vissulega er það svo að í flestu tilliti verður hér um rammalöggjöf að ræða nema hvað varðar stjórnunarkafla ríkisháskólanna. Þar eru ótrúlega smásmuguleg ákvæði á ferðinni miðað við það sem fram kemur annars staðar um sjálfstæði Háskóla Íslands og háskóla almennt og um að það skuli gilda sérlög um stjórn þessara skóla.

Það er margt til bóta í þessu frv. og margt í því sem ber að fagna. Staða þeirra skóla sem við lögfestingu þessa frv. verða skilgreindir háskólar batnar. Það er vissulega til bóta að festa í sessi skipan þess skólastigs sem tekur við af framhaldsskólastiginu þótt á því virðist nú ætla að verða sá ljóður sem ég gat um áðan, að skilgreining þessara skóla verður þrátt fyrir allt ekki sú sama vegna þess að það virðist ekki vera gert ráð fyrir því að þeir hafi allir rannsóknarskyldu. Það er líka til bóta, herra forseti, að fjárveitingar til háskóla byggi á fyrir fram þekktum reglum. Hæstv. ráðherra gat þess í ræðu sinni að verið væri að vinna að slíku og í þessu frv. er gert ráð fyrir að fjárveitingar byggi á reglum sem settar verða og eiga vonandi ekki að mismuna skólunum. Það er líka til bóta að þessi lög gera ráð fyrir virku gæðaeftirliti með háskólamenntun. Slíkt gæðaeftirlit er ekki bara til aðhalds, það getur líka verið til eflingar háskólastarfi. Hér er einnig gert ráð fyrir strangari kröfum til menntunar og starfsreynslu kennara. Og það ákvæði er í frv. að háskólar skuli miðla fræðslu til almennings og veita þjóðfélaginu þjónustu í krafti þekkingar sinnar. Þetta er gott ákvæði, herra forseti, og orð nýs rektors, þegar hann tók við í sumar, hljóta að segja okkur að við þessu muni Háskóli Íslands a.m.k. bregðast með jákvæðum hætti.

Að lokum, herra forseti, finnst mér það jákvætt að ríkisháskólum skuli heimilt að eiga aðild að atvinnurekstri í því skyni að hagnýta og þróa niðurstöður sem háskólinn vinnur að á hverjum tíma. Ég held að það sé nauðsynlegt fyrir háskóla sem er með rannsóknarskyldu og er að vinna í verkum eins og þeim sem bæði Háskóli Íslands og Háskólinn á Akureyri eru í að geta átt aðild að atvinnurekstri, bæði til lengri tíma og eins tímabundið, allt eftir verkefnum og áherslum á hverjum tíma.

Það er merkilegt, herra forseti, við þær breytingar sem gerðar voru á frv. að ekki skyldi reynt, þess sér a.m.k. ekki stað, að mæta helstu gagnrýni þeirra sem við eiga að búa, samanber IV. kafla frv. Það væri nú einnig fróðlegt að heyra viðhorf hæstv. ráðherra til þess hvort það stranga regluverk sem sett er upp fyrir ríkisháskólana, á meðan einkaháskólar og háskólar sem eru sjálfseignarstofnanir fá sjálfir að ráða sínu stjórnkerfi, sé beinlínis hugsað af hans hálfu til þess að hrekja þessa skóla til þess að breyta sínu fyrirkomulagi --- að þeir verði ekki lengur ríkisháskólar heldur breyti sér yfir í sjálfseignarstofnanir. Við vitum að það hefur verið kannað af hálfu Háskóla Íslands að honum verði breytt í sjálfseignarstofnun en það væri fróðlegt að vita hvort það er ætlan hæstv. ráðherra að þessi löggjöf hvetji beinlínis til slíkra breytinga. Þetta var um IV. kaflann en eins og ég gat um áðan þá finnst mér það líka merkilegt að því var breytt sem flestir töldu þó helstan kost á frv., þ.e. að það væri beinlínis skilgreining á háskóla að hann hefði rannsóknarskyldu.

Herra forseti. Ég vona að orð hæstv. ráðherra um samstarfsvilja hér í upphafi leiði til þess að hv. menntmn. geti leitt vinnuna við þetta frv. til lykta í sæmilegu samkomulagi bæði innbyrðis og við þá sem við eiga að búa. Ég vona að okkur auðnist það en því miður óttast ég, miðað við hvernig frv. liggur fyrir nú, að svo verði ekki.