Háskólar

Þriðjudaginn 21. október 1997, kl. 14:59:43 (697)

1997-10-21 14:59:43# 122. lþ. 13.7 fundur 165. mál: #A háskólar# frv., SvG
[prenta uppsett í dálka] 13. fundur

[14:59]

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Það frv. sem hér liggur fyrir er nokkuð merkilegt að ýmsu leyti. Það hefur lengi legið fyrir að þörf var fyrir samræmda eina löggjöf um háskólastigið. Það er mjög gamalt mál, hefur verið rætt lengi og það hefur verið unnið að því að reyna að ná samstöðu um það mál mjög lengi. Sú veraldarsaga byrjaði ekki 1994 eins og ætla má í þessu frv. og greinargerð þess.

Ég tel hins vegar að frv. eins og það lítur út hér beri merki þess að Sjálfstfl. eða menntmrh. hafi ákveðið að troða inn í það alls konar pólitískum sérviskum Sjálfstfl. í leiðinni þannig að í frv. er ekki fyrst og fremst almennur umbótavilji og almennar umbótatillögur í málefnum háskólanna heldur eru í forgrunni pólitískar sérviskur menntmrh. Það er mjög alvarlegur hlutur. Þessi mál voru aldrei borin undir háskólann. Það er ekki þannig að þessar tillögur séu frá háskólanum. Ráðherrann kemur með þessar tillögur. Hann leggur þær hér fram í andstöðu við háskólasamfélagið, þ.e. meginþættina sem ágreiningi hafa valdið og hann krafðist þess að Alþingi afgreiddi málið á nokkrum dögum hér í vor. Um frv. um Kennara- og uppeldisháskóla sem verður rætt hér á eftir fengu menn nokkra daga í sumum stofnunum til þess að veita umsögn af því að það átti að gera það að lögum í vor og það var fyrir þrákelkni stjórnarandstöðunnar að tókst að knýja það fram að þessi mál urðu ekki að lögum og háskólarnir sendu hér inn bænaskjöl. Það rigndi hér inn bænaskrám frá háskólunum þar sem þeir báðu um að þessi frv. yrðu ekki að lögum í vor og það er alveg bersýnilegt að háskólarnir hafa tamið sér það að senda hingað þannig texta að það stigi hvergi ofan á hæstv. menntmrh. eða metnað hans í þessum málum.

Það er náttúrlega dálítið umhugsunarefni ef menn geta ekki talast við á málefnalegum grundvelli, ráðuneytið og skólarnir, heldur séu menn meira og minna að reyna að koma hlutunum þannig fyrir að ekki verði móðganir og leiðindi sem verði til þess að loka eðlileg samskipti af á milli háskólans og Alþingis.

Í öðru lagi finnst mér það vera þannig, herra forseti, að hæstv. menntmrh. talar ekki bara eins og hann eigi þessar sérviskur sem hann má eiga fyrir mér, heldur eigi hann Alþingi líka því að það er alltaf talað eins og þetta skipti ekki öllu máli, að þetta sé svona vesen, taki tíma, 20 mínútur á hvern stjórnarandstæðing og svo önnur ræða og einhver andsvör og svona. Svo er það búið, en að öðru leyti skipti það ekki mjög miklu máli sem menn eru að segja hér, það skipti engu máli vegna þess að eins og kemur fram í máli ráðherrans, þá hefur hann þennan vilja og hinn og ætlar bersýnilega að láta hann verða að lögum í þessari stofnun.

Ég verð að segja alveg eins og er að þessi framsetning að því er varðar háskólann er alveg ótrúlegt skref aftur á bak miðað við þann anda sem hefur ríkt í umræðum um Háskóla Íslands hér í þessari stofnun alveg frá 1968--1969. Það er gríðarlega mikil breyting. Það er gríðarlega mikil afturför eins og hinar umdeildu tillögur bera vitni um.

Síðan kemur það fram í ræðu hæstv. menntmrh. að eins og lá fyrir, þá átti að nota sumarið til þess að fara yfir þetta frv. og reyna að laga það. Það er ekki búið. Hvað voru menn að gera í sumar? Af hverju var ekki reynt að ljúka þessum viðræðum? Og til hvers er þá verið að flytja málið ef frv. er ekki frv. heldur bara uppkast á þessu stigi, af því að beðið er eftir niðurstöðum úr þessum viðræðum sem munu standa yfir, eða hvað, á milli ráðuneytisins og háskólans? Fyrsta spurning mín til hæstv. menntmrh. er þessi: Hvenær er þess að vænta að viðræðum ljúki milli menntmrn. og háskólans? Hverjir eru í þessum viðræðum og á hvaða forsendum byggir ráðuneytið viðræðurnar? Það er alveg nauðsynlegt að fá þetta upp vegna þess að það er bersýnilegt að þetta er ekkert frv. eins og það er hér. Það hefði alveg eins verið hægt að nota tíma Alþingis í eitthvað annað vegna þess að það er greinilegt að ráðherrann telur að þetta sé meira og minna markleysa eins og það lítur út, það eigi eftir að skoða málið öðruvísi og jafnvel betur.

Ég vil, herra forseti, mótmæla því að verið sé að misnota þá gömlu ósk allra háskóla á Íslandi að eignast samfellda háskólalöggjöf, til að troða inn einkasérviskum Sjálfstfl. Ég mótmæli því og ég vil ekki að umræðan byggist á þeim þáttum heldur frekar hinu að menn reyni að horfa á þarfir skólanna.

Ég ætla ekki að ræða einstök almenn atriði í þessu frv. mjög ítarlega en vil aðeins segja út af orðum hv. þm. Svanfríðar Jónasdóttur um 2. gr: Það er verið að breyta henni. Er einhver grein gerð fyrir því í skjölunum af hverju það er gert? Mér finnst þetta ekki vel lagt fram. Mér finnst að það hefði átt að tína það upp alveg nákvæmlega hverju er breytt þannig að þingmenn sjái það og menn þurfi ekki að stunda samlestur í menntmn., með fullri virðingu fyrir honum, til þess að átta sig á því hvað er í málum, heldur sé það augljóst hverjum þingmanni sem nennir að fletta upp í greinargerð frv. Ég tel að þessi vinnubrögð beri að kalla því nafni að það sé verið að reyna að smygla inn einu og einu atriði, kannski ekki stóru, en það verður oft til þess að Alþingi áttar sig ekki á hlutunum sem skyldi.

Varðandi önnur almenn og einstök atriði vil ég síðan segja þetta, herra forseti: Þetta frv. er miðstýringarfrv. og ekkert annað. Þetta frv. gerir ráð fyrir því að ráðherrann skipi menn í háskólaráð. Þetta frv. gerir ráð fyrir því að ráðherrann skipi rektorinn, að vísu núna samkvæmt tilnefningum háskólaráðs, en í raun og veru ræður ráðherrann örlögum rektorsins vegna þess að hann getur leyst hann frá störfum þannig að það er alveg bersýnilegt að þarna er um að ræða óeðlilegt og stóraukið vald ráðherrans yfir rektor háskólans.

Ég bendi á ákvæði frv. um gæðaeftirlitið og ég bendi á í fjórða og síðasta lagi fjöldamörg ákvæði um smærri framkvæmdaatriði sem eru í frv. en eiga ekki að vera í því vegna þess að líka er tekið fram að eigi að setja sérlög um einstaka skóla, a.m.k. um Háskóla Íslands, og þá eiga þessi sérákvæði ekki heima í þessu frv.

Í öðru lagi um málið almennt, þá ætla ég að endurtaka að ég tel að málið sé ekki nægilega vel lagt fram og legg þá aðra spurningu mína fyrir hæstv. menntmrh. sem er þessi: Hver yrði staða frv., ef að lögum verður, andspænis gildandi sérlögum? Tekur frv., ef að lögum verður, af einhver ákvæði og þá hver, í gildandi sérlögum? Ég vil láta það koma fram sem mína skoðun að ég tel að óeðlilegt sé að ræða um þessi almennu lög öðruvísi en að uppkast að sérlögunum liggi fyrir.

Samkvæmt upplýsingum sem ég hef hins vegar utan úr háskóla, er málið þannig að uppkast að þessum sérlögum liggur ekki enn þá fyrir, en það ætti auðvitað að vera þannig að Alþingi afgreiði þessi mál ekki fyrr en frv. til sérlaga liggur fyrir svo Alþingi geti tekið ákvörðun um allan pakkann í heild, en ekki aðeins þessi ákvæði eins og þau eru.

Þriðja almenna atriðið sem ég vil nefna í þessu frv. og ég vil mótmæla er opnunin fyrir gjaldtöku. Ég tel að með frv., ef það yrði að lögum, væri verið að staðfesta heimild til skólanna og staðfesta þá stefnu að um yrði að ræða almenna skattlagningu á nemendur og eins og tilgreint er og tíðkað hefur verið í tíð núv. ríkisstjórnar og fyrrv. ríkisstjórnar. Ég minni á hugmyndirnar um 100 þús. kr. skólagjöldin. Ég minni á þær hugmyndir og ég minni á umræðurnar um þær og ég tel að hættulegt sé að vera með svona skólagjaldaákvæði inni meðan Sjálfstfl. ræður bæði menntmrn. og fjmrn. eins og hann ræður núna.

Ég vil síðan nefna eitt minni háttar atriði, herra forseti, sem lýtur að 22. gr. frv. og ég átta mig ekki alveg á eftir að hafa lesið greinargerðina og greinargerð fjármálaskrifstofu fjmrn., en þar segir, með leyfi forseta:

,,Ríkisháskólum er heimilt með samþykki menntamálaráðherra að eiga aðild að rannsóknar- og þróunarfyrirtækjum sem eru hlutafélög, sjálfseignarstofnanir eða félög með takmarkaða ábyrgð og stunda framleiðslu og sölu í því skyni að hagnýta og þróa niðurstöður rannsókna sem háskólinn vinnur að hverju sinni. Háskólaráð viðkomandi háskóla fer með eignarhlut skólans í slíkum fyrirtækjum.``

Um þetta er svo fjallað í greinargerð frv. Og í umsögn fjmrn. segir svo, með leyfi forseta:

,,Í 22. gr. er lagt til að ríkisháskólum verði heimilt með samþykki menntamálaráðherra að eiga aðild að atvinnurekstri í því skyni að hagnýta og þróa niðurstöður rannsókna sem háskólinn vinnur að hverju sinni. Jafnframt er lagt til að háskólaráð viðkomandi skóla fari með eignarhluta skólans í slíkum fyrirtækjum. Í 29. gr. laga um fjárreiður ríkisins er kveðið á um að aðilar í A-hluta fjárlaga þurfi hverju sinni að afla heimilda í lögum til að kaupa eða selja eignarhluta í félögum. Samkvæmt auglýsingu um staðfestingu forseta Íslands á reglugerð um Stjórnarráð Íslands, nr. 96/1969, er almenna reglan sú að fjármálaráðuneytið fer með eignir ríkisins, þar á meðal eignarhluta í félögum og fyrirsvar þeirra vegna.``

Ég nefni þetta, herra forseti, vegna þess að mér sýnist að nauðsynlegt sé að leggjast aðeins betur yfir þessa grein eins og hún er hér. Ég er ekki að hafa skoðun í ræðu minni á efni hennar, en það er greinilegt að ætlunin er að skólarnir eigi þennan eignarhlut og fari með hann, en fjmrn. telur að það eigi að fara með þennan hlut. Það er nauðsynlegt að yfir það mál verði farið, ekki einasta í menntmn., heldur verði fulltrúi frá fjmrn. kallaður til umræðu um það mál vegna þess að ég sé ekki betur en að um sé að ræða nokkurn ágreining um þetta mál sem ég viðurkenni að er tæknilegt en það skiptir miklu máli að svona hlutir séu hreinir.

Þegar þessi mál hafa verið til meðferðar á Alþingi hafa ýmsir fjallað um þau, eins og t.d. stúdentaráð Háskóla Íslands. Og stúdentaráð Háskóla Íslands gagnrýnir frv. mjög alvarlega. Þar segir t.d., með leyfi forseta:

,,Fyrst ber að nefna að það frv. sem hér er fjallað um er ekki unnið í samstarfi við háskólasamfélagið. Ráðherra styðst þó að einhverju leyti við tillögur samstarfsnefndar háskólastigsins og skýrslu þróunarnefndar frá 1994. Það breytir því ekki að Háskóli Íslands eða fulltrúar hans komu ekki að samningu þessa frv. en það er nauðsynlegt ef ríkja á sátt um það.``

Í athugasemdum sem fylgja frv. er vísað til skýrslu þróunarnefndar. Þar af leiðandi er rétt að benda á nokkrar mikilvægar staðreyndir er varða nefndina. Í fyrsta lagi áttu eingöngu fjórir fulltrúar HÍ sæti í þessari 16 manna nefnd. Hinir 12 voru fulltrúar atvinnulífs og Alþingis, þar á meðal Björn Bjarnason núv. menntmrh. Í öðru lagi er rétt að benda á að ekki ríkti sátt um niðurstöðu nefndarinnar því hún klofnaði í afstöðu sinni um mjög veigamikil atriði.

Ég les þetta hér upp, herra forseti, vegna þess að mér finnst að aðdragandi málsins sé hér mjög vel, algerlega í hnotskurn. Það er sem sagt þannig að fyrir liggur frv. Í því er fullt af alls konar hlutum sem eru teknir upp úr stefnuskrá Sjálfstfl. og hafa ekkert með háskólapólitík að gera. Og í staðinn fyrir að vinna eðlilega að þessu máli í sátt við háskólasamfélagið, með samræðum og samráði við alla aðila, þá er þessu slengt hér inn en látið í veðri vaka að miklu meiri sátt sé um það en í raun og veru er, með því að vitna til þessarar þróunarnefndar frá 1994 sem skilaði margklofnu áliti og þar af leiðandi segja tilvitnanirnar í álit hennar ekki neitt þó að aftur og aftur sé klifað á því í greinargerðinni að þessi nefnd hafi skipt mjög miklu í þessu sambandi.

[15:15]

Síðan segir í áliti stúdentaráðs Háskóla Íslands, með leyfi forseta: ,,Rammalöggjöf á eingöngu að fela í sér einfaldar meginreglur um starfsemi háskóla. Hún verður að vera rúm svo hægt sé að taka tillit til sérstöðu hvers skóla í sérlögum hans. Það frumvarp um háskóla sem nú liggur fyrir þrengir starfsrammann um of. IV. kafli frumvarpsins kemur í veg fyrir það stjórnunarlega frelsi sem Háskóla Íslands er nauðsynlegt.``

Þetta vildi ég láta koma fram, herra forseti, til að láta þess getið að það eru ekki einasta mín viðhorf sem ég hef rakið í ræðu minni sem lúta í þá veru sem ég nefndi áðan heldur kemur það líka fram hjá aðilum eins og stúdentaráði Háskóla Íslands. Það eru heldur ekki einasta mín viðhorf að mönnum hafi verið þröngur stakkur sniðinn með þessu máli því það segir háskólinn líka, t.d. í bréfi til menntmn. Alþingis frá Háskóla Íslands sem er dagsett 5. maí 1997 þar sem segir svo, með leyfi forseta: ,,Háskólaráð æskir þess við Alþingi að háskólasamfélagið fái ráðrúm til haustsins til þess að geta fjallað rækilega um frumvarp til laga um háskóla.`` Síðan segir: ,,Frumvarpið sem nú liggur fyrir Alþingi mun binda háskólann við stjórnskipan sem hann telur sér ekki henta og svipta rektor þeirri stöðu sem hann hefur haft sem kjörinn oddviti háskólasamfélagsins frá upphafi.`` Hér er skýrt að orði kveðið.

Að lokum, herra forseti, vil ég segja að ég tel að sú umræða sem fer fram hér og mun fara fram í haust um háskólana er umræða um örlög háskólasamfélagsins á Íslandi. Ætla menn að gera háskólana að undirskrifstofum í menntmrn. eða ætla menn að þola það og horfa á það gerast að háskólarnir fái að þróast sjálfstætt og eðlilega og með eðlilegu og sanngjörnu samstarfi sín á milli? Ég tel að háskólarnir þurfi á öllu sínu að halda á næstu vikum og mánuðum til þess að verjast þeirri almennu pólitísku atlögu sem mér finnst að felist að sjálfstæði háskólasamfélagsins í þessum frv. Og hvað þýðir það? Er það ekki hið besta mál að gera háskólana bara eins og hvert annað fyrirtæki? Er ekki menntunin besta fjárfestingin? Þannig er nú yfirleitt talað um menntunina í seinni tíð, rétt eins og menntunin hafi ekkert menningarlegt gildi og innihald fyrir þá einstaklinga sem læra í skólum eða annars staðar. Ég held nefnilega að umræðan í haust snúist ekki aðeins um sjálfstæði háskólanna sem stofnana heldur líka um það að hve miklu leyti þeir geta skilað sínum hlut í betri lífskjörum á Íslandi á komandi árum og áratugum. Það væri ofboðslegt ef mönnum tækist að eyðileggja þann grunn sem hefur verið byggður upp allt frá árinu 1909 í starfsemi háskólanna í landinu núna á næstunni og þess vegna er alveg ljóst að það verður að taka tíma í að ræða þessi mál eins og kostur er bæði í menntmn. og hér í þessari virðulegu stofnun.