Háskólar

Þriðjudaginn 21. október 1997, kl. 15:19:31 (698)

1997-10-21 15:19:31# 122. lþ. 13.7 fundur 165. mál: #A háskólar# frv., ArnbS
[prenta uppsett í dálka] 13. fundur

[15:19]

Arnbjörg Sveinsdóttir:

Hæstv. forseti. Hér er til umfjöllunar frv. til rammalaga um háskólann. Frv. var lagt fram á Alþingi síðasta vetur. Frv. kom nokkuð seint fram þannig að vart var hægt að reikna með því að það yrði afgreitt á þinginu þrátt fyrir allgóða umfjöllun. Mál sem þetta er hins vegar svo viðamikið og snertir svo marga að það má teljast til bóta að það fái umræðu á tveimur þingum til þess að tryggja enn frekar vandaða umfjöllun.

Helsta markmiðið með setningu þessara laga er að festa í sessi skipan þess skólastigs sem tekur við af framhaldsskólastigi og kallað hefur verið háskólastig. Í frv. eru dregin saman þau meginskilyrði sem skólastofnun þarf að uppfylla til að geta talist háskóli og veita háskólagráðu við námslok. Gert er ráð fyrir að lögin geymi einungis einfaldar meginreglur um starfsemi háskóla og löggjöf hvers skóla verði síðan endurskoðuð og einfölduð en allar nánari útfærslur á starfsemi hvers skóla verði að finna í reglugerð. Mikilvægt atriði í frv. er að það gengur út frá því að háskólar geti bæði verið ríkisreknir og einkareknir.

Eins og fram kemur í heiti frv. er lögunum ætlað að staðfesta almenna stefnu stjórnvalda í málefnum háskólastigsins og tryggja lágmarkssamræmi í löggjöf einstakra háskólastofnana. Lögunum er ætlað að ná til allra menntastofnana sem taka við nemendum sem lokið hafa framhaldsskólanámi og uppfylla nánar tilgreind inntökuskilyrði. Þó að frv. sé með býsna víðan ramma setur það ramma og það á að tryggja hag nemenda. Námið skiptir hvern nemanda meira og meira máli fjárhagslega og persónulega því það er fjárfesting. Því skiptir máli að námið nýtist, frv. greiði fyrir að námið verði viðurkennt á milli skóla og skólastiga. Það á sem sagt að taka á því m.a. að gæði náms séu í lagi og það sé viðurkennt. Lögunum er ætlað að ná jafnt til skóla sem sinna rannsóknum og þeirra sem eingöngu sinna kennslu. Gert er ráð fyrir að lögin myndi ramma um ákvæði í sérlögum hvers skóla. Því er nauðsynlegt að endurskoða gildandi lög um hvern háskóla. Í lögunum er að því stefnt að skilgreina markmið háskólastarfseminnar, tryggja betur sjálfstæði háskóla, tryggja möguleika á virkara gæðaeftirliti með starfsemi skólanna og opna leið fyrir virka árangursstjórnun. Auk þess er lagt til að lögfestar séu meginreglur um stjórnsýslu ríkisháskóla og hlutverk æðstu stjórnenda þeirra skilgreind.

Verið er að skerpa á fimm megineinkennum:

1. Aukið sjálfstæði.

2. Gæðaeftirlit.

3. Efling rektorsembætta.

4. Skipulag skólastjórnar.

5. Kærumál nemenda.

Allt eru þetta meginatriði sem eru mjög mikilvæg í rammalöggjöfinni. Með auknu sjálfstæði er átt við að í frv. er lagt til að sjálfstæði háskóla verði eflt og ábyrgð þeirra aukin jafnframt því sem háskólunum er veitt víðtækara umboð til fjármálaumsýslu. Sérstaklega eru tilgreind þau svið sem ráðherra skal setja sérstakar reglur um. Er það aðallega á þeim sviðum sem nauðsynlegt er að tryggja samræmi í skólastarfseminni, t.d. reglur um heiti og inntak viðurkenndra háskólagráða.

Ég held að segja megi að umsagnaraðilar um frv. hafi almennt verið mjög jákvæðir. Menntmn. fékk mjög margar umsagnir og var greinilegt að kallað hefur verið eftir því að slík heildarlöggjöf eða rammalöggjöf um háskólastigið yrði sett. Bæði í umsögnum og viðtölum í menntmn. kom fram að mjög margir óskuðu þess eindregið að frv. yrði afgreitt á þinginu síðasta vetur en þó voru nokkur atriði sem þurftu nánari athugunar við. Í Háskóla Íslands höfðu menn t.d. nokkrar athugasemdir við hugmyndir um stjórnskipulag sem rammað er inn á nokkuð ákveðinn hátt í frv. Í umræðum í nefndinni og einnig í skoðunum gesta kom mjög til umræðu skilgreining á því hvað væri háskóli. Er háskóli skólastig sem tekur við af framhaldsskólanum? Er það nægileg skilgreining? Mikið var einnig rætt um hvort skóli þyrfti að sinna rannsóknarskyldu til þess að geta kallast háskóli. Hjá hinum stærri skólum kom skýrt fram að þeir reiknuðu ekki með að þeir minni og sérhæfðu skólarnir mundu sinna rannsóknum en þegar minni skólarnir ræddu málin töldu þeir að ekki væri hægt að nefna skóla háskóla nema hann sinnti rannsóknum en til þess þyrfti auðvitað fé og því þyrfti að reikna þann þátt inn í fjárveitingar. Í framhaldi af þessu þyrfti að skilgreina hvað væru rannsóknir í þessu sambandi, annars vegar akademískar grunnrannsóknir eða ættu hagnýtar rannsóknir að telja í þessu samhengi líka. Niðurstaða fékkst eðlilega ekki.

Í nefndinni var rætt um fullorðinsfræðslu, endurmenntun, fjarnám og skilgreiningar á því. En í því sambandi vitna ég í orð hæstv. menntmrh. í þingræðu á síðasta þingi þegar frv. var til umfjöllunar en hann sagði, með leyfi forseta:

,,Við vitum að fjarnám og annað slíkt sem er hægt að stunda án þess að menn fari inn í stofnun eða setjist á skólabekk í hefðbundnum skilningi er að aukast og háskólar hér ætla í auknum mæli að fara að bjóða upp á slíkt. Spurningin er sú að fá þá rétt til að skilgreina slíkt nám á faglegum forsendum og frv. veitir rétt til þess.``

Ég tel með öðrum kostum frumvarpsins að í 4. gr. er lagt til að menntmrh. geti veitt einkaskólum starfsleyfi starfi þeir eftir samþykktum eða skipulagsskrám sem menntmrh. hefur staðfest en staðfesting ráðherra er forsenda starfsleyfisins. Því er í 19. gr. lagt til að menntmrh. geti gert samning við félög, fyrirtæki eða stofnanir um að annast tiltekna menntun gegn ákveðinni greiðslu. Skilyrði fyrir slíkum samningi er að sjálfsögðu að viðkomandi skóli hafi fengið leyfi til þess að kenna á háskólastigi. Í framhaldi af þessu er rétt að benda á 24. gr. sem er um samstarf háskóla: ,,Háskólar skulu hafa með sér samráð og samstarf til að nýta sem best tiltæka starfskrafta og gagnakost og stuðla með hagkvæmum hætti að fjölbreyttri háskólamenntun. Í því skyni skulu háskólar m.a. setja reglur um gagnkvæma viðurkenningu námsþátta.``

Annað atriði sem gæti m.a. nýst á landsbyggðinni er að ríkisháskólum er heimilt að eiga aðild að rannsókna- og þróunarfyrirtækjum sem stunda framleiðslu og sölu í því skyni að hagnýta og þróa niðurstöður rannsókna sem háskólinn vinnur að hverju sinni. Einnig er lagt til að háskólar geti átt aðild að fyrirtækjum sem sinna rannsókna- og þróunarstarfi.

Hæstv. forseti. Að mínu viti þyrfti að skýra nokkuð hvernig háskólar eigi að standa að símenntun og endurmenntun á háskólastigi. Jafnframt að skýra hvað átt er við með orðalagi 2. gr. þar sem segir: ,,Háskólar skulu miðla fræðslu til almennings og veita þjóðfélaginu þjónustu í krafti þekkingar sinnar.`` Ég tel að ljóst sé að rammalöggjöfin rúmi býsna vítt svið háskólamenntunar og ýmiss konar form. Það er af hinu góða.