Háskólar

Þriðjudaginn 21. október 1997, kl. 15:50:59 (706)

1997-10-21 15:50:59# 122. lþ. 13.7 fundur 165. mál: #A háskólar# frv., GGuðbj (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 13. fundur

[15:50]

Guðný Guðbjörnsdóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Til að fyrirbyggja allan misskilning þá er ég alls ekki að mæla með skólagjöldum og finnst þau alls ekki góð hvort sem Tony Blair eða einhver annar hefur lagt þau til. Komið hefur í ljós, í Bretlandi einmitt, að skólagjöldin skila sér ekki til háskólanna. Fjárframlög eru bara lækkuð í staðinn. Þess vegna er engin trygging fyrir því, eins og gerðist þegar innritunargjöld í Háskóla Íslands voru hækkuð, því það varð til þess að fjárveitingar til háskólans voru lækkaðar. Ég hef því enga trú á því að það sé lausn fyrir Háskóla Íslands að hér verði tekin upp skólagjöld. Það er alveg á hreinu, hæstv. menntmrh.

Varðandi táknræna gildið, ef ég má aðeins koma að því, þá fagnaði ég orðum hæstv. menntmrh. og ég vona að hægt verði að finna gild rök innan menntmn. til að hnekkja því ákvæði sem nú er í frv.