Háskólar

Þriðjudaginn 21. október 1997, kl. 15:58:09 (710)

1997-10-21 15:58:09# 122. lþ. 13.7 fundur 165. mál: #A háskólar# frv., SvanJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 13. fundur

[15:58]

Svanfríður Jónasdóttir (andsvar):

Herra forseti. Hæstv. ráðherra minntist á að ef við litum til lengdar skólatíma og skoðuðum svo framlögin þá liti þetta öðruvísi út. Þá er það nú einmitt verkurinn líka að skóladagurinn og skólaárið á Íslandi er öðruvísi en víðast hvar annars staðar. Það er hluti af því að okkar kerfi skilar ekki sama árangri og þau sem við berum okkur saman við.

Ég er alveg sammála hæstv. ráðherra um að mikilvægt mál er hvernig námsaðstoð er háttað í hverju landi fyrir sig og hvort nemendur eru látnir greiða skólagjöld eða ekki. Það er mikilvægt mál og það er ástæða til að ræða það. Það sem ég var að gera, herra forseti, var að sýna, reyndar í afskaplega stuttu máli, hvernig ráðherrann talar fyrir þessari skoðun sinni þar sem hann setur sínar hugleiðingar fram og við hin megum lesa, þ.e. inni á netinu. Mér sýndist að sá kafli sem hann hafði valið til að setja inn sem rökstuðning hlyti í rauninni að segja okkur eitthvað allt, allt annað en ráðherrann ætlaðist til einfaldlega vegna þess að kaflinn sem hann valdi sagði okkur að skólagjöld, miðað við þessa uppsetningu, gætu hugsanlega átt við í mjög stéttskiptu þjóðfélagi en það á sem betur fer ekki við um það íslenska.