Háskólar

Þriðjudaginn 21. október 1997, kl. 16:14:17 (715)

1997-10-21 16:14:17# 122. lþ. 13.7 fundur 165. mál: #A háskólar# frv., menntmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 13. fundur

[16:14]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason) (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla ekki að fara út í umræðu um gæði einstakra skóla sem ég get ekki lagt mat á frekar en hv. þm. og það getur enginn maður svarað þessari spurningu þannig að til gagns sé heldur er þetta náttúrlega sett fram eins og svo margt annað. Ég er alveg hissa á hv. þm. að hann skuli setja sig í þessar útúrsnúningastellingar þegar þetta mikla mál er hér til umræðu og hann skuli láta í veðri vaka að þetta frv. skipti engu máli og því beri að skjóta á frest eins lengi og frekast er kostur. Hefur hann ekki kynnt sér umsagnir skólanna sem mæltu eindregið með því sl. vor eins og hv. þm. Arnbjörg Sveinsdóttir benti á. Það hvöttu allir skólar til þess að málið yrði afgreitt á sl. vori nema Háskóli Íslands sem bað um lengri frest. Enginn annar skóli bað um lengri frest. Þeir voru allir þess hvetjandi að þetta frv. næði fram að ganga og allir skólarnir telja að það sé þeim til framdráttar að frv. verði að lögum. Ég skil ekki hvers vegna hv. þm. setur sig í þessar einkennilegu stellingar gagnvart þessu frv. Það er ekki málefnalegt frekar en útúrsnúningur hans á orðum mínum varðandi skólagjöld, varðandi aðdraganda málsins, varðandi umbúnað og efni frv. þannig að hann hefur verið að tala um eitthvað allt annað í allan dag. Ég veit ekki hvers vegna þetta fer svona öfugt í hann að hann skilji ekki efni málsins og sjái ekki hag háskólastigsins af því að fá þetta frv. Það verða engin skólagjöld lögð á nema Alþingi samþykki það. Það verða engin skólagjöld lögð á að fengnum tillögum frá mér, því ég hef ekki gert neina slíka tillögu. Ég vil hins vegar að við ræðum þetta mál eins og önnur atriði sem hljóta að vera til umræðu þegar við fjöllum um fjárhagsmál menntakerfisins sem nauðsynlegt er að huga að með það í huga að auka fjárhagslegan styrk þess.