Kennaraháskóli Íslands

Þriðjudaginn 21. október 1997, kl. 16:29:32 (722)

1997-10-21 16:29:32# 122. lþ. 13.8 fundur 167. mál: #A kennara- og uppeldisháskóli Íslands# frv., SvG
[prenta uppsett í dálka] 13. fundur

[16:29]

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Það frv. sem hér liggur fyrir fjallar um sameiningu uppeldisskólanna í einum uppeldisháskóla. Það er stefnumið sem menn hafa lengi haft og ég hygg að það megi segja almennt séð að það sé samstaða um það stefnumið. Ég geri ekki ráð fyrir því að það komi upp mikill ágreiningur um það hér í þessari virðulegu stofnun frekar en í fyrravor.

[16:30]

Samt sem áður eru nokkur atriði sem óhjákvæmilegt er að ræða örlítið og mun ég nú fara yfir þau. Þá vil ég í fyrsta lagi einfaldlega endurtaka það sem ég tel vera aðalatriðið að hér er um að ræða tilraun til sameiningar þessara skóla og ég er sammála þeirri stefnu. Ég hef talað fyrir henni mjög oft og ég tel að hún sé skynsamleg. Ég er hins vegar ekki alveg sammála því að það eigi ekki að taka ákvörðun í leiðinni um að lengja kennaranámið og jafnvel þó að ekki sé gert ráð fyrir því í frv. eða lögunum þegar þau yrðu samþykkt út af fyrir sig held ég að það sé mikilvægt að Alþingi taki í leiðinni ákvörðun um að lengja kennaranámið upp í fjögur ár. Af þessu tilefni spyr ég hæstv. menntmrh. hvernig hann sér það mál fyrir sér. Sér hann það þannig fyrir sér að í fjárlögum næsta árs verði gert ráð fyrir fjármunum til að lengja kennaranámið eða hvernig sér hann þau mál þróast? Ég tel að ákvörðun um það sé hornsteinn þess að frv. um Kennara- og uppeldisháskóla Íslands sé meira en pappírsins virði.

Í annan stað vil ég víkja að því sem kom aðeins fram í umræðum hjá okkur áðan um háskólann að ýmislegt í frv. þrengir frelsi skólans frá því sem ég teldi vera heppilegt. Ég er mjög ákafur fylgismaður þess og hef alltaf talað fyrir þeirri stefnu að skólar hafi frelsi um stjórnkerfi sitt í öllum meginatriðum. Mér finnst að mjög víða í þessu frv., t.d. í ákvæðum um skipan háskólaráðs, rektorskjör, stjórn stofnunarinnar o.fl., sé um ræða beina þrengingu á því sem ég hefði viljað sjá í frv. að því er varðar kennara- og uppeldisháskóla.

Í þriðja lagi vek ég athygli á þeim umræðum sem fram hafa farið um nafn skólans. Ég vek athygli á umsögnum sem hafa birst frá kennurum við Kennaraháskóla Íslands, Baldri Sigurðssyni og Sigurði Konráðssyni, um þessi mál og reyndar einnig minnir mig greinargerð frá Íslenskri málstöð þar sem þeir benda á að orðið kennara- og uppeldisháskóli er ekki rökrétt þar sem gert er ráð fyrir því að um sé að ræða skóla sem annars vegar kenni fólki að vera kennarar og kenni fólki hins vegar uppeldi. Ég held að það sé alveg nauðsynlegt að það verði farið yfir þetta en ég viðurkenni og ég tek það fram, og í framhaldi af orðum mínum um þessi mál á síðasta þingi, að á bak við þetta heiti kunni að vera mikilvæg félagsleg rök um að ná sem bestri samstöðu um að skólinn verði myndaður. Ég lýsi mig reiðubúinn til að beygja mig fyrir þeim rökum en ég tel að þetta nafn sé ekki að öllu leyti gagnsætt og fullkomið eins og það lítur út og þarf helst auðvitað að vera.

Þá vil ég aðeins víkja að starfsmannamálum hins nýja skóla. Í ákvæði til bráðabirgða kemur fram að fastráðnir kennarar við alla skólana, sýnist mér, haldi stöðu sinni ótvírætt en aðrir starfsmenn skólanna eru í óvissu með stöður sínar. Í Kennaraháskóla Íslands háttar þannig til að um helmingur starfsmannanna er ekki kennarar og ég kann vel að meta að það sé reynt að ganga frá hlutunum skýrt að því er varðar kennarana en ég vil að það gildi um alla. Mér finnst ekki sanngjarnt að draga út ákveðinn hóp fólks og senda það út í óvissuna þegar aðrir búa við tiltölulega mikið öryggi. Ég spyr hæstv. menntmrh. hvernig hann sér fyrir sér meðferð starfsmannamálanna fyrir utan kennarana sjálfa.

Þá vík ég að einu atriði sem er skipun varanlegrar dómnefndar, og velti því upp hvort það er að öllu leyti heppilegt fyrirkomulag sem hér er gert ráð fyrir í 3. gr. frv. að rektor skipi þriggja manna dómnefnd, eftir tilnefningu háskólaráðs og menntmrh., til þriggja ára í senn til þess að dæma um hæfi umsækjenda til að gegna stöðu prófessors, dósents eða lektors. Í kerfi okkar hefur það verið þannig að við höfum skipað dómnefnd út af hverri stöðu fyrir sig. Það hefur auðvitað oft verið mikið fyrirtæki og tekur oft óþægilega langan tíma. Mér sýnist hins vegar að menn gætu verið að lenda í því ef þessi leið er farin --- ég velti því upp sem spurningu --- að hér yrði um að ræða fasta stofnun vegna þess að það yrði svo mikið að gera hjá þessum aðilum í þessu verki að þeir gerðu fátt annað en að sinna þessu, a.m.k. til að byrja með, því ég geng út frá því að þeir starfsmenn sem byrja við Kennara- og uppeldisháskólann verði metnir í dómnefnd, eða hvað? Ég spyr sérstaklega um hvernig það er hugsað um leið og ég vek athygli á þessu máli varðandi dómnefndina. Ég tel að það orki tvímælis að setja hana niður með þeim hætti sem þarna er gert ráð fyrir.

Síðan vek ég athygli á því, herra forseti, að enn þá gert ráð fyrir skólagjöldum og ég lýsi andstöðu við skólagjöldin í þessu frv. af hálfu þingflokks míns. Við höfðum það sem baráttumál á kosningastefnuskrá okkar fyrir síðustu alþingiskosningar að beita okkur fyrir því að skólagjöldin nýju yrði afnumin og það er stefna sem við viljum ítrekra og ég lýsi andstöðu okkar þingmanna við þar af leiðandi 4. gr. frv. eins og hún lítur út.

Ég vek einnig athygli á því, herra forseti, að svo virðist sem hinir ýmsu aðilar hafi haft mismunandi möguleika á að koma að frv. Ég bendi t.d. á að skólanefnd Íþróttakennaraskóla Íslands fékk málið til umsagnar eins og aðrir og sendi frá sér bréf sem er dagsett 5. maí 1997 þar sem fram kemur að skólanefndin telur sig hafa of stuttan tíma til að setja fram umsögn um þetta frv. Það er engu líkara á áliti skólanefndarinnar eða bréfi formanns skólanefndarinnar en að nefndin hafi ekki tekið saman álit á þessu frv. á undirbúningsstigi. Nú sé ég einhvers staðar í þessum pappírum að Íþróttakennaraskólinn hefur skoðun á málinu en ég sé ekki að skólanefndin hafi fjallað um það og mér finnst sérkennilegt, satt að segja, að ekki skuli hafa verið tryggt að allir aðilar sem eiga hlut að máli kæmu að því þannig að þeim gæfist tóm til að gera athugasemdir bæði við einstök og almenn atriði.

Herra forseti. Þetta frv. er, eins og það frv. sem við ræddum áðan, gallað að því leytinu til að reynt er að koma inn miðstýringarviðleitni hæstv. menntmrh. Ég mun fyrir mitt leyti reyna að gera það sem ég get til að beita mér fyrir því að það verði tekið út úr frv. og að háskóli kennara- og uppeldismála verði sjálfstæður háskóli. Meðan ráðherrann sækir svona á með ofstjórnartilhneigingu sína er erfiðara að ná fullri samstöðu um jafngóð mál og það sem hér er á ferðinni. En ég mun þó beita mér fyrir því eins og ég get að þær gömlu hugmyndir sem hafa verið uppi lengi um kennara- og uppeldisháskóla geti orðið að veruleika.

Að lokum spyr ég hæstv. menntmrh. að því hversu langt hann telur að starfandi verkefnisstjórn geti gengið og hvort það sé rétt að Þroskaþjálfaskólinn hafi þegar eða verði um næstu mánaðamót settur undir Kennaraháskólann með sérstökum samningi. Það er satt að segja dálítið skrýtið ef það er rétt vegna þess að við erum einu sinni að fjalla um þetta og þó að Alþingi líti ekki mjög stórt á sig, satt að segja í seinni tíð, þá finnst mér allt lagi að hinkra með ákvörðun af þessu tagi sem jafngildir því að leggja Þroskaþjálfaskólann niður og inn í Kennara- og uppeldisháskólann, eins og gerð er tillaga um og enginn ágreiningur er um það, en mér finnst allt í lagi að leyfa Alþingi að tala áður en það gerist. Ég spyr þess vegna hæstv. ráðherra hvort það sé rétt hjá mér að þegar hafi verið tekin ákvörðun um það að frá og með næstu mánaðamótum verði Þroskaþjálfaskólinn settur inn í Kennaraháskólann þó svo að þetta frv. hafi ekki verið gert að lögum.