Kennaraháskóli Íslands

Þriðjudaginn 21. október 1997, kl. 16:41:50 (723)

1997-10-21 16:41:50# 122. lþ. 13.8 fundur 167. mál: #A kennara- og uppeldisháskóli Íslands# frv., ÍGP
[prenta uppsett í dálka] 13. fundur

[16:41]

Ísólfur Gylfi Pálmason:

Herra forseti. Ég tel að það frv. sem er til umræðu sé löngu tímabært. Eins og hefur komið fram, m.a. í ræðu síðasta hv. þm. Svavars Gestssonar, er um gamlar hugmyndir að ræða sem við erum í stórum dráttum mjög sammála. Við ræddum frv. á síðasta þingi en því miður tókst okkur ekki að ljúka umræðu um frv. en ég vonast til þess að okkur takist það á þessu þingi.

Það er skoðun mín að mjög brýnt sé að tengja saman starfsemi þessarar stofnana. Þessar starfsstéttir eiga mjög margt sameiginlegt, þ.e. kennarar, leikskólakennarar, sem áður voru nefndir fóstrur, þroskaþjálfar og síðan íþróttakennarar. Rökin fyrir sameiningu þessara stofnana er í raun tvíþætt, annars vegar út frá menntapólitík og hins vegar út frá hagkvæmnissjónarmiðum. Sameining þessara stofnana leiðir til þess að það má samnýta kennara í þessum stofnunum, sérfræðingar nýtast einnig svo og ýmiss konar rannsóknastarf sem hægt er að vinna á sameiginlegum vettvangi.

Með frv. færist nám í þessum skólum inn á háskólastig en eins og þingmenn vita er nám í Kennaraháskóla Íslands einungis viðurkennt sem háskólanám en hinir skólarnir hafa í raun verið á gráu svæði eða í nokkurs konar lausu lofti á milli háskólastigs og framhaldsskólastigs. Ég sé einnig fyrir mér mjög marga nýja möguleika sem geta skapast ef frv. nær fram að ganga, m.a. í starfsemi skóla eins og Íþróttakennaraskólans á Laugarvatni. Í dag útskrifar Íþróttakennaraskólinn kennara. Mjög miklar breytingar hafa orðið á Íslandi hvað íþróttaiðkun viðvíkur og mjög margt ungt fólk stundar íþróttir í frítíma sínum og reyndar fullorðnir líka og það skiptir mjög miklu máli að þeir leiðbeinendur sem þar eru hafi tilskilin réttindi og tilskilda menntun. Ég sé fyrir mér ákveðnar breytingar í Íþróttakennaraskólanum hvað þetta varðar. Einnig sé ég fyrir mér að Íþróttakennaraskólinn geti tekið ákveðna braut, nokkurs konar æskulýðsfulltrúabraut, þar sem ungt fólk gæti stundað nám, vegna þess að það fólk sem er að vinna með ungu fólki hefur mjög mikil uppeldisleg áhrif og það skiptir auðvitað máli að námið í þessum stofnunum sé sem allra best og nýtist öllum sem best.

[16:45]

Í þessum skólastofnunum má segja að Íþróttakennaraskólinn sé sá skóli sem er hvað allra best upp byggður. Á síðasta áratug hafa verið byggð mjög mikil mannvirki á Laugarvatni. Sá skóli er einnig utan Reykjavíkur og það skiptir mjög miklu máli að þeir sem starfa við Íþróttakennaraskólann hafi beina aðild að stjórnun þessarar háskólastofnunar. Þess vegna finnst mér ekki úr vegi að í lögum þessum yrði ákvæði varðandi stjórnskipulag um að að einn fulltrúi frá Íþróttakennaraskólanum á Laugarvatni mundi sitja í háskólaráðinu og ég hvet ráðherra til þess að tryggja það.

Þessar skólastofnanir hafa tekið mjög mikinn þátt í alþjóðlegu samstarfi og ég veit að fulltrúar þeirra hafa ákveðnar áhyggjur af því hvernig þetta samstarf verður ef þessi lög taka gildi. Því spyr ég hæstv. menntmrh.: Hvernig ætlar hann að tryggja að þetta samstarf skili sér með sama, og sem allra mestum, árangri og verið hefur?

Að lokum vonast ég til að frv. leiði til þess að Kennara- og uppeldisháskóli Íslands verði öflug miðstöð uppeldis- og kennaramenntunar hér á landi og leiði til einfaldara og skilvirkara stjórnkerfis þessara skóla. Það er, eins og ég hef áður sagt, afar brýnt að samþykkja þetta frv. á þessu þingi, m.a. til þess að ekki komist los á starfsemi þessara framhaldsskóla.